Lífeyrissjóður ljósmæðra

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 13:59:00 (5259)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég fylgi hér úr hlaði frv. sem er 444. mál þingsins og er að finna á þskj. 702. Þetta er frv. til laga um að leggja niður Lífeyrissjóð ljósmæðra. Frv. er afar stutt, það er í þremur greinum.
    1. gr. fjallar um að lögin skuli falla úr gildi.
    2. gr. að allar skuldbindingar sem á sjóðnum hvíla falli á ríkissjóð.
    3. gr. er gildistökugrein og þar er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.
    Þetta frv. er flutt að tillögu Ljósmæðrafélags Íslands en Ljósmæðrafélagið leggur til að Lífeyrissjóður ljósmæðra verði lagður af. Lífeyrissjóðurinn var stofnaður með lögum 1938 og þeim lögum hefur lítið verið breytt frá setningu ef undan er skilið að gerðar voru örlitlar breytingar á lögunum árið 1940.
    Þessi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður ljósmæðra, tók til allra lögskipaðra ljósmæðra nema þeirra sem störfuðu í bæjum og voru tryggð þar sömu eftirlaun og öðrum föstum starfsmönnum bæjanna. Sjóðurinn tók heldur ekki til þeirra ljósmæðra sem störfuðu við fæðingardeild Landspítalans.
    Með lögskipuðum ljósmæðrum var átt við þær ljósmæður sem skipaðar voru til að gegna ljósmóðurumdæmum samkvæmt ljósmæðralögum frá 1933. Í öllum meginatriðum fylgdi skipting landsins í ljósmóðurumdæmi, hreppa- og kaupastaðamörkum, svo segja má að ljósmóðir hafi verið í hverjum hreppi. Til þessara ljósmæðra var lífeyrissjóðnum ætla að taka.
    Það kom fram í grg. með frv. sem flutt var 1933 að ljósmæður voru þá taldar tæplega 200, eða nánar tiltekið 198 talsins. Þetta ljósmóðurumdæmakerfi var lagt af með lögum nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, sem tóku gildi árið 1984.

    Þessi starfsstétt, umdæmisljósmæður, sem ein skyldi eiga aðild að Lífeyrissjóði ljósmæðra, er því ekki lengur til og því er ekki lengur um það að ræða að iðgjöld séu greidd til sjóðsins eða að neinn sjóðfélagi ávinni sér þar frekari rétt en orðið er.
    Í athugasemdum með þessu frv. er athyglisverð lýsing á réttindaákvæðum þessara laga sem eru með fyrstu lögum sinnar tegundar. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla hér nákvæmlega um þau atriði þar sem þau hafa verið prentuð í þskj., en bendi á að fram koma rök að leggja beri Lífeyrissjóð ljósmæðra niður. Rökin eru í stuttu máli þessi:
    1. Starfsstétt sú sem lífeyrissjóðnum var ætlað að sinna er ekki lengur til.
    2. Réttindareglur sjóðsins eru löngu úreltar.
    3. Sjóðurinn er tómur.
    4. Starfandi ljósmæður landsins eiga eðlilega aðild að öðrum almennum lífeyrissjóðum.
    Þess skal getið, og reyndar kemur það fram í grg., að Ljósmæðrafélag Íslands hefur gert tillögu um hvernig fara skuli með skuldbindingar sjóðsins þegar hann verður lagður niður og hvernig greiðslum til sjóðfélaga skuli háttað.
    Af samþykkt frv. sjálfs leiðir ekki neinn kostnaðarauki fyrir ríkissjóð enda er sjóðurinn skv. 1. gr. gildandi laga eign ríkisins og ríkissjóður ábyrgist greiðslur úr honum skv. 3. gr. laganna og skuldbindingar sjóðsins eru óverulegar.
    Þess skal getið að fjármunum hefur verið ráðstafað til þeirra sem njóta réttinda úr sjóðnum í gegnum fjárlög á ári hverju umfram það sem sjóðurinn hefur greitt sjálfur.
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðulaust að fara fleiri orðum um þetta frv. Þetta er einfalt frv. og flutt að beiðni Ljósmæðrafélagsins. Ríkissjóður mun taka að sér allar skuldbindingar sjóðsins. Þær ljósmæður sem hafa átt réttindi og eiga réttindi í þessum sjóði nú eru sumar fullorðnar og þess dæmi að þær séu yfir 100 ára, en þær yngstu tíu eru flestar rétt innan við sjötugsaldur.
    Ég tel að réttindum þessara kvenna sé fullkomlega sinnt með öðrum hætti og þar sem ríkissjóður á sjóðinn sé engin ástæða til þess lengur að halda honum úti sem sérstakri einingu.
    Að svo mæltu legg ég til að þetta frv. verði sent til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.