Rannsóknir á botndýrum í Breiðafirði

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 18:40:00 (5247)


     Magnús Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa sérstökum stuðningi mínum við þetta mál. Eins og fram kom í máli flm. held ég að þetta sé mjög mikilvægt fyrir Breiðafjörð og byggðirnar þar. Raunar held ég að það sé enn mikilvægara fyrir þjóðina í heild að fara að stunda slíkar rannsóknir því satt að segja er ótrúlegt að ekki skuli hafa verið farið út í ítarlegri rannsóknir, fjölstofnarannsóknir eins og það er kallað, og þá ekki síður rannsóknir á áhrifum veiðarfæra. Ég held að með slíkum rannsóknum mundi gefast kjörið tækifæri til þess að rannsaka hvaða áhrif veiðarfæri eins og notuð eru við þessar veiðar hafi á lífríki botnsins.
    Ég er ekki einn um að hafa dálitlar áhyggjur af því hvernig við göngum um sjávarbotninn, þ.e. með hvaða veiðarfærum við tökum aflann og ég tel að ef byrja á að nýta ný mið eigi að nota tækifærið og rannsaka þau áhrif sem plógar eða önnur dráttarveiðarfæri hafa á lífríkið.
    Þegar maður skoðar línu- og súlurit sem fylgja þáltill. slær það mann svolítið að samkvæmt kenningu fiskifræðinga er þegar komin vísbending um ofveiði á þeim stofnum sem um er að ræða því að ljóst er að afli á hverja sóknareiningu hefur minnkað. Einnig hefur dregið úr magni á stórum hörpudiski --- nú er ég að vísu bara að tala um hörpudisk þar sem súluritin eiga við hann, en á sama tíma eykst magnið af smáhörpudiski. Ef ég hef skilið þetta rétt er þetta viss vísbending um að þarna sé ofveiði enda kom það fram í máli fyrri ræðumanna að veiði hefur verið að minnka undanfarin ár. Engu að síður held ég að það sé mjög mikilvægt að þessi rannsókn fari fram, þá eins og ég sagði ekki síst með tilliti til áhrifa veiðarfæra sem notuð eru. Einnig held ég að full ástæða sé til að bera niður víðar í kringum landið því að menn telja sig vita af staðbundnum stofnum í þessum flokki, þ.e. skelfiskinum af ýmsum tegundum og öðrum tegundum sem þarna eru talin upp og hægt væri að nýta, a.m.k. að einhverju magni og skapa bæði verðmæti og vinnu sem ekki er vanþörf á núna.
    Ég lýsi svo enn og aftur stuðningi við málið.