Fjáraukalög 1991

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 21:02:00 (5274)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þær umræður sem farið hafa fram um fjáraukalagafrv., þetta endanlega fjáraukalagafrv. vegna ársins 1991.
    Mig langar til að fara örfáum orðum um nokkur atriði sem komu fram í ræðum hv. þm. sem reyndar eiga allir sæti í hv. fjárln. og munu því hafa tækifæri til þess að kynna sér þetta mál betur en flestir aðrir á næstu dögum og vikum því nú þegar er byrjað að

fjalla um frv. í nefndinni, ef ég veit rétt, og verður áfram haldið á næstunni.
    Hv. þm. Guðmundur Bjarnason vék að virðisaukaskattinum og mun ég koma að því máli síðar, en hann sagði að fyrrum ráðherra, hv. 8. þm. Reykn., hefði bætt eftirlitið en það virtist svo sem slakað hefði verið á á síðari hluta ársins. Þetta er ekki rétt. Það var ákveðið í fjárlögum fyrir árið 1991 að gera átak í framhaldi af því að Alþingi hafði samþykkt að setja upp sjóðvélar svokallaðar og Alþingi samþykkti að ráða nokkra menn tímabundið til þess að fylgjast með framkvæmd þess máls. Þetta voru tímabundnir ráðningarsamningar. Þeir voru framlengdir um stutta stund til viðbótar því sem áætlað hafði verið fyrir í fjárlögum, en engar aðrar áætlanir voru uppi né heldur var gert ráð fyrir því í fjárlögum sl. árs að halda þessu starfi áfram. Þetta er ekki skatteftirlit í þeim skilningi sem við tölum oftast um, né heldur hert innheimta eins og sumir hafa haldið að verið hafi á þessum tíma, heldur var einungis verið að fylgjast með því hvort fyrirtæki færu að lögum sem Alþingi hefur sett og settu upp sjóðvélar með þeim hætti sem lög bjóða og þær væru notaðar með þeim hætti. Vissulega er þetta gagnlegt en hefur samt ekki með innheimtu að gera né heldur skil og ekki heldur eftirlit í þeim skilningi sem það orð er oftast notað.
    Ég mun víkja að því síðar í minni ræðu, vegna þess að allir ræðumennirnir ræddu um virðisaukaskattinn sem eðlilegt er því um það er nokkuð fjallað í yfirliti því sem fjmrn. gaf út undir heitinu ,,Skýrsla um ríkisfjármál árið 1991``.
    Hv. 1. þm. Norðurl. e., Guðmundur Bjarnason, spurði nokkurra spurninga. Hann spurðist fyrir um það hvað fælist í þeim tæpu 190 millj. sem eftir hefðu staðið í viðskrn. og vildi fá nánari sundurliðun. Því miður get ég ekki svarað honum öðru til en því að hér er um að ræða niðurgreiðslur og þær eru ekki sundurliðaðar að öðru leyti. Það voru minni not fyrir niðurgreiðslur vegna minni sölu og það er meginskýringin, en væntanlega er hægt að fá, ef um er að ræða frekari sundurliðun, þær upplýsingar frá viðskrn. á næstu dögum af nefndarinnar hálfu.
    Þá spurði hv. þm. að því hvernig stæði á 175,5 millj. lífeyri sem kæmi fram í fjmrn. og þýddi það að fjmrn. hefði farið fram yfir í sínum áætlunum. Meginástæðan fyrir þessu er sú að á sínum tíma var þessi liður skertur, í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, en það kemur að sjálfsögðu að skuldadögum og það þarf að fara fram uppgjör. Þegar uppgjör fór fram þar sem ríkið varð að gera upp við sína, vegna bóta og lífeyris sem ríkið þarf að standa skil á, þá reyndist vanta á þennan lið 175,5 millj. kr.
    Hv. þm. spurðist fyrir um vexti og vaxtagreiðslur, reyndar er frá því greint í frv. að meginástæðan fyrir hærri vöxtum en áætlanir voru um eru í fyrsta lagi þær að hallinn varð meiri en ætlast hafði verið til, meiri en áætlaður var, og sá halli var brúaður tímabundið með lánum innan lands einkum í Seðlabankanum og framkallaði að sjálfsögðu auknar og meiri vaxtagreiðslur heldur en ráð var fyrir gert.
