Yfirskattanefnd

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 14:06:00 (5260)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hér eru tvö frv. til umræðu í einu, enda náskyld. Í fyrsta lagi frv. til laga um yfirskattanefnd. Það frv. er að finna á þskj. 722, 464. mál þingsins. Hitt frv. er 465. mál þingsins á þskj. 723 og er frv. til laga um breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og er það fylgifrv. með hinu frv.
    Ef litið er til aðalfrumvarpsins og könnuð efnisatriði í því og samanburður gerður við efnisatriði í gildandi lögum má benda á eftirtalin atriði:
    1. Löggjöf um yfirskattanefnd verður í sjálfstæðum lögum enda fjallar nefndin um skattamál almennt. Í gildandi lögum eru ákvæði um nefndina í lögunum um tekjuskatt og

eignarskatt. Þetta tiltæki ætti að verða til þess að undirstrika sjálfstæði nefndarinnar og mikilvægi hennar.
    2. Nefndarmenn verða, ef frv. verður samþykkt, allir í föstu starfi, skipaðir til sex ára í senn. Núverandi fyrirkomulag er þannig að tveir nefndarmenn eru fastir en fjórir í hlutastarfi, skipaðir til sex ára í senn.
    Með þessari breytingu er hugmyndin að flýta afgreiðslu mála hjá nefndinni og, það sem er ekki síður mikilvægt, að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra sem geta orðið ef í nefndinni eru aðilar sem vinna jafnframt að eins konar málflutningi gagnvart nefndinni eins og er í dag.
    3. Samkvæmt frv. er opnaður sá möguleiki að nefndin kalli sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á. Ekki er þó gert ráð fyrir að umræddir sérfræðingar taki sæti í nefndinni og kveði upp úrskurði.
    Varðandi þetta atriði er rétt að benda á að þau rök hafa komið fram að það geti verið heppilegt að fulltrúar í ríkisskattanefnd, sem eftir breytinguna mun heita yfirskattanefnd, komi úr röðum þeirra sem vinna við skattframtöl og bókhald fyrirtækja. En á móti kemur sú röksemd, eins og getið var um í 2. lið að um hagsmunaárekstra geti orðið að ræða. Til þess að sameina þetta tvennt og ná kostunum fram er opnaður þessi möguleiki að nefndin kalli sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á.
    4. Kærufrestur skattaðila til nefndarinnar er óbreyttur, þ.e. 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra eða ríkisskattstjóra.
    5. Frestur ríkisskattstjóra til að skjóta úrskurði skattstjóra til nefndarinnar er styttur verulega, þ.e. úr þremur mánuðum í 30 daga en þetta er gert til að flýta meðferð og ákvörðun gagnvart skattborgurunum um það hvort skattamál hans sé til meðferðar eða ekki.
    6. Frestur ríkisskattstjóra til að senda rökstuðning frá sér vegna mála sem eru kærð til nefndarinnar er samkvæmt frv. 45 dagar. Í gildandi lögum er fresturinn 30 dagar en hefur í reynd komist upp í að vera allt upp undir eitt ár. Gert er ráð fyrir því að ríkisskattstjóri haldi sig innan umrædds frests, þ.e. innan 45 daga frestsins.
    7. Lögð er skylda á nefndina að hafa úrskurðað um kærur þremur mánuðum eftir að henni hefur borist greinargerð ríkisskattstjóra. Núgildandi frestur er sex mánuðir en hefur í reynd oft verið mun lengri eins og fram kemur í athugasemdum við frv.
    8. Lögð er áhersla á að úrskurðir nefndarinnar séu ítarlega rökstuddir þannig að í forsendum þeirra komi skýrt fram á hvaða málsástæðum, kæruefnum og skattheimildum er byggt. Þetta er mjög mikilvægt enda er nauðsynlegt að rök nefndarinnar fyrir skattaákvörðun séu skýr og ótvíræð. Það er þýðingarmikið fyrir réttaröryggi að niðurstöður séu rökstuddar þannig að skattaðilar sjái ótvírætt á hverju er byggt, svo og að ljóst sé af úrskurði hvaða fordæmi felist í honum fyrir skattframkvæmd. Ef vel tekst til í úrskurði nefndarinnar ætti það að draga úr því að menn leiti til dómstóla með niðurstöður hennar.
    9. Sameinaðar eru tvær nefndir, þ.e. ríkisskattanefnd og sektarnefnd staðgreiðslu þannig að sektarmeðferð verður á einum stað eftir breytingu. Og það er einmitt vegna sektarnefndarinnar sem gerð er tillaga til breytingar á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, en í þeim lögum er ákvæði um sektarnefnd. Verður því ákvæði breytt þannig að yfirskattanefnd fjalli um þau mál sem hingað til hafa gengið til sektarnefndar.
    Þess skal getið, virðulegi forseti, að það er algengt í dag að frá því að kærandi leggur fram kæru og þar til máli lýkur hjá ríkisskattanefnd líði eitt til tvö ár. Aðalatriðið er að þessi tími styttist í sex mánuði. Það er hugsað með þeim hætti að skattaðili og ríki hafi 30 daga til að kæra úrskurð skattstjóra til nefndarinnar. Nefndin á síðan að senda málið tafarlaust til ríkisskattstjóra. Slíkt gæti tekið 15 daga eða þar um bil. Ríkisskattstjóri hefur þá 45 daga til að gefa umsögn um málið eftir að það berst honum og nefndin síðan 90 daga til að úrskurða í málinu en samtals eru þetta 180 dagar eða um sex mánuðir.
    Ýmsar upplýsingar koma fram í athugasemdum með lagafrv. en frv. er samið af starfsmönnum á tekjuskrifstofu fjmrn. Þegar ríkisskattanefnd varð til árið 1932 voru starfandi skattanefndir, nema í Reykjavík, sem sáu um álagningu opinberra gjalda en þá voru

