Staða samkynhneigðs fólks

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 23:21:00 (5291)

     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir tillögu sem birt er á þskj. 213 og felur í sér að Alþingi lýsi yfir vilja sínum til að vinna að afnámi misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki. Flm. ásamt mér eru þau Össur Skarphéðinsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Guðrún Helgadóttir og Einar K. Guðfinnsson.
    Tillaga sama efnis var flutt á 108. löggjafarþingi veturinn 1985--86 og komst þá til nefndar en ekki út úr henni aftur.
    Því miður er jafnrík ástæða til þess að flytja þessa tillögu nú sem þá þar sem lítið hefur þokast í jafnréttisátt í málefnum samkynhneigðra. Enn þá er þessi þjóðfélagshópur misrétti beittur á ýmsum sviðum. Ég ætla mér ekki þá dul að gera því misrétti viðhlítandi skil í stuttri framsögu enda er það verkefni þeirrar nefndar sem hér er gerð tillaga um. Nokkur augljós dæmi er engu að síður rétt að nefna.
    Það misrétti sem einstaklingar verða fyrir vegna kynhneigðar sinnar getur bæði verið formbundið og menningarbundið. Í fyrsta lagi getur misréttið beinlínis verið bundið í lög. Þannig kveða hegningarlögin t.d. á um mismunandi refsimörk þegar um kynferðismök við unga einstaklinga er að ræða eftir því hvort í hlut eiga gagnkynhneigðir eða samkynhneigðir. Refsimörk gagnkynhneigðra eru við 16 ára aldur en samkynhneigðra við 18 ára aldur. Til að gæta allrar sanngirni er þó rétt að taka það fram að á þessu er gerð breyting í því frv. til hegningarlaga sem nú er til umfjöllunar í allshn. þingsins og er full ástæða til að fagna því.
    Í öðru lagi kemur formlegt misrétti fram í því að samkynhneigðir njóta ekki sömu verndar eða styrks af lögum og reglum og þeir sem gagnkynhneigðir eru. Þannig heimila lög aðeins hjúskap milli karls og konu og þar af leiðandi getur sambúð samkynhneigðra einstaklinga ekki notið þeirrar verndar eða þess réttar sem hjúskapur veitir. Í fjölmörgum lögum er að auki að finna ákvæði um réttindi fólks í óvígðri sambúð, en þau eru jafnan orðuð á þann veg að þau ná aðeins til karls og konu í sambúð en ekki til tveggja einstaklinga af sama kyni. Réttarstaða samkynhneigðra einstaklinga í sambúð er því verulega skert. Milli þeirra er ekki gagnkvæmur erfðaréttur og ættingjar hafa ríkari rétt en maki. Þannig geta ættingjar sjúklinga t.d. meinað samkynhneigðum maka hans aðgang að gjörgæsludeild sjúkrahúss og því miður eru sorgleg dæmi um að slíkt hafi gerst.
    Formbundnu misrétti er hægt að útrýma með því einfaldlega að breyta lögum og setja ný lög þar sem þess er þörf. Öðru máli gegnir um félagslegt og menningarbundið misrétti. Rætur þess liggja djúpt í þjóðarsálinni og oft er það dulið og erfitt að henda reiður á því. Og einmitt þess vegna er það gjarnan erfiðara og sársaukafyllra fyrir einstaklinginn heldur en formlegt, sýnilegt misrétti. Einstaklingurinn kemur engum vörnum við.
    Félagslegs misréttis gagnvart samkynhneigðum einstaklingum gætir á öllum sviðum þjóðlífsins og þeir njóta ekki sama öryggis og félagslegrar verndar og fólk flest. Þannig búa þeir við skert öryggi á vinnumarkaði og á húsaleigumarkaði og þess eru dæmi að samkynhneigðir telji sig órétti beitta í samskiptum við börn sín og kynhneigð þeirra sé notuð til að takmarka umgengnisrétt þeirra við börnin. Reyndar má segja að réttarstaða samkynhneigðra á öllum þessum sviðum sé formlega sú sama og annarra, en þeim reynist mun erfiðara að standa á og sækja sinn rétt vegna fordóma samfélagsins í þeirra garð.
    Menningarlegt misrétti gagnvart samkynhneigðum er ekki síst fólgið í misnotkun tungunnar til að sýna hommum og lesbíum virðingarleysi og fjandskap. Þannig þykir sumum karlmönnum nærtækt að úthúða konum með því að kalla þær lesbíur, ekki síst ef konurnar eru að gæla við kvenréttindi af einhverju tagi. Þegar litlir strákar lenda í rimmu og vilja höggva þungt grípa þeir gjarnan til þess ráðs að kalla hvern annan homma. Í flestum tilvikum vita þeir ekkert hvað hugtakið þýðir en þeir hafa þó fengið þau skýru skilaboð frá samfélaginu að það sé neikvætt og skammarlegt að vera hommi. Og bragð er að þá barnið finnur. Þessir litlu strákar eiga eftir að verða stórir strákar og sumir þeirra verða hommar. Skyndilega standa þeir uppi, jafnvel strax sem unglingar með sjálfsímynd sem þeim var kennt að fyrirlíta frá blautu barnsbeini. Hvernig eiga þeir að öðlast persónulega hamingju við slíkar aðstæður? Óhamingja samkynhneigðra einstaklinga felst nefnilega ekki í sjálfri kynhneigðinni heldur í öryggisleysinu, niðurlægingunni og höfnunarkenndinni sem mætir þeim víðs vegar í samfélaginu.
    Þetta er auðvitað sameiginleg reynsla margra undirokaðra hópa og er í því sambandi nærtækast að nefna svokallaða litaða kynþætti í samfélagi hvítra. Sá er hins vegar munurinn að einstaklingar þessara hópa eru lausir við fordómana innan vébanda fjölskyldunnar en sömu sögu er ekki að segja um samkynhneigða. Því miður mega margir þeirra búa við fyrirlitningu og fordóma foreldra, systkina og annarra ættingja og án efa er það einhver sársaukafyllsti þáttur þessa máls.
    Foreldrum er vissulega nokkur vorkunn. Öll viljum við að börnin okkar verði hamingjusamir einstaklingar og við vitum að sá sem víkur á afgerandi hátt frá því sem er almennt viðurkennt og viðtekið getur átt erfitt uppdráttar í samfélaginu. Þetta er hin klassíska saga um ljóta andarungann. Þess vegna fyllast foreldrarnir ótta gagnvart kynhneigð barna sinna og óttinn verður þess valdandi að þeir reyna að þvinga börn sín undir viðtekin norm samfélagsins. En það er ekki hægt að þvinga hefðbundinni hamingju upp á fólk. Því aðeins getur einstaklingurinn öðlast hamingju að hann fái að vera maður sjálfur með