    Þá spurðist hv. þm. fyrir um hvernig á því stæði að Orkustofnun hefði farið 47 millj. yfir með því að skila ekki sértekjum fyrr en í upphafi þessa árs og hann spurði hvort það væri algengt að B-hluta stofnanir skiluðu ekki af sér sértekjum fyrr en á árinu eftir að þeirra var aflað. Því er til að svara að það mun ekki vera algengt og gerast reyndar örsjaldan. Í þessu tilviki er um það að ræða, eins og reyndar hefur komið fram í blöðum, að Orkustofnun heimtir þessar tekjur inn, nýtir sér þær í sínum rekstri og skapar sér þannig svigrúm á tekjuárinu, en í stað þess að skila tekjunum inn fyrir áramótin, og kannski mætti ég heldur segja jafnóðum og þær koma, tók Orkustofnun sér það bessaleyfi að skila ekki tekjunum fyrr en eftir áramótin. Að þessu hefur verið fundið og hygg ég að það verði ekki endurtekið.
    Hv. 6. þm. Vestf. ræddi eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. talsvert um virðisaukaskattinn og kem ég að honum síðar, en jafnframt minntist hv. þm. á þá fjármuni sem færðir hefðu verið yfir áramót í menntmrn. og spurðist fyrir um það hvort ekki mætti nýta þessa fjármuni til að hjálpa til við þann sparnað sem fyrirhugaður er og reyndar er hafinn í grunnskólunum. Það er rétt. Hugmyndin er að sjálfsögðu sú að þessir fjármunir komi til skjalanna. Meginástæðan fyrir því að þessir fjármunir urðu til er sú að menntmrn. hóf

strax í fyrrahaust að spara í grunnskólanum og mun sá sparnaður koma að notum þegar enn þarf að skera niður útgjöld til grunnskólanna og ætti að hjálpa til við að gera þann niðurskurð sársaukaminni en ella.
    Nokkuð var minnst á skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það væri kannski fróðlegt í leiðinni fyrst minnst var á þá skýrslu að segja frá því að það hefur komið fram í fréttum m.a. að Ríkisendurskoðun telur að spár sínar um hallann á síðasta ári hafi reynst réttar en ekki spár fjmrn. Þetta er út af fyrir sig rétt ef eingöngu er litið á niðurstöðutölur en ekkert hirt um innihaldið. Sé hins vegar litið á spárnar frá því í maí og þær bornar saman við niðurstöðutölur kemur í ljós að það skakkar heilmiklu, til að mynda taldi Ríkisendurskoðun í maí að það yrði halli upp á 3 milljarða samtals vegna búvörusamninganna og Byggingarsjóðs ríkisins en í niðurstöðutölum fyrir sl. ár er ekkert um þetta að finna, enda er sl. ár gert upp á greiðslugrunni. Hins vegar minntist Ríkisendurskoðun í maí ekkert á nokkra háa útgjaldaliði sem nú hafa komið í ljós eins og vaxtagjöld, eins og greiðslur til atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar, til strandflutninga og ýmissa annarra útgjalda sem samtals gera yfir 2 milljarða kr. Þannig getur niðurstöðutala stundum reynst tiltölulega rétt þótt þær tölur sem saman eru lagðar eða dregnar hver frá annarri séu allt aðrar í báðum dæmunum. Til að mynda er hægt að fá sömu tölu þegar maður leggur saman 3 og 6 eða dregur 3 frá 12. Talan er 9 en það þýðir ekki að innihaldið í dæmunum sé það sama svo ég taki nú einfalt dæmi sem skýrir það hvað þarna hefur átt sér stað.
