Réttarstaða fólks í vígðri og óvígðri sambúð

121. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 00:13:00 (5299)

     Flm. (Ragnhildur Eggertsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir þáltill. á þskj. 713 um að gerður verði fræðslubæklingur um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð. Meðflytjendur eru hv. þingkonur Kvennalistans, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Kristín Einarsdóttir.
    Vegna þess hve oft hafa komið upp erfið vandamál við sambúðarslit eða andlát annars sambúðaraðila teljum við flytjendur þessarar till. brýnt að gefinn sé út fræðslubæklingur um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð. Einkum er mikilvægt að fólk viti rétt sinn í óvígðri sambúð þar sem nánast algerlega skortir réttarreglur um slíka sambúð. Það hefur komið í ljós að ríkjandi er mikill misskilningur um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Sá misskilningur er sennilega til kominn vegna nokkurra ákvæða í almannatryggingalögum sem kveða á um að eftir tvö ár í sambúð eða hafi sambúðarfólk eignast barn saman eða ef konan er þunguð öðlist það rétt til bóta frá Tryggingastofnun eins og um hjón sé að ræða.
    Munurinn á hjónabandi og óvígðri sambúð er í aðalatriðum þessi:
    1. Í óvígðri sambúð eru engar reglur um helmingaskipti eigna og skulda.
    2. Enginn erfðaréttur er milli sambúðarfólks.
    3. Enginn réttur er til setu í óskiptu búi.
    4. Engin gagnkvæm framfærsluskylda er fyrir hendi.
    Fólki, sem býr í óvígðri sambúð, verður einna helst líkt við tvo aðila sem stofna með sér fyrirtæki, fjárfesta í fasteignum og tækjum og stofna til skulda. Þegar hætta á rekstri fyrirtækisins verður hvor um sig að sanna sitt fjárframlag og gera grein fyrir sinni skuldastöðu. Ef um andlát annars aðilans er að ræða þarf sá aðili sem eftir lifir að gera slíkt hið sama vegna lögerfingja hins látna. Ekki er um erfðarétt að ræða eins og ég sagði áðan og langar mig að taka dæmi varðandi erfðarétt eða réttleysi réttara sagt.
    Við skulum taka sem dæmi roskið fólk, konan er fráskilin og á íbúð, innbú og bíl. Maðurinn er eignalaus en á uppkomna dóttur sem hann eignaðist utan hjónabands og hefur aldrei haft neitt samband við. Þau hefja sambúð og kaupa íbúð erlendis á nafni mannsins. Til að fjármagna kaupin er tekið lán að upphæð 3 millj. kr. með veði í íbúð konunnar. Maðurinn deyr skyndilega, þau höfðu þá verið fimm ár í sambúð og töldu víst að þau hefðu allan sama rétt og hjón eftir svo langan tíma. Staðan sem konan kemst í er sú að hún verður að selja íbúð sína til að greiða lánið og dóttur mannsins sem er einkaerfingi að íbúðinni sem lánið var notað til að greiða.
    Annað dæmi um sambúðarslit í óvígðri sambúð. Kona og maður fara að búa saman. Eftir nokkur ár slitnar upp úr sambúðinni. Hún átti litla íbúð áður en sambúð hófst sem á hvíldu nokkrar veðskuldir. Á meðan á sambúðinni stóð gerðist þetta: Íbúð konunnar var seld og þau keyptu sér aðra stærri og um leið dýrari sem skráð var á nafn mannsins. Til að fjármagna mismuninn á verði íbúðanna voru tekin nokkur lán á nöfnum beggja með ábyrgðarmenn úr báðum fjölskyldum. Þau keyptu bíl sem greiddur var með bankaláni er

konan tók á sínu nafni og ættingjar hennar voru ábyrgðarmenn á. Bíllinn var skráður á nafn mannsins, innbúið var keypt með afborgunum og enn eru ábyrgðarmenn úr fjölskyldum beggja. Þau eignuðust barn saman og konan fór að vinna á kvöldin og um helgar til að drýgja tekjur heimilisins. Þessar tekjur hennar voru ekki gefnar upp til skatts. Maðurinn sá um öll fjármál heimilisins og afhenti konan honum laun sín sem fóru eins og aðrar tekjur heimilisins m.a. upp í að borga skuldir. Þessar skuldir voru auk fyrrgreindra fjárfestinga meðlagsskuldir sem maðurinn kom með í sambúðina. Þegar sambúðarslit lágu fyrir seldi maðurinn íbúðina og bílinn enda hafði hann lögum samkvæmt rétt til að ráðstafa að vild eignum skráðum á sitt nafn, þó um sameiginlegt heimili þeirra væri að ræða þar sem þau voru ekki gift.
