Aukatekjur ríkissjóðs

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 21:45:00 (5277)

     Flm. (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég flyt hér till. til þál. sem er 201. mál þessa þings og er á þskj. 224, um aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtöku ríkistofnana. Tillgr. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana.
    Markmið endurskoðunarinnar verði að gera skýran greinarmun á skattheimtu og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu sem hið opinbera ákveður að innheimta. Skal við það miðað að þjónustugjöld, sem eru innheimt vegna tiltekinnar þjónustu, skuli vera metin sem hlutdeild í þeim kostnaði sem af þjónustunni hlýst eða hluti þess kostnaðar, en aldrei hærri.
    Ákveði hið opinbera að skattleggja tiltekna þjónustu skal koma skýrt fram við innheimtu hve hár skatturinn er, við hvaða stjórnvaldsákvarðanir er stuðst og hvernig útreikningi er háttað.``
    Greinargerðin með þáltill. er svohljóðandi:
    ,,Margvísleg gjaldtaka er viðhöfð í stofnunum ríkisins, t.d. fyrir vottorð, leyfi, skírteini, þinglýsingar og stimpilgjöld, svo og þjónustugjöld stofnana af ýmsu tagi. Mjög mikilvægt er að opinberir aðilar innheimti aldrei óeðlilega há gjöld fyrir veitta þjónustu. Gjöld, sem innheimt eru vegna tiltekinnar þjónustu, skulu þess vegna vera metin sem hlutdeild í henni eða hluti þess kostnaðar, en aldrei hærri.
    Ýmis gjöld, sem hér er vísað til, eru það há að þau geta ekki verið eðlilegt endurgjald fyrir þjónustu og verður því að líta svo á að um skattlagningu sé að ræða. Full ástæða er til að meta að nýju hvort eðlilegt sé að ríkið noti sér ýmis þessara gjalda til sérstakrar tekjuöflunar. Það að taka háar fjárhæðir í ríkissjóð í stimpilgjöld eða fyrir skírteini, leyfi eða þjónustu án tillits til efnahags eða ástæðna þeirra er í hlut eiga er brot á þeim réttlætisviðhorfum sem ríkja skulu við ákvörðun skattstofns.
    Það kemur mörgum undarlega fyrir sjónir að hið opinbera skuli á tíðum innheimta gjöld af ýmsu tagi sem augljóslega eru óeðlilega há miðað við þá þjónustu sem veitt er. Þegar aftur á móti kemur að samningum um kaup og kjör eða önnur viðskipti milli almennra borgara landsins þykir sú regla sjálfsögð að full þjónusta sé veitt fyrir endurgjaldið og full rök séu færð fyrir þeim kröfum sem gerðar eru. Þá er einnig í ljósi þeirrar stefnu núverandi stjórnvalda að innheimta þjónustugjöld af ýmsu tagi í miklu meira mæli en áður

