Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 13:55:00 (5257)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka þessa ræðu hv. 1. þm. Austurl. Ég ætla ekki heldur að gera lítið úr ágiskunum hans sem komu fram í ræðunni og vissulega er hægt að lýsa yfir ánægju með frammíköll, ef þau bókast hér, sem urðu síðan milli hans og hv. 14. þm. Reykv. Ég ætla ekki að rifja það mál upp, sem snertir skattgreiðslur vegna arðs, það

höfum við rætt hér heilmikið fyrr á þessu þingi. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til þess að það ákvæði tekju- og eignarskattslaganna sé tekið upp í tilefni af þessu frv. einu sér því það er eingöngu flutt til þess að samræma ákvæði laga um Söfnunarsjóðinn ákvæðum sem nú er að finna í almennum lífeyrissjóðum. Hitt er svo annað mál að nýlega var gefin út áfangaskýrsla af nefnd sem hefur verið að kanna samræmingu á skattlagningu eigna og eignatekna og af því tilefni þarf að koma fram að að því er stefnt að flytja frv. um það efni, vonandi á þessu þingi. Við það tækifæri finnst mér eðlilegt að fjallað verði um það mál sem hv. síðasti ræðumaður gerði hér að sérstöku umtalsefni.