Velferð barna og unglinga

120. fundur
Þriðjudaginn 07. apríl 1992, kl. 18:50:00 (5249)

     Flm. (Jón Helgason) :
    Herra forseti. Á þskj. 600 hef ég leyft mér ásamt níu öðrum hv. alþm. að flytja till. til þál. um velferð barna og unglinga sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt og semja skýrslu um orsakir vaxandi erfiðleika og hættur fyrir börn og unglinga sem koma m.a. fram í aukinni neyslu vímuefna, sjálfsvígum, ofbeldi og öðrum afbrotum.
    Til að vinna að þessu verkefni skipi ríkisstjórnin nefnd með fulltrúum frá öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi. Í starfi sínu leiti nefndin upplýsinga hjá þeim stofnunum, félagasamtökum og öðrum aðilum sem um þetta mál hafa fjallað.
    Nefndin skili skýrslu sinni og ábendingum um úrbætur svo fljótt að taka megi málið til meðferðar á næsta Alþingi í samræmi við þá niðurstöðu sem nefndin kemst að í starfi sínu.``
    Þáltill. fylgir stutt greinargerð þar sem ekki er þörf á löngum útskýringum að mínu mati. Hinar sorglegu staðreyndir sem blasa hvarvetna við í þjóðfélaginu tala þar svo skýru máli og af þeim sökum tel ég heldur ekki þörf á langri framsögu. Ég legg ekki eingöngu áherslu á orð í þessu sambandi heldur fyrst og fremst á athafnir og því vænti ég þess að tillagan komist sem fyrst til nefndar og að nefndin afgreiði hana svo fljótt að hana megi samþykkja nú á þessu þingi.
    Tillagan byggir á því að hinir eldri, sérstaklega stjórnvöld og aðrir sem forræði hafa í þjóðfélaginu, bera ábyrgð á því umhverfi sem börn og unglingar alast upp í. Það er þetta umhverfi sem skapar þau örlög sem eru dapurleg fyrir allt of mikinn fjölda þeirra. Lögð er áhersla á það með þessari málsmeðferð að draga það fram hvað orsakar þessi örlög og reyna síðan að breyta því sem veldur þeim svo ekki þurfi sífellt að glíma við hinar ömurlegu afleiðingar heldur getum við dregið úr vandanum.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa tillögu á þessu stigi. Þetta efni snertir mörg ráðuneyti og því mætti vísa því til margra nefnda en af þeim sökum legg ég til að tillögunni verði vísað til 2. umr. og allshn.