    Hv. 14. þm. Reykv. ræddi hér um nokkur atriði sem kannski væri heppilegra að aðrir ráðherrar svöruðu en sá sem hér stendur, einkum og sér í lagi hæstv. heilbrrh. Ég vil þó aðeins minnast á örfá atriði. Í fyrsta lagi tel ég að það verði langt í land að hægt verði að flytja aðeins eitt fjáraukalagafrv. Ég tel að í framtíðinni verði flutt fjáraukalagafrv. á fjárlagaárinu en ég hygg að aldrei verði hjá því komist að flytja síðan endanlegt fjáraukalagafrv. árið eftir. Ég tek undir með hv. þm. þegar hún sagði að það væri til fyrirmyndar að koma með slíkt fjáraukalagafrv. sem allra fyrst eftir áramótin og að því hefur verið stefnt, en sá háttur var tekinn upp eins og kom fram hjá hv. þm. í tíð hv. 8. þm. Reykn. þegar hann gegndi stöðu fjmrh.
    Hv. 14. þm. Reykv. ræddi síðan um Framkvæmdasjóð aldraðra. Af því tilefni vil ég að það komi fram að ég veit ekki betur en að lögum og reglum um Framkvæmdasjóð aldraðra hafi verið breytt í þá veru að heimilt er að nota þriðjung af ráðstöfunarfénu til rekstrar og við það hefur verið miðað. Ég held að ef grannt er skoðað, þá séu tillögur heilbrrh. --- sem fjmrh. þarf formsins vegna skv. 6. gr. fjárlaga að nýta sér samkvæmt heimildinni þar, auðvitað í samráði við heilbrrh. og fjárln., --- byggðar á lagagrunni, byggða á breytingum sem gerðar voru á lögum fyrir skömmu síðan og ég tel ljóst að þessi heimild er fyrir hendi.
    Hv. þm. ræddi síðan um sjúkrahúsin í Reykjavík og fleira sem viðkemur heilbrigðiskerfinu og sagðist efast um það eða taldi að það varla réttlætanlegt, ef ég skildi hv þm. rétt, að afgreiða fjáraukalagafrv. áður en búið væri að kanna ofan í hörgul réttmæti og lögmæti þeirrar tillögu sem fram kemur í bréfi hæstv. heilbr.- og trmrh. til mín, dags. 26. mars, um ráðstöfun fjár skv. 6. gr. fjárlaga. Ég man nú ekki nákvæmlega hvaða liður það er í 6. gr. Ég hygg að það sé liður 6.50 en það verður þá leiðrétt þegar á reynir.
    Ég vil taka það fram að í raun og veru hefur þessi ráðstöfun ekkert með fjáraukalögin að gera. Við erum hér að tala um tvö ár, annars vegar árið 1991, fjáraukalögin snúast um árið 1991, en þessi ráðstöfun á fjármununum er ráðstöfun sem gerast á árinu 1992. Ég bendi á þetta því að ég sé ekki að þetta tiltekna mál, jafnvel þó umdeilt sé, þurfi að tefja afgreiðslu fjáraukalaga vegna sl. árs.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, aðeins víkja að því máli sem ræðumenn hafa nokkuð gert að umtalsefni, eðlilega, en það er innheimta tekna, sér í lagi innheimta og skil á virðisaukaskatti. Af þessu tilefni vil ég láta eftirtaldar upplýsingar koma fram: Ef litið er til fjárlagafrv. fyrir árið 1991 og það skoðað, en það frv. var lagt fram í október 1990, þá kemur það fram strax í því frv. í athugasemdunum að þáv. fjmrh. hafði vissar efasemdir um það hvort áætlanir væru nákvæmar þegar um virðisaukaskattinn væri að ræða. Í frv.

segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þegar haft er í huga að einn og sami skattur, þ.e. virðisaukaskatturinn, stendur undir allt að helmingi allra skatttekna ríkissjóðs er ljóst að jafnvel minni háttar breytingar á greiðsluflæði jafnt innskatts sem útskatts og innheimtu virðisaukaskatts í tolli geta leitt til verulegrar röskunar á tekjum og þar með afkomu ríkissjóðs. Í raun má segja að innheimtuferill virðisaukaskatts sé enn óþekkt stærð enda skammur tími liðinn frá upptöku hans. Þetta skapar óhjákvæmilega nokkra óvissu við gerð tekjuáætlunar nú og ber að skoða tölurnar fyrir 1990 og 1991 með þessum fyrirvara.``
    Hér er með mjög skýru orðalagi sagt frá því áður en sl. ár hófst að brugðið gæti til beggja vona, enda er virðisaukaskatturinn, innheimtan og skilin, óþekktar stærðir. Það má þess vegna segja að strax í upphafi gerðu menn sér glögga grein fyrir því að erfitt væri að áætla með nákvæmni tekjurnar af virðisaukaskattinum á sl. ári.