jafnframt til yfirskattanefndir sem úrskurðuðu um ágreining milli skattaðila og framteljenda í hverju lögsagnarumdæmi. Þannig er nafnið ,,yfirskattanefnd`` ekki nýtt í íslenskum lögum en er tekið upp aftur í þessu frv. til þess að skýra skilin sem eru á milli ríkisskattstjóraembættisins annars vegar og þessa úrskurðaraðila hins vegar sem í dag er ríkisskattanefnd en verður yfirskattanefnd.
    Það var árið 1972 sem ríkisskattanefnd varð að sérstakri stofnun án tengsla við ríkisskattstjóraembættið. En því miður er það svo að ýmsir telja að ríkisskattstjóraembættið og ríkisskattanefnd sé enn eitt og sama fyrirbærið.
    Sektarnefnd staðgreiðslu var sett á laggirnar með lögum nr. 90/1987. Hlutverk hennar er að úrskurða um sektir vegna brota á staðgreiðslulögum. Í nefndinni hafa setið þrír menn í hlutastarfi, þar af einn sem ríkisskattstjóri tilnefnir. Að áliti okkar í fjmrn. er fyrirkomulag þetta um margt óhentugt og óeðlilegt að fulltrúi ríkisskattstjóra sem fer með framkvæmd á staðgreiðslu sitji í nefndinni. Með þessu frv. er gert ráð fyrir því að nefndin verði lögð niður og störf hennar falin yfirskattanefnd.
    Ég legg áherslu á nauðsyn þess að starfsemi æðsta úrskurðarvalds á stjórnsýslustigi í skattamálum verði þannig tryggð að gjaldendur geti fengið úrlausn mála sinna með eðlilegum hætti á tilskildum tíma. Eins og fram hefur komið áður í mínu máli dregur mikill dráttur á uppkvaðningu úrskurða mjög verulega úr skilvirkni skattframkvæmdar og góðrar innheimtu. Þess gætir nokkuð að innheimta skattkrafna dragist vegna deilumála fyrir ríkisskattanefnd og þar með eykst hættan á tapi ríkissjóðs og sveitarfélaga á skattkröfum. Tafir í afgreiðslu skattamála draga einnig mjög verulega úr að réttaröryggi sé tryggt í stjórnsýslunni. Það má bæta úr þessu ástandi með eflingu æðsta úrskurðaraðila á stjórnsýslustiginu í skattamálum og tryggja þannig greiða skattframkvæmd.
    Ég vil að lokum rifja upp helstu atriðin sem felast í þessum frumvörpum sem hér eru til umræðu.
    1. Gert er ráð fyrir að unnt verði að flýta verulega meðferð mála fyrir yfirskattanefnd en afgreiðslutími hjá ríkisskattanefnd er nú milli eitt og tvö ár.
    2. Allir nefndarmenn verða í föstu starf en tímabundið í sex ár, þó þannig að í fyrsta sinn eru skipaðir menn í nefndina til fjögurra, sex og átta ára þannig að tveir láta af störfum í senn með tveggja ára millibili.
    3. Nefndinni er heimilt að kalla sér til aðstoðar og ráðgjafar sérfróða aðila.
    4. Frestur nefndarinnar til afgreiðslu í einstökum málum er styttur.
    5. Kærutími ríkisskattstjóra til nefndarinnar er styttur verulega.
    6. Sektarnefnd staðgreiðslu og ríkisskattanefnd eru lagðar niður.
    7. Nefndarmönnum er óheimilt að hafa afskipti af skattframkvæmd á fyrri stigum.
    8. Krafist er ítarlegs rökstuðnings nefndarinnar fyrir niðurstöðu kærumála.
    9. Opnaður er möguleiki á að nefndin geti starfað í tveimur deildum.
  10. Frv. gerir ráð fyrir sérlögum um starfsemi æðsta úrskurðaraðila á stjórnsýslustigi í skattamálum.
  11. Nefndinni er heimilt að starfa utan Reykjavíkur þegar hún telur þörf á.
    Ég vil að síðustu geta þess, virðulegi forseti, að a.m.k. tvisvar sinnum hefur verið reynt að afgreiða frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt með þeim hætti að tekist hefur verið á við þetta verkefni. Í bæði skiptin hefur það gerst að efnisatriði málsins hafa verið skilin frá öðrum atriðum og átt að ræða þau síðar í hv. efh.- og viðskn. --- eða í hv. fjárhags- og viðskiptanefnd eins og hún hét áður en yfirstandandi kjörtímabil hófst. Nú er brugðið á það ráð að flytja sérstakt frv. um þetta mál og gera það heldur viðurhlutameira. Það er von mín að málið geti fengið afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Að sjálfsögðu munu fulltrúar ráðuneytisins og ríkisskattstjóra, svo og ríkisskattanefndar gefa allar upplýsingar sem um verður beðið þegar hv. nefnd. tekur til starfa um þetta mál. Frv. er afar skýrt. Það er sett upp með nokkuð nýjum hætti þar sem fyrirsögn tilheyrir hverju efnisatriði, hverju ákvæði reyndar, þannig að tiltölulega auðvelt er að fletta upp í frv. og væntanlega má lögfesta frv. með þessum kaflaskiptum sem yrði til bóta fyrir þá sem nota lögin og nota bækur, lagasafn sem lögin hefur að geyma.

    Ég legg til að báðum frumvörpunum, frv. til laga um yfirskattanefnd og frv. til laga um breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, verði vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.