Skattlagning fjármagnstekna

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 22:31:00 (5282)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Í stefnuskrá Kvennalistans frá árinu 1991, þ.e. stefnuskrá þeirri sem gerð var fyrir kosningarnar 1991, segir, með leyfi forseta: ,,Kvennalistinn vill að fjármagnstekjur verði skattlagðar eins og aðrar tekjur."
    Þar af leiðir að ég vil að sjálfsögðu lýsa yfir stuðningi við þessa þáltill. sem hér er fram komin. En það má nokkuð ljóst vera að þessi till., eins og ýmsar fleiri sem hér hafa verið lagðar fram í vetur, hefur hlotið þau örlög að komast ekki á dagskrá fyrr en allt of seint þannig að það er vandséð að þessu máli verði bjargað úr þessu. Í það minnsta skil ég þingsköpin þannig að það sé nú orðið um seinan fyrir ráðherrann að koma með lagafrv. og fá það samþykkt hér á þessu þingi ( RA: Nema með afbrigðum.) Nema með afbrigðum, segir flm. tillögunnar, og ekki skal ég vera á móti því að það takist. En hitt er svo annað mál að ég vil náttúrlega fá að skoða rækilega frv. ríkisstjórnarinnar þegar þar að kemur, því að ég á nú svo sem ekki von á góðu í þessum efnum frá henni. Og það er m.a. vegna þeirrar niðurstöðu sem fram kom í áliti nefndarinnar sem skoðaði þetta mál fyrir hæstv. ríkisstjórn, en það var ein meginhugsunin í áliti hennar að ef skatti yrði komið á fjármagnstekjur þá yrðu þeir peningar sem þannig fengjust notaðir til þess að lækka eignarskatta.
    Ég hefði nú heldur viljað sjá þennan skatt notaðan sem jöfnunartæki --- að vísu er svo sem engin ástæða til þess að vera að eyrnamerkja þessar tekjur neitt sérstaklega, en hér er auðvitað fyrst og fremst um jöfnunartæki að ræða, það er mjög eðlilegt að skattleggja þessar tekjur. Við höfum dæmi um það í okkar þjóðfélagi að einstaklingar hafi gífurlegar fjármagnstekjur og mér er einmitt minnisstætt úr kosningabaráttunni að þar notuðum við kvennalistakonur eitt ákveðið dæmi um hjónakorn hér í bæ sem höfðu 14 milljónir í fjármagnstekjur á árinu 1990 og hefði nú ýmsum þótt gott að fá þann pening. Og eins er mér mjög minnisstætt dæmi sem var til umræðu í Tryggingastofnun ríkisins þar sem verið var að ræða um heimilisuppbót til mjög fullorðinnar konu, 92ja ára gamallar, sem átti rétt á heimilisuppbót --- en hún hafði haft 6 milljónir króna í fjármagnstekjur. Svona nokkuð á náttúrlega ekki að eiga sér stað. Að vísu er búið að breyta þessu núna í lögum. Það er búið að loka fyrir þetta.
    En ég ætla ekki að tala hér langt mál heldur fyrst og fremst að lýsa yfir stuðningi við þessa tillögu og þetta mál. Það hefur dregist allt of lengi að taka á þessu enda mikil tregða verið af hálfu ákveðinna afla hér á Alþingi sem oft fara nú í vörn fyrir hina ríku. ( Gripið fram í: Hverjir eru það?) Það eru ýmsir hér. En ég á sæti í hv. efh.- og viðskn. og við fáum þessa tillögu væntanlega þar til meðferðar. En ef okkur tekst ekki að afgreiða þetta mál þá verðum við bara að lofa bót og betrun og taka málið upp snemma næsta haust og sjá til þess að það fái þá skjótan framgang.