Staða samkynhneigðs fólks

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 23:32:00 (5292)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð vegna þessarar till. en eins og hv. 10. þm. Reykv. gat um er ég ein af flm.
    Það er svo sannarlega kominn tími til að Alþingi Íslendinga reki af sér slyðruorðið í þessum málum. Við stóðum að því, Íslandsdeild Norðurlandaráðs, á sínum tíma að vinna að samþykkt ráðsins um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki en urðum jafnframt að taka við réttmætri gagnrýni félaga okkar á Norðurlöndum að Ísland og Finnland væru einu löndin sem hefðu lítið sem ekkert gert í þessum málum.
    Það er nú einu sinni svo að við gerum kannski ekki allt of mikið af því hér á hinu háa Alþingi að ræða um hamingju fólks sem ætti þó að vera meginmarkmið allrar stjórnmálastarfsemi, að auka á hamingju landsmanna. Til þess erum við raunar kjörin og ekkert vinnur eins gegn hamingju einstaklings og laumuspil með tilfinningar fólks vegna fordóma samferðamannanna.
    Samkynhneigð hefur alla tíð fylgt manninum og hefur á sumum menningarsvæðum þótt fullkomlega eðlilegt ástand og nægir að nefna hið forna Grikkland. Hvernig sem

á því stendur, hvort samkynhneigt fólk er gjarnan meira skapandi eða ekki, þá er því ekki að neita að ótrúlega margir fremstu listamanna í heiminum hafa verið samkynhneigðir og hefur það gjarnan fylgt skáldum og listamönnum og verið viðurkennt vegna yfirburða þeirra. En auðvitað á ekki að gilda annað um þá sem gæddir eru sérstökum náðargáfum umfram aðra. Og það er auðvitað óþolandi fyrir þetta fólk sem er ákveðið hlutfall í öllum þjóðfélögum þurfi að búa við það að fela tilfinningar sínar, gerast jafnvel landflótta eins og mörg dæmi eru um og við öll þekkjum vegna þess að í okkar litla samfélagi hefur þessu fólki verið óbærilegt að vera meðal okkar og það er ekki til þess að státa af.
    Það er þess utan auðvitað í þágu samfélagsins alls að samkynhneigðir geti lifað eðlilegu fjölskyldulífi því að laumuspil eins og þetta fólk hefur orðið að búa við elur af sér miklu óæskilegri lifnaðarhætti, svo sem lausung og skyndikynni sem eru engum til góðs, hvorki samkynhneigðum né gagnkynhneigðum. Þegar eyðnisjúkdómurinn kom upp var mönnum auðvitað ljósara en nokkru sinni fyrr að lausung í kynferðismálum, hvort sem um er að ræða gagnkynhneigða og samkynhneigða, er ekki æskileg og kannski hættuleg. Og það verður að segjast eins og er að engir þjóðfélagshópar tóku það mál eins ákveðnum tökum og sýndu eins mikla ábyrgð gagnvart þessum sjúkdómi og einmitt samtök samkynhneigðra hér í landi.
    Þetta fólk hefur orðið að búa við það að hafa ekki leyfi til að auglýsa samkomur sínnar. Satt að segja veit ég ekki hvort það er svo enn, þó hygg ég að svo sé, og við þetta verður auðvitað á engan hátt búið. Ég held því að þessi till. sé mjög svo tímabær og ég treysti því að hið háa Alþingi vinni að því að að þessu máli verði unnið af mestu alvöru. Ég held að það hljóti að vera takmark okkar allra að allir þegnar þjóðfélagsins fái að njóta hamingjusams fjölskyldulífs, fái að njóta þess að þurfa ekki að fara með tilfinningar sínar í felur. Ég held að að sé engum til góðs. Og ég tel mjög æskilgt að nefnd eins og hér er gerð tillaga um hefji sem allra fyrst störf og vinni í samráði við samkynhneigða að skynsamlegri lagasetningu þannig að þessi hópur Íslendinga njóti sömu mannréttinda og við hin.