Skattlagning fjármagnstekna

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 22:16:00 (5281)

     Flm. (Ragnar Arnalds) :
    Herra forseti. Ég flyt á þskj. 473 ásamt átta öðrum þingmönnum Alþb., þ.e. þingflokkurinn í heild flytur þessa tillögu um skattlagningu fjármagnstekna.
    Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að leggja fram frumvarp um skattlagningu fjármagnstekna eigi síðar en 15. apríl nk.
    Stefnt skal að því að skattur sé lagður á greidda raunvexti innan ramma núverandi tekjuskatts- og eignarskattslaga en þó ekki á vexti sem féllu til áður en skattskylda kom á. Minni háttar raunvaxtatekjur hjá hverjum einstaklingi, þ.e. tekjur sem eru innan vissra hóflegra marka, skulu þó ekki skattlagðar.``
    Svokallaðar fjármagnstekjur eru annars vegar arður af hlutafjáreign, söluhagnaður hlutabréfa og leigutekjur, og allt er þetta nú skattlagt í dag að mestu leyti, en hins vegar vaxtatekjur, þar með talin afföll. Í íslenskum skattalögum er almenna reglan sú að tekjur af hlutafé og leigu eru skattskyldar með örfáum undantekningum en vaxtatekjur eru svo til allar skattfrjálsar.
    Í áfangaskýrslu nefndar um samræmda skattlagningu eigna og eignatekna sem dreift hefur verið hér á Alþingi að frumkvæði hæstv. fjmrh. kemur fram í töflu 5 hvernig þessum málum er háttað í 24 ríkjum OECD. Og það er skemmst frá því að segja að í 23 þessara ríkja eru vextir skattlagðir allt frá 10% og upp í 60%, en í einu þessara ríkja, okkar landi, Íslandi, er ekki um neinn skatt að ræða. Þetta er að sjálfsögðu fráleitt með öllu og hlýtur að verða leiðrétt.
    Það er rétt að vekja á því athygli að hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Í þessari skýrslu sem ég hef nefnt kemur fram m.a. í töflu 4 hvað hér er um miklar fjárhæðir að tefla, en þar er gerð grein fyrir peningalegum eignum og eignatekjum í milljörðum króna talið. Þar kemur fram m.a. að ef litið er á áætlaða eign heimila í árslok 1990 af innstæðum, bankabréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, spariskírteinum og öðrum verðbréfum t.d. húsbréfum, þá var þessi eign samtals 146 milljarðar kr. Stærsta upphæðin var í bönkunum, 88 milljarðar, í verðbréfasjóðunum voru rúmir 15 milljarðar, spariskírteinin námu rúmum 18 milljörðum og banka- og veðdeildarbréfin voru 13 milljarðar kr.
    Ef reynt er að áætla vaxtatekjur út frá þessum upphæðum er talið að þær gætu hafa numið um 12,5 milljörðum kr. á aðeins einu ári, árinu 1990. Ef öll þessi upphæð væri skattlögð án undantekninga og allt væri þetta í hæsta skattþrepi mundi heildarskattfjárhæðin nema um 5 milljörðum kr. en auðvitað er þessu ekki þannig varið. Í fyrsta lagi mundi töluvert af þessari upphæð lenda innan marka persónuafsláttar og ekki lenda í hæsta skattþrepi. Í öðru lagi hefur verið talað um það að þegar útgefnir flokkar spariskírteina verði

