Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 13:57:00 (5258)


     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tók eftir því að hæstv. fjmrh. sagðist vænta þess að flytja frv. til laga um breytingu á skattlagningu eignatekna á þessu þingi. Ég hef miklar efasemdir um að það verði gert, hæstv. fjmrh., miðað við þann tíma sem eftir stendur af þessu þinghaldi og miðað við það hvernig málið stendur samkvæmt þeirri skýrslu sem hefur verið lögð fram. Mér þykir því ekki mikið á það treystandi að það mál fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Ég tel hins vegar mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem þarna hefur skapast og vænti þess að hæstv. fjmrh. hafi a.m.k. ekki á móti því að efh.- og viðskn. beiti sér fyrir breytingum í þessu efni, ég skil orð hans svo. Jafnvel þó að einhverjir aðrir einstakir ráðherrar kunni að hafa athugasemdir þar við, þá vil ég biðja hæstv. fjmrh. lengstra orða að fara ekki að viðurkenna neitunarvald einstakra ráðherra hér á Alþingi þó að það kunni að vera viðhaft í núv. ríkisstjórn.