    Í meðförum Alþingis við afgreiðslu fjárlaganna fyrir 1991 var áætlunin um tekjur hækkuð um 1 milljarð kr. eða í 41,5 milljarða kr. Hækkunin var skýrð með tvennum hætti: Annars vegar að minni innheimta á síðustu mánuðum 1990 gæfi tilefni til þess að ætla að hún skilaði sér eftir áramótin 1990--1991 og hins vegar að með sérstöku innheimtuátaki mætti auka tekjur um 400--500 millj. kr. Þessi sérstaka hækkun sýnist þó fyrst og fremst hafa verið gerð til að snyrta niðurstöðutölur fjárlaga fremur en að rök hafi verið fyrir henni. Við vitum satt að segja ekki í dag nákvæmlega hverju það sætir að menn héldu haustið 1990 að innheimtan mundi skila sér í upphafi ársins 1991 og á sama hátt getum við sagt að ekki er hægt að sjá nákvæmlega heldur hvort það sé hlaup í innheimtunni frá hausti eða frá síðustu innheimtunni 1991 og yfir til 1992. En rétt fyrir jól 1990 lagði þáv. fjmrh. það til að tekjurnar yrðu hækkaðar því að hann gerði ráð fyrir því að skilin kæmu seinna. Á sama hátt gætum við líka gert ráð fyrir því að skilin vegna sl. árs kæmu fram í byrjun þessa árs, einfaldlega vegna þess að virðisaukaskatturinn er ólíkur söluskattinum um margt. Þetta er nettóskattur þar sem innskatturinn dregst frá útskattinum. En þessu til viðbótar, og ég legg áherslu á það, var það lagt til í lokameðferð málsins rétt fyrir jól 1990 að hækka tekjurnar um 400--500 millj. og það var gert út á nákvæmlega engin rök. Það var ekkert sem benti til þess, ekki neitt, að það gæti tekist að heimta inn 400--500 millj. með aukinni og hertri innheimtu, einfaldlega vegna þess að menn höfðu mjög litlar upplýsingar um skil og innheimtu á þessum skatti, enda er hann nýtilkominn og var fyrst lagður á fyrir örfáum árum síðan. Þetta vil ég benda á því að það er stundum talað um að það þurfi að skýra 2,5 milljarða og þetta er auðvitað hluti af skýringunni, að áætlunin sjálf sem miðað er við, áætlunin í frv. og síðan í fjárlögunum hafi kannski reynst vera röng og gert ráð fyrir meiri tekjum á sl. ári en efni og rök stóðu til.
    Framan af ári og til hausts 1991 taldi fjmrn. ekki tilefni til þess að breyta áætlunum um tekjur af virðisaukaskattinum þótt óvissa ríkti um skil tekna á árinu öllu. Í greinargerð fjmrn. sem lögð var fyrir Alþingi í maí 1991 segir að skil af virðisaukaskattinum, þ.e. tímabilið janúar til apríl, hafi verið minni en áætlað var þrátt fyrir merki um aukin umsvif í þjóðarbúskapnum. Sú þróun hefði að óbreyttu átt að skila ríkissjóði viðbótartekjum en reyndin varð önnur. Meginskýring þess er talin að frádráttur vegna innskatts, þ.e. endurgreiddur virðisaukaskattur af aðföngum og fjárfestingu í atvinnurekstri, virðist hafa aukist meira en útskattur, þ.e. endanlegur skattur af eiginlegri veltu. Hér voru ekki talin efni til að lækka áætlun um tekjur þrátt fyrir áframhaldandi óvissu um skil.
