Yfirskattanefnd

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 14:55:00 (5264)


     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frv. skuli vera komið fram og lýsi yfir stuðningi mínum við það. Ég held það sé enginn vafi á því að hröð meðferð skattamála skiptir afskaplega miklu máli og framkvæmd alls skatteftirlits er meðal mikilvægustu þátta í stjórnsýslu okkar. Þess vegna skiptir verulega miklu máli að þeir aðilar, sem eiga að úrskurða kærur, úrskurða um skattalegar ákvarðanir, vinni vel og faglega og að öll löggjöf sem lýtur að þeirri framkvæmd sé skýr og greinileg. Ég vil þess vegna lýsa því yfir að þetta frv. er að mínu mati nauðsynlegt og mikilvægt og það ber að undirstrika mikilvægi þessa verkefnis sem yfirskattanefnd er ætlað að vinna.
    Hér hefur verið rætt um það að hröð meðferð sé e.t.v. ekki tryggð með samþykkt þessa frv. Ég vil að nokkru taka undir það, ég sé ekki að það sé tryggt. T.d. er það auðvitað augljóst að yfirskattanefnd er samkvæmt frv., og svo sem eðlilegt er, gert að leita umsagnar og leita gagna hjá skattstjórum og ríkisskattstjóraembættinu. Ég hef grun um það að e.t.v. hafi flöskuhálsinn einmitt legið í þeim embættum fremur en annars staðar og eftir sem áður, þrátt fyrir yfirskattanefnd og miðað við núverandi aðstöðu skattstjóraembættanna og þau starfslegu skilyrði sem skattstjórum eru búin, þá gæti orðið verulegur dráttur á afgreiðslu og úrskurði yfirskattanefndar. Þess vegna tel ég og tek undir þær ábendingar sem hér hafa komið fram að það ber að bæta starfsaðstöðu skattstofanna og ríkisskattstjóraembættisins til þess að yfirskattanefnd geti unnið með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir. Það er m.a. hlutverk okkar á hinu háa Alþingi að búa svo um hnúta að þessir mikilvægu þættir skattkerfisins vinni við aðstæður sem tryggi það að þeir sem eiga að greiða skatta og fá úrskurði skattstjóra en kæri fái bærilega meðferð.
    Ég vil taka undir með hv. 18. þm. Reykv. að þrátt fyrir allt sé ég ekki ástæðu til þess að það sé sett í lög að yfirskattanefnd verði endilega í Reykjavík og ég fagna því að hv. þm. Reykv. skuli hafa svo skarpan skilning á því að það beri ekki allt að setja niður hér í okkar ágætu höfuðborg.
    En varðandi það sem segir í 10. gr. frv. um sérfróða aðila, þá tel ég að það skipti mjög miklu máli, og vil undirstrika það, að yfirskattanefnd hafi greiðan og góðan aðgang að sérfræðingum og það geti einmitt orðið styrkur yfirskattanefndar að hafa aðgang að sérfræðingum til þess að vinna tiltekin atriði og það beri að stuðla að því að svo geti orðið. Með þeim orðum vil ég að lokum lýsa yfir stuðningi við þetta frv.