    Til að leysa úr hugsanlegum deilum sem upp geta komið við aðstæður sem þessar þarf m.a. að svara eftirfarandi spurningum: Hvers virði var nettóeign sú er konan kom með í sambúðina? Þ.e. hvers virði var litla íbúðin? Hverjar voru skuldir konunnar á þeim árum? Hvert væri verðmæti íbúðarinnar og skuldastaða konunnar í dag? Hvers virði er íbúðin sem þau keyptu? Hver á að greiða skuldir? Hver á að endurgreiða ábyrgðarmönnum það sem þeir hafa hugsanlega orðið að leggja út? Er um raunverulega eignaukningu að ræða og ef svo er hvernig á hún þá að skiptast á milli þeirra? Ef maðurinn hafnar helmingaskiptum á þeim forsendum að hann hafi haft mun hærri tekjur en konan hvernig á hún þá að sanna sitt fjárframlag þegar allar kvittanir eru á nafni mannsins og skattframtöl sýna engar tekjur hjá henni? Hvað með heimilisstörfin? Á að meta þau til einhverra tekna?
    Af því sem hér hefur verið nefnt má sjá að mál sem upp geta komið þegar slitnar upp úr óvígðri sambúð geta verið hreint ekki auðveld viðureignar. Og þá er aðeins verið að tala um það sem varðar eignir ekki tilfinningar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að réttarreglur um óvígða sambúð skortir.
    Þegar ég leitaði upplýsinga hjá lögfræðingi um hvað gert hefði verið í þeim málum var mér tjáð að sifjalaganefndin á Norðurlöndum hefði fjallað um þetta efni um áraraðir og komist að þeirri niðurstöðu að ekki beri að setja fólki í óvígðri sambúð sömu lög og þeim sem eru í vígðri sambúð þar sem fólk sem giftir sig ekki vilji bersýnilega komast hjá þeim réttarreglum er hjónabandi fylgja.
    Ef fólki væri ljós réttarstaða sín áður en það stofnar til óvígðrar sambúðar yrðu mál eins og hér hafa verið tekin sem dæmi að öllum líkindum mun fátíðari en þau eru í dag. Mikil þörf er á að setja reglur um réttindi og skyldur í sambúð því það er nú svo að sambúð er til í ýmsum myndum, t.d. sambúð samkynhneigðra, sambúð systkina, sambúð foreldris og fullorðins barns, sambúð vina og vinkvenna. Hvað varðar réttarstöðu fólks í hjónabandi er það svo hvað varðar eignir, skilnaðarmál og erfðamál að margur er afar illa að sér um þau mál. Sú skoðun er almenn að engu máli skipti hvort hjóna sé skráð fyrir eignum. Þetta er rangt. Ef litið er á íslensk hjúskaparlög eins og þau eru í dag þá eru reglur þessar: Hvort hjóna á sínar eignir og ábyrgist sínar skuldir. Þær eignir sem hjón flytja með sér í hjónaband eða eignast síðar verða hjúskapareign þess sem skráður er fyrir þeim og standa undir skuldum þess sama aðila. Þessar lagareglur hafa þá þýðingu að ef annar aðilinn á bíl fyrir hjónaband, í hjónabandinu er keypt íbúð, sumarbústaður, hesthús, atvinnuhúsnæði og önnur íbúð og allt þetta er skráð á nafn þessa sama aðila, segjum sem svo að það sé maðurinn, þá á hann þessar eignir, þær eru hjúskapareignir hans og hann hefur leyfi til að veðsetja þær eða selja án þess að samþykki konunnar þurfi til, þó með þeirri undantekningu að ekki sé um að ræða fasteign sem fjölskyldan býr í eða notuð er til atvinnureksturs hjónanna. Það væri fróðlegt að vita hve stór hluti fasteigna hér á landi er þinglýstur á nafn kvenna.