    Ég tek það fram að strax á fyrstu mánuðum sl. árs, þrátt fyrir verulega aukna veltu, verulega aukna einkaneyslu komu þessi skattskil ekki fram eins og spáð hafði verið fyrir haustið áður. Hins vegar höfðu þær breytingar orðið í efnahagslífi landsmanna að ekki þótti ástæða vegna aukinnar veltu að breyta tekjuáætluninni í maí. Síðar kom annað á daginn. Þetta tek ég hér fram þar sem því er stundum haldið fram að misbrestur hafi komið fram á síðustu mánuðum sl. árs.
    Í fjárlagafrv. ársins 1992 og frá því það var lagt fram í október 1991 voru tekjuhorfurnar af virðisaukaskattinum á árinu 1991 enn endurmetnar og var þá fyrri áætlun lækkuð örlítið. Þessi lækkun hefði e.t.v. átt að vera meiri með tilliti til óvissu um skil skattsins og þess að endurskoðunin byggði aðeins á reynslutölum ársins 1990 og hluta árs 1991, en virðisaukaskatturinn leysti söluskattinn af hólmi í ársbyrjun 1990 eins og menn muna.
    Því hefur verið haldið fram, eins og ég sagði áðan, að innheimta og eftirlit hafi brugðist í veigamiklum atriðum síðari hluta ársins 1991 en eins og ég hef minnst á eru þetta flóknari skýringar sem eru til staðar og þarf að hafa það í huga að það eru skattstjórarnir sem annast eftirlitið og álagninguna, eftirlit með álagningu, en innheimtumenn ríkissjóðs sem sjá um innheimtuna á álögðum virðisaukaskatti. Þess vegna er álagningin eitt en skil í ríkissjóð annað.
    Áætlun um skil virðisaukaskatts í ríkissjóð á árinu 1991 víkur frá niðurstöðum um 2,5 milljarða kr. --- og það er þetta sem verið er að reyna að skýra hér og þeir ræðumenn sem hafa tekið til máls hafa beðið um skýringar á. --- Hvort tveggja kemur þar til álita að forsendur tekjuáætlunarinnar um skil í ríkissjóð hafi brugðist og/eða að á skattframkvæmdinni hafi slaknað og undandráttur frá skattinum aukist.
    Í upphafi er rétt að glöggva sig á samhengi álagningar og skila á virðisaukaskatti í ríkissjóð. Álagning virðisaukaskattsins, þ.e. álagning í innflutningi og af innlendri starfsemi og innskatturinn sem fellur til af hverju tímabili er eitt, en skil skattsins í ríkissjóð á hlutaðeigandi fjárlagaári er annað.
    Álagning skattsins og endurgreiðslur voru samkvæmt gögnum ríkisskattstjóra 1990 og 1991 með þeim hætti að heildarálagningin var 115,3 milljarðar kr. 1990 en 131,3 milljarðar 1991. Breytingin í heildarálagningunni var 13,8%. Breytingin þegar miðað er við innflutninginn er 18,1%, miðað við innlendu viðskiptin er breytingin 12,9%, innskatturinn sem kemur til frádráttar breytist á milli áranna um 12,8%, álagningin nettó, álagningin þar sem lagt er á breytist um 15,8%, endurgreiðslurnar eru eins og dæmið stendur nú sú sama eða 2,3 milljarðar, en krafan til ríkissjóðs, það sem stendur þegar miðað er við álagninguna, var á árinu 1990 36,7 milljarðar en 42,9 milljarðar á árinu 1991 og nú er ég að tala um álagninguna en ekki innheimtu og skil. Ég tek það fram að þessir 2,3 milljarðar, endurgreiðslur á 1991 er bráðabirgðatala.
    Yfirlitið ber það glöggt með sér að tiltölulega lítil hlutfallsbreyting á skattskyldri veltu getur verið mjög afgerandi fyrir virðisaukaskattinn sem til innheimtu kemur. Sama máli gegnir ef breyting á innskatti frá einu tímabili til annars víkur verulega frá breytingu heildarálagningarinnar. Endurgreiðslur eftir nettóálagningu eru aftur á móti vegna íbúðarhúsnæðis, vegna sveitarfélaga og matvöru. Samkvæmt tölunum sem ég las áðan hækkaði álagning á innflutning um 18,1% og af sölu innan lands um 12,9% að meðtöldum áætlunum um skatt á þau fyrirtæki sem ekki skila skattskýrslum. --- Ég vek athygli á því að þegar talað er um álagningu þá er búið að taka inn álagninguna áætlaðar tölur vegna þeirra fyrirtækja sem ekki hafa skilað neinni skýrslu. Þær tölur leiðréttast síðan í tímans rás og draga venjulega álagninguna niður þannig að skattskilin verða hagstæðara hlutfall af álagningunni eins og hún stendur á hverjum tíma.