ekki skattlagðir vegna þess að vilyrði hafi verið gefin um það þegar skírteinin voru seld að þau yrðu ekki skattlögð og auk þess má gera ráð fyrir því að einhver hluti vaxtatekna hjá hverjum einstaklingi yrði ekki skattlagður, minni háttar raunvaxtatekjur, eins og reyndar við alþýðubandalagsmenn gerum að okkar tillögu í þáltill. sem ég er nú að mæla fyrir og kemur líka fram í áfangaskýrslunni frá nefndinni sem hefur verið að undirbúa þetta mál af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þegar allt þetta hefur verið tekið til hliðsjónar þá skerðist skattstofninn að sjálfsögðu mjög verulega og má telja þá raunhæft að skatttekjur gætu numið 1,7--2 milljörðum kr. á ársgrundvelli.
    Nú kunna menn að spyrja sig þeirrar ágætu spurningar hvers vegna fjármagnsskattur hafi ekki fyrr verið á lagður og af hverju árin hafi liðið án þess að til þessa skattstofns væri gripið. Þá er sjálfsagt að minna menn á að lengst af í hagsögu Íslendinga voru vextir neikvæðir og undir þeim kringumstæðum var auðvitað hvorki raunhæft né þarflegt að skattleggja vaxtatekjur. Við erum auðvitað fyrst og fremst að tala um það að skattleggja raunvexti, þ.e. vexti umfram verðbólgu og þeir hafa í raun og veru ekki verið til staðar að neinu marki í okkar hagkerfi fyrr en á seinasta áratug. Og reyndar var það svo fram eftir seinasta áratug að raunvextir voru aðeins 3--4% þrátt fyrir það að verðtrygging fjárskuldbindinga hefði verið tekin upp og því var eðlilegt að ekki væri mikil umræða um það að skattleggja vaxtatekjur vegna þess að menn voru þá fyrst og fremst að hugsa um það að efla innlenda sparifjármyndun og fannst kannski ekki að af svo miklu væri að taka. En um miðjan seinasta áratug þrefölduðust raunvextir á skömmum tíma og þá hlutu að sjálfsögðu kröfur um skattlagningu vaxtatekna að gerast töluvert háværari.
    Ég hygg að ég hafi flutt fyrstu tillögurnar hér á Alþingi um skattlagningu fjármagnstekna. Það var á árunum 1985--1987 að ég flutti þáltill. þar sem gerðar voru tillögur um ýmiss konar breytingar á skattkerfinu, en þær náðu ekki fram að ganga á þeim tíma.
    Fyrrv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, hafði hins vegar mikið frumkvæði um þetta mál. Hann skipaði nefnd í janúar 1989 til að gera tillögur um skattlagningu fjármagnstekna og sú nefnd skilaði áfangaskýrslu í apríl 1989. Þar var gerð tillaga um að skattur yrði lagður á fjármagnstekjur um leið og skattur á atvinnutekjur, utan ramma laganna um tekjuskatt og eignarskatt. Það urðu miklar umræður um þessar tillögur á sínum tíma og þær voru harðlega gagnrýndar, bæði af hagsmunaaðilum og reyndar af stórum hluta stjórnarandstöðunnar á þeim tíma. Nefndin hélt áfram störfum og haustið 1990 kynnti þáv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, tillögur um staðgreiðsluskatt á greidda vexti ársins 1991. Þetta voru bráðabirgðatillögur byggðar á starfi nefndarinnar sem ég gat um áðan og var litið svo á að framkvæmd þessara tillagna gæti orðið gagnlegur undirbúningur undir samræmda skattlagningu fjármagnstekna á síðara stigi. Það var samið stjfrv. um þetta efni, en það náði ekki fram að ganga vegna andstöðu ráðherra Alþfl. og var aldrei flutt hér á Alþingi. Nefndin hélt áfram störfum og lét semja á sínum vegum drög að frv. um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þessi drög að frv. hafa legið fyrir í fjmrn. síðan þetta var.
    Núverandi ríkisstjórn hefur sett sér það markmið að samræma skattlagningu fjármagns- og eignatekna. Það er nú bráðum liðið eitt ár síðan hún kom til starfa. Öll gögn um fyrirkomulag þessarar skattlagningar lágu í ráðuneytinu þegar núv. hæstv. fjmrh. kom í það ráðuneyti en enn hefur ekkert raunhæft gerst í þessu máli annað en það að vissulega hafa verið skrifaðar miklar skýrslur um málið og fjmrh. hefur boðað að hann muni flytja frv. um þetta efni. Það er að sjálfsögðu ágætt, en því miður sýnist manni að þeim mun lengur sem það dregst því minni séu líkurnar á því að slíkt frv. nái fram að ganga á þessum vetri.
    Mig langar að endingu til að leggja örfáar spurningar fyrir hæstv. ráðaherra:
    Í fyrsta lagi: Verður þetta frv., sem hann hefur gert að umtalsefni nokkrum sinnum, borið fram það snemma að tæknilega sé mögulegt að afgreiða það fyrir þinglok? Það er ekki nóg að fram komi frv. ef það kemur fram svo seint að ekki er hægt að afgreiða það.
    Ég spyr í öðru lagi: Hvað þarf að líða langur tími frá því að lögin eru samþykkt

og þar til vaxtatekjur geta orðið skattskyldar? Er ekki ætlunin að lögfesta sjálfvirka upplýsingaskyldu lánastofnana til að auðvelda álagningu skattsins og hvað þarf þá að ætla lánastofnunum langan undirbúningstíma, t.d. varðandi tölvukerfi? Og hvað þurfa skattyfirvöld langan tíma til undirbúnings álagningu skattsins?
    Ég spyr að lokum: Er ekki ljóst að verði lögin ekki samþykkt í vor þá verður skattur ekki lagður á fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1994 vegna tekna á árinu 1993?
    Ég tel að þetta mál hafi lent í allt of miklum drætti og að það sé mjög nauðsynlegt að fram komi hér í þinginu frv. um þetta efni frá ríkisstjórninni strax á næstu dögum. Því er þessi tillaga flutt. Hún miðar að því, eins og hér kemur fram, að mál þetta verði afgreitt fyrir 15. apríl nk. því ég hef það á tilfinningunni að dragi ríkisstjórnin mikið lengur að koma með þetta mál þá bendi flest til þess að hæstv. ráðherra sé að finna sér leið til að draga það á langinn þannig að komist verði hjá því að gera mikið meira en að tala um málið, komist verði hjá því að láta skattlagninguna koma til framkvæmda á þessu kjörtímabili.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. efh.- og viðskn.