fullum rétti og virðingu.
    Þegar hugtökin jafnrétti og mannréttindi fengu pólitískt innihald og þunga fyrir tæpum tveimur öldum náðu þau fyrst og fremst til hvítra velstæðra karla á Vesturlöndum. Síðan hafa æ fleiri hópar gert tilkall til jafnréttis og mannréttinda og er nærtækast í því sambandi að nefna konur, trúarbragðahópa og kynþætti. Nú er tæpast til sú mannréttindayfirlýsing sem ekki kveður á um að engum megi mismuna á grundvelli stjórnmálaskoðana, trúarbragða, kyns eða kynþáttar. Kynhneigð hefur enn ekki ratað inn í margar slíkar yfirlýsingar. Samt eiga samkynhneigðir að ýmsu leyti mun erfiðara með að berjast fyrir jafnrétti sínu en flestir aðrir þjóðfélagshópar. Til að komast hjá beinu misrétti geta þeir dulið kynhneigð sína en kona getur ekki afneitað kynferði sínu né blökkumaður kynþætti sínum. Og sá sem læðist með veggjum öðlast ekki þá sjálfsvirðingu sem þarf til að krefjast réttar síns.
    Yfirgnæfandi meiri hluti samkynhneigðra kýs að fórna rétti sínum til fullrar aðildar að samfélaginu á jafnréttisgrundvelli fremur en að beita sér gegn misréttinu. Hér er því kominn vítahringur. Samkynhneigður einstaklingur getur ekki krafist réttar síns nema hann geri grein fyrir máli sínu. En hann getur ekki gert grein fyrir máli sínu vegna réttleysis síns.
    Virðulegi forseti. Sem stjórnmálamenn og sem manneskjur höfum við alþingismenn mikilvægu hlutverki að gegna í málefnum samkynhneigðra. Við getum átt frumkvæði, kortlagt misréttið, afnumið hið formlega misrétti og gripið til raunhæfra aðgerða gegn því félagslega og menningarlega. Í þessum efnum erum við því miður talsvert á eftir þeim löndum sem við miðum okkur helst við. Á flestum Norðurlöndum eru nú í gildi lög sem kveða á um að það sé refsivert að blása til andúðar á samkynhneigðu fólki. Þá hafa bæði í Danmörku og Svíþjóð verið sett lög sem kveða á um rétt fólks í sambúð í erfðamálum, skattamálum og skiptingu eigna við skilnað, og taka þessi lög jafnt til sambúðar fólks af sama kyni sem gagnstæðu. Það er von mín að sambærileg lög líti dagsins ljós á Íslandi í nánustu framtíð.
    Flm. þessarar þáltill. vilja ekki lengur una því að á Íslandi líðist misrétti sem byggist á kynhneigð og telja því nauðsynlegt að verða við ályktunum Evrópuráðsins frá 1. okt. 1981 og Norðurlandaráðs frá 1. mars 1984 en þær fjalla báðar um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki. Það er ósk okkar að mál þetta fái málefnalega umfjöllun hér á Alþingi og skjóta meðferð í nefnd þannig að takast megi að afgreiða það á þessu þingi.
    Fordómar, ótti og afskiptaleysi á ekki heima í svo litlu samfélagi sem Ísland er. Við ættum að hafa þá yfirsýn sem þarf til að þekkja og virða þarfir og tilfinningar fólks af ólíkum toga og við eigum að leggja metnað okkar í að koma í veg fyrir að einstaklingar séu órétti beittir og rændir hamingju sinni.
    Að þessu sögðu legg ég til, hæstv. forseti, að tillögunni verði vísað til síðari umr. og til umfjöllunar í hv. félmn.