    Þessar tölur sýna að innflutningur hefur aukist meira en innlend viðskiptavelta. Innskatturinn, þ.e. frádráttarbær virðisaukaskattur af aðföngum, er í áætlun talinn hafa hækkað um 12,8% en hefði eðli máls samkvæmt mátt vænta að hækkaði meira vegna aukins innflutnings, enda var það reyndin framan af ári. Af þessu leiðir að heildarálagning virðisaukaskattsins á öllu árinu 1991 er tæplega 16% hærri en var árið áður eða 15,8%. Þess er þó að gæta að áætlun skattstjóra á fyrirtæki sem ekki skila skýrslu 1991 ýkir nokkurn mun milli ára eins og ég tók hér skýrt fram áðan. Með tilliti til þess má gera ráð fyrir að hækkun milli ára verði minni þegar öll kurl eru komin til grafar.
    Þegar álagning og innskattur eru aftur á móti skoðuð eftir skatttímabilum innan ársins 1991 kemur í ljós að á 5. og 6. tímabili, en það er tímabilið frá september til desember, er hækkun mun minni en á fyrri tímabilum ársins. Þannig hækkaði álagning á innflutning einungis um 5,8% milli áranna, útskattur af innlendri starfsemi um 8,6% og innskattur um 3,6%. Samdrátturinn í efnahagslífinu er þá að koma fram með tilheyrandi áhrifum á álagningu virðisaukaskattsins. Af sömu ástæðu, og ekki síst vegna áhrifa frá innflutningi, dregur úr hækkun innskatts síðustu mánuði ársins.

    Að því er tekur til krafna um endurgreiðslu vegna matvöru, viðhalds íbúðarhúsnæðis og til sveitarfélaga og ríkisstofnana þá eru fjárhæðirnar þær sömu 1990 og 1991 eða 2,3 milljarðar kr., endurgreiðslukröfur á virðisaukaskatti vegna ársins 1991 munu þá væntanlega hækka þar sem þær eru ekki allar komnar fram. Það sama gerðist á sl. ári að menn áttuðu sig ekki á því að þessar kröfur komu fram eftir áramótin jafnvel þótt starfsemin sem leiddi til kröfunnar hefði farið fram á árinu á undan. Hér er ekki verið að sakast við einn eða neinn heldur einungis að benda á að þetta skattkerfi er nýtt og við höfum tiltölulega litla reynslu af því og það tekur auðvitað nokkur ár að finna nákvæmlega út hvernig það hagar sér.
    Skil tekna --- og nú er ég að ræða um skilin, það sem greitt er í ríkissjóð --- skil tekna í ríkissjóð af veltu breyttust um 5% á milli áranna 1990 og 1991. Skilin urðu minni en gert hafði verið ráð fyrir og búast mátti við í ljósi almennrar veltu og verðbreytinga. Það er einmitt þetta sem hv. þm. hafa verið að velta fyrir sér. Þá ber að hafa í huga að á árinu 1990 samanstóð innheimtan bæði af virðisaukaskatti fyrir 1.--5. skatttímabil og söluskatti fyrir síðustu mánuði árins 1989 þannig að þetta voru ekki alveg fyllilega sambærileg tímabil.