ástæða til að gera aðgengilegar upplýsingar um hve stóran hlut menn greiða í þeirri þjónustu sem veitt er af hinu opinbera í hverju einstöku tilviki.
    Almenn viðhorf til viðskipta milli aðila og nauðsyn á rökstuddri réttlætingu á gerðum hins opinbera kallar á aðgerðir í þessu efni.``
    Ástæðurnar fyrir því að ég flyt þessa þáltill. eru þær að það er í gangi innheimta á vegum ríkisins, alls kyns gjöld eins og ég var að lýsa hérna áðan, sem er ekki í samræmi við þá þjónustu sem veitt er. Ég tel að hið opinbera eigi ævinlega að vera til fyrirmyndar í viðskiptum. Þess vegna er mjög mikilvægt að viðskiptavinir þess viti hvað þjónustan kostar og geti treyst því að aldrei sé verið að innheimta hærra endurgjald en kostnaðurinn gefur tilefni til.
    Ég ætla að taka hér fáein dæmi til þess að styðja mál mitt sem ég hef tekið af handahófi. Fyrstu dæmin eru úr lögunum um aukatekjur ríkissjóðs sem voru samþykkt á þessum vetri. Þar eru mismunandi há gjöld fyrir mismunandi leyfi og atvinnuréttindi. Við getum t.d. velt fyrir okkur hver er munurinn á þjónustu ríkisins þegar það veitir leyfi til málflutnings fyrir Hæstarétti og leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Málflutningsleyfi fyrir Hæstarétti kostar 75 þús. kr. en leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi kostar 50 þús. Löggilding manns sem dómtúlkur t.d. kostar 25 þús. Meistarabréf kostar 25 þús. en sveinsbréf kostar 5 þús. Hver er munurinn á þjónustu ríkisins í sambandi við þau réttindi sem þarna er verið að gefa leyfi fyrir? Ég tel að það þurfi að gera sömu kröfu til ríkisins og við gerum til almennings í landinu, til fyrirtækjanna. Ef við kaupum þjónustu af einhverju fyrirtæki, þá ætlumst við til þess að á reikningnum komi fram hvaða þjónusta er af hendi leyst og hvað hún kostar, sundurliðað. En það er hægt á vegum ríkisins að ákveða að innheimta gjöld og kalla það gjöld sem eru í engu samræmi við þá þjónustu sem veitt er.
    Ég er hér með eitt smádæmi í viðbót. Það er t.d. veitt sú þjónusta á fógetaskrifstofum úti um landið að gera tollskýrslur fyrir fólk. Það tekur 2--3 mínútur fyrir vanan mann að gera eina tollskýrslu. Skýrsla eins og þessi kostar 1.000 kr. Það er í engu samræmi við þá þjónustu sem veitt er. Þó tekur nú steininn úr í sambandi við stimpilgjöld sem fólk þarf að borga. Í lögunum um stimpilgjöld, sem eru frá 10. maí 1978, er gert ráð fyrir því að fólk sem þinglýsir skuldabréfum og tryggingabréfum borgi 15 kr. fyrir hvert byrjað þúsund að fjárhæð sem þinglýst er. Þetta þýðir að t.d. ungt fólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið er orðið skattstofn vegna þessara gjalda. Fólk sem þarf að þinglýsa lánum upp á 6 millj. kr. borgar t.d. 90 þús. kr. í skatt til ríkisins. Ég tel þetta alveg fráleitt og tel reyndar að ástæðan fyrir því að þetta varð til á sínum tíma hafi verið sú að menn hafi talið að það væri lán að fá lánaða peninga og þess vegna ættu menn að taka skatta af þeim sem fengju lánaða peninga með þessum hætti. En það er liðin tíð að menn borgi ekki til baka það sem þeir fá lánað. Nú eru vextir það háir að þeir aldeilis sjá nú til þess að fólk borgi til baka það sem það fær lánað.
    Félagssamningar t.d. félaga sem talað er um líka í þessum lögum, þar sem fólk er að stofna félög, t.d. til atvinnurekstrar, þá er ég ekki að tala um hlutafélög, heldur samninga félaga með ótakmarkaðri ábyrgð, skulu stimpla inn 2% af því sem í félagið er lagt. Ef menn eru sem sagt að stofna til atvinnurekstrar í félagsformi eru tekin 2% af framlögðu fé í ríkissjóð sem skattstofn á félagið sem ekki er farið að skila neinum arði og ég held að það væri rétt að menn veltu því fyrir sér hvort þetta sé eðlilegur skattstofn.
    Ég er fyrst og fremst að fara fram á það með þessari tillögu að menn yfirfari þessi mál með það fyrir augum að það verði gerður alveg skýr greinarmunur á sköttum og þjónustugjöldum. Það á að vera þannig í þjóðfélaginu að menn ræði og hafi stefnu í því hvernig eigi að leggja skattana á og þá sé það metið hvaða aðstæður eigi að vera fyrir hendi, hvernig fjárhagur er hjá fólki og annað því um líkt. En að lán sem þarf að þinglýsa eða eitthvað slíkt skuli verða skattstofn finnst mér fráleitt. Og mér finnst það líka fráleitt að ríkið notfæri sér það ef ákveðið er að það skuli þurfa leyfi til þess að gera einhverja ákveðna hluti, það sé líka notað til þess að innheimta skatta. Ég tel að það sé mikið atriði að menn geri þarna skýran greinarmun á og eins og ég var að segja áðan tel ég að þessi ríkisstjórn sem núna situr, sem hefur komið fram með miklu meira af þjónustugjöldum og hækkanir á þeim heldur en aðrar ríkisstjórnir, hljóti að vera mér sammála um að það sé mikið atriði að gerð sé nákvæmlega grein fyrir því hve stór hluti þjónustugjöldin séu af þeirri þjónustu sem veitt er því að ég veit það að í langflestum tilfellum er einungis verið að innheimta hluta af þjónustunni en fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir því. Þess vegna eigi að koma fram á reikningi sem lagður er fram þegar þjónustugjöld eru innheimt mat á því hve stór hluti af þjónustunni greiddur er. Ég tel að ríkið eigi eins og ég sagði áðan að vera til fyrirmyndar í viðskiptum og það eigi þess vegna að hlíta sömu reglum og gilda í þjóðfélaginu almennt um viðskipti og það eigi að ganga þar á undan og vera til fyrirmyndar eins og mögulegt er á þessu sviði.
    Ég vonast til þess að tekið verði jákvætt á þessu máli hjá ríkisstjórninni.
    Ég ætla að nefna eitt dæmi til viðbótar, ég gleymdi því áðan. Það er Bifreiðaskoðun Íslands en gjaldskrá þess fyrirtækis er staðfest af dómsmrh. Það kom fram í fréttum í vetur að merki á bílana, þ.e. númeraspjöldin, eru framleidd á Litla-Hrauni. Það kostar einhver hundruð króna að framleiða hvert merki en þegar búið er að selja merkin þeim sem þurfa þau á bílana sína, þá kosta þau 5--6 þús. kr. stykkið. Þetta er dæmi um óeðlilega viðskiptahætti sem ríkið tekur ábyrgð á með því að staðfesta gjaldskrá.
    Mér finnst að svona hlutir eigi ekki að koma fyrir og þarna þurfi menn að gá að sér. Þetta snýst fyrst og fremst um siðsemi í viðskiptum og það hlutverk ríkisins að vera til fyrirmyndar.
    Ég óska eftir því að þessu máli verði vísað til síðari umr. og efh.- og viðskn.