Fjáraukalög 1991

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 21:42:00 (5276)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða síðasta hv. ræðumanns vil ég enn ítreka að þau atriði sem hún nefnir hér til sögunnar fjalla um fjárlög á yfirstandandi ári en við erum hér að ræða um fjáraukalög vegna síðasta árs og þess vegna vil ég enn ítreka að sú vinna sem nú fer fram í hv. fjárln. og snýr að ráðstöfun fjár sem reyndar skv. lið 6.2.2 í 6. gr. fjárlaga en ekki 6.5.0 eins og ég hafði nú einhverjar hugmyndir um, trufli ekki störf nefndarinnar um fjáraukalögin.
    Ég tel eðlilegt að nefndin fái upplýsingar hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. um þau mál sem hér hefur verið fjallað um. Ég tel að hann hafi farið að lögum. Það kann að vera um það ágreiningur og þá er eðlilegt að nefndin fjalli um það.
    Varðandi bréf til alþingismanna vil ég nota tækifærið til þess að þakka forráðamönnum Alþingis fyrir að senda okkur þingmönnum slíkt bréf sem ég tel vera til mikillar fyrirmyndar og gæti verið fyrirmynd fyrir aðrar stofnanir. Varðandi niðurskurðinn býst ég við að þeir sem lögðu hann til hafi haft það í huga að á sl. ári var kosið og þinghald óvenjudýrt. Við gerum ráð fyrir því að þinghaldið í ár verði ekki eins kostnaðarsamt og var í fyrra en auðvitað kann það að koma upp og ef það kemur í ljós að þinghald verður með öðrum hætti en venja er á þessu ári, þá ber auðvitað að taka tillit til þess og ég er viss um að þingmenn munu þá sjá til þess í fjáraukalögum að nýjar tillögur um kostnaðinn verði samþykktar.