    Einkaneysla er talin hafa aukist um 5,5% og verðlagsbreyting milli áranna er metin um 7%, en einkaneyslan, eins og allir vita, ræður langmestu um tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti. Auk neyslu- og verðlagsbreytinga eru önnur atriði sem skýra mismunandi skil á skatti 1990 og 1991 og frávik frá áætlun. Ég ætla að nefna þrjú atriði:
    Í fyrsta lagi byggjast skil skattsins á fjárlagaárinu á álagningu virðisaukaskatts á 6., þ.e. síðasta tímabili næstliðins árs og síðan fimm fyrstu tímabil fjárlagaársins, auk innheimtueftirstöðva frá fyrri tímabilum. Af þessu leiðir að breytingar a innflutningi viðskiptaveltu innan lands, innskatti eða endurgreiðslum á 6. tímabili næstliðins árs koma fram í tekjum ríkissjóðs árið eftir. Framan af árinu 1991 jókst innflutningur umfram innlenda viðskiptaveltu og sömuleiðis innskatturinn þó að úr þessu hafi dregið síðar á árinu. Ætla má að tekjuskilin hafi orðið nokkru lægri 1991 af þeim sökum en áætlanir gerðu ráð fyrir. Einnig reyndist innskattur fiskverkenda, sláturleyfishafa og bænda hærri en áætlað hafði verið á árinu 1991 sem væntanlga skilar sér þó í hærri útskatti 1992, þ.e. á yfirstandandi ári. Þetta eru m.a. skýring á minni skilum á síðustu skatttímabilum ársins 1991.
    Í öðru lagi virðist sem eftirstöðvar álagðs virðisaukaskatts hækki milli ára. Í lok 1.--4. tímabils 1991 voru eftirstöðvar til innheimtu af veltu án innflutnings um 250--300 millj. kr. hærri en árið áður. Vaxandi eftirstöðvar gætu bent til að innheimta hafi verið tregari m.a. vegna lakari afkomu fyrirtækja. Athugun gefur vísbendingu um að skil í ríkissjóð kunni að hafa slaknað um 1--2%. --- Ég vek athygli á því að 1--2% í virðisaukaskatti eru háar upphæðir. Virðisaukaskatturinn skilar um 40% af tekjum ríkissjóðs eða 40 milljörðum um það bil þannig að 1% er hvorki meira né minna en 400 millj. kr., 2% liðlega 800 millj. --- Áætlanir skattstjóra á fyrirtæki sem ekki skila skýrslum eru þó ávallt nokkrar. Nokkur hluti þeirra áætlana gengur alla jafna til baka innan fárra vikna frá gjalddaga. Því skal alveg ósagt látið hvort umrædd álagning skilar sér í endanlegri innheimtu á árinu 1992. Hér getur verið um tímatöf að ræða en ekki að álagningin sé glötuð.
    Í þriðja og síðasta lagi reyndust endurgreiðslur virðisaukaskatts af matvöru, íbúðarhúsnæði og til sveitarfélaga mun hærri 1991 en 1990. Að hluta til skýrist hækkunin af því að á árinu 1990 komu eingöngu fimm skatttímabil til útborgunar en sex á árinu 1991. Að auki má geta þess að kröfur um endurgreiðslur voru óvenjuháar á 6. tímabili 1990, einkum vegna viðhalds húsa en sú fjárhæð kom til útgreiðslu í janúar og febrúar á sl. ári. Þessar endurgreiðslur hækkuðu umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir.
    Ég hef hér, virðulegur forseti, vegna þess að allir hv. ræðumenn sem tóku til máls viku að þessu máli, gert því ítarleg skil. Ég tek það fram að þessi texti sem ég las hérna er unninn vegna svars við fsp. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og ég á von á því að svarinu verði dreift til þingmanna á morgun og getur þá hv. nefnd haft skrifaðan texta hjá sér því að ég lái engum sem situr undir þessum lestri þótt hann skilji ekki nema lítið brot af því sem upp er lesið. Ég skal viðurkenna að það hefur tekið okkur meira að segja

nokkurn tíma að átta okkur til fullnustu á þessu nýja kerfi sem er æðiflókið þegar menn kafa ofan í það með þessum hætti sem hér er gert þannig að ef einhver hefur ekki skilið hvert einasta orð sem sagt var, þá var það ekki vegna þess að eitthvað sé að honum heldur er hitt að þetta er flóknara en það virðist í fljótu bragði.
    Virðulegi forseti. Ég tel mig þá hafa svarað nokkuð ítarlega þeim fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint og vænti þess að senn komi að því að þetta mál fái að ganga til 2. umr. og hv. nefndar.