Yfirskattanefnd

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 14:49:00 (5263)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Ég get tekið undir flest það sem fram hefur komið í þessari umræðu. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við þá meginhugsun og meginhugmynd sem liggur að baki þessa frv. Það er auðvitað góðra gjalda vert að reyna að bæta innheimtu skatta og að sjá til þess að það verði skorið úr þeim málum sem valda deilum á sem allra skemmstum tíma. Það eru athyglisverðar upplýsingar sem koma fram í grg. um hvernig þessi mál ganga fyrir sig í því kerfi sem við nú höfum og þær tölur sýna auðvitað svart á hvítu að þarna þurfa úrbætur að eiga sér stað. En í grg. kemur fram að nú bíði afgreiðslu hjá nefndinni 1.400 mál og þannig hafi það verið á undanförnum árum. Ég vona að það hafi ekki verið svo á þeim 12 árum sem nefndin starfaði, en þetta sýnir auðvitað að þarna er mikill seinagangur á ferð.
    Eins og fyrri ræðumenn hafa vakið athygli á er spurning hvort sú leið sem hér er valin verði til þess að bæta meðferð mála, hvort það sé endilega lausnin að fjölga fastráðnum starfsmönnum. Það verður fróðlegt að heyra hvað þeir sem vinna í þessum málum hafa um þetta að segja. En ef menn eru þeirrar skoðunar að fyrst og fremst vanti meiri festu í starfið og betri skipulagningu þá eru þessar hugmyndir auðvitað af hinu góða.
    Það hefur verið spurt að því og ég get tekið undir þá spurningu hvort hér sé nógu margt fólk sem er sérmenntað í þessum fræðum og hvort það muni takast að manna yfirskattanefnd með góðum hætti.
    Mig langar líka að spyrja hæstv. fjmrh. út í einstök atriði í þessu frv. Þá er fyrst að nefna það að í 9. gr. er tekin sú stefna að sex menn skuli sitja í yfirskattanefnd í fullu starfi og sú spurning vaknar auðvitað hvort þetta dugi. Er þetta nægjanlegt? Hvaða rök liggja þarna að baki?
    Í þessu sambandi langar mig að varpa fram þeirri tæknilegu spurningu hvort það sé eðlilegt í lagatexta eins og þessum, þar sem um það er að ræða að skilgreina hvaða kröfur beri að gera til viðkomandi starfsmanna, að vísa þá yfir í önnur lög. Ég hefði talið eðlilegra að það væri skilgreint í lögunum hvaða kröfur þarna eigi að uppfylla. Það kemur reyndar fram í öðrum greinum, þar sem verið er að tala um málsmeðferð og hlutverk yfirskattanefndar, að þar er verið að vísa í önnur lög enda um margs konar lög að ræða þar sem skattar og skyldur koma við sögu. Mér finnst spurning hvort rétt sé í lagatexta að fara þessa leið.
    Þá vil ég taka undir það sem kemur fram í 19. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Yfirskattanefndarmönnum er óheimilt að hafa afskipti af skattframkvæmd á öðrum málsstigun eða fyrir einstaka skattaðila.``
    Mér finnst þetta vera til góðs, menn eiga ekki annars vegar að vinna að framkvæmd hlutanna og síðan að hafa eftirlit með sjálfum sér. Það ber auðvitað alltaf að forðast slíkt.
    Þá finnst mér líka vera góð hugsun í því að það eigi sér stað ákveðin endurnýjun í þessari yfirskattanefnd samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II, þó ekki sé þar með sagt að ekki verði skipaðir sömu mennirnir aftur og aftur, en þetta er ákveðin tilraun til þess að hafa þarna sveigjanleika.
    Mig langar líka að víkja að því sem kemur fram í 4. gr., að gert er ráð fyrir því

að nefndinni sé ætlað aðsetur í Reykjavík. Nú eiga sér stað hér á Alþingi oft og tíðum umræður um flutning ríkisstofnana út á land og ég hefði gaman af því að heyra álit hæstv. fjmrh. á því hvort það sé nauðsynlegt að yfirskattanefndin sitji í Reykjavík með alla þá tækni sem við nú búum yfir, tölvutækni og slíkt. Ég vil koma því á framfæri að ég tel vel koma til greina að flytja yfirskattanefnd eitthvert út á land. Það þarf ekki endilega að vera mjög langt.
    Ég sit í efh.- og viðskn. og fæ þar með tækifæri til þess að skoða þetta mál sérstaklega og ræða við þá sem við viljum þar ræða við en ef raunin reynist sú að sú leið sem hér er valin verði til þess að bæta meðferð skattamála, þá er hér að sjálfsögðu um gott mál að ræða.