    Þá er það líka útbreidd skoðun að ári eftir að gengið hefur verið frá skilnaði að borði og sæng gangi lögskilnaður sjálfkrafa fyrir sig. Þetta er einnig rangt. Fólk verður sjálft að afla sér prestsvottorðs á nýjan leik og ganga aftur fyrir borgardómara eða sýslumann. Í framhaldi af því gefur síðan dómsmrn. út lögskilnaðarleyfi. Þessi misskilningur getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Í dag er því t.d. þannig varið að ef konan fæðir barn á því tímabili sem ekki hefur verið gengið frá lögskilnaði við maka telst barnið

vera barn þess manns og er þannig skráð í þjóðskrá. Til að leiðrétta slíkt þarf málaferli fyrir dómstólum, svokallað vefengingarmál með tilheyrandi blóðrannsókn á móður, barni og báðum feðrum.
    Aðrar alvarlegar afleiðingar þess að ekki er gengið frá lögskilnaði geta komið upp í sambandi við makalífeyri. Dæmi um það: Maður fær skilnað að borði og sæng frá konu sinni. Þau höfðu verið gift í nokkur ár. Tveimur árum seinna hefur hann sambúð með annarri konu og stendur sú sambúð í 20 ár, eða þar til maðurinn deyr. Maðurinn var opinber starfsmaður og þegar sambúðarkonan ætlaði að ganga eftir makalífeyri fær hún neitun af þeirri einföldu ástæðu að lögum samkvæmt fellur lífeyririnn til eiginkonunnar sem maðurinn skildi við að borði og sæng en gekk ekki eftir lögskilnaði við vegna þess að hann hélt að hann gengi sjálfkrafa fyrir sig.
    Þá ber að nefna hvað fólk er ómeðvitað um rétt sinn samkvæmt erfðalögum. Það er mjög útbreiddur misskilningur að börnum beri að fá arf og stundum leiðir þetta til þess að gamalt fólk leyfir sér ekki að ganga á sparifé sitt vegna þess að það heldur að með því sé það að ganga á rétt barna sinna, sem er þá jafnvel miðaldra fólk í góðum efnum. Að sjálfsögðu eru börn og maki skylduerfingjar. En arfur er eins konar vonarpeningur og eingöngu það sem eftir er þegar arfláti fellur frá.
    Enn fremur hafa margir ekki hugmynd um að þeim er heimilt að ráðstafa 1 / 3 hluta eigna sinna með erfðaskrá. Með því að nota sér þá hugmynd er hægt að bæta við þann arfshluta sem eftirlifandi maki á rétt á samkvæmt erfðalögum eða e.t.v. bæta stöðu einstakra barna. Þessum 1 / 3 hluta getur viðkomandi ráðstafað að vild. Ef gerð er erfðaskrá er einnig heimilt að setja inn í hana ákvæði þess efnis að þegar börn taki arf samkvæmt henni verði sá arfur séreign þeirra en ekki hjúskapareign. Hliðstæður þessara aðstæðna sem eru hér hafa verið teknar sem dæmi hafa allt of oft komið upp í raunveruleikanum og staðreyndin er auðvitað sú að þegar ástin og rómantíkin eru alls ráðandi leggst fólk ekki í lestur lagabókstafa um réttarstöðu sína gagnvart þeim er það óskar eftir að stofna til sambúðar með. Ef hins vegar saminn er lítill, aðgengilegur bæklingur með upplýsingum um réttarstöðu fólks í vígðri og óvígðri sambúð sem prestur, borgardómari eða sýslumaður fengi væntanlegum hjónaefnum í hendur þegar þau bæðu hann að gefa sig saman og bæði þau um leið að kynna sér efni hans gæti það komið í veg fyrir leiðindi og erfiðleika ef sú staða kemur upp þegar rómantíkin verður að bláköldum raunveruleika, að þá treysti fólk sér ekki til að búa lengur saman og vilji skilnað eða sambúðarslit. Til að koma bæklingi þessum til þeirra sem kjósa að búa í óvígðri sambúð væri hægt að beina því til Hagstofunnar að dreifa honum til þeirra sem skrá sig í slíka sambúð. Einnig væri hægt að fela skattstofum um land allt að koma bæklingnum til þeirra sem telja fram saman. Þá gæti slíkur bæklingur sem best legið frammi í bönkum og hjá opinberum stofnunum. Og síðast en ekki síst væri tilvalið að nýta efni hans við kennslu í samfélagsfræði í efstu bekkjum grunnskólans og í framhaldsskólum og með því tryggja eins og kostur er að fólki sé gerð grein fyrir réttarstöðu sinni og á hvern hátt það getur best tryggt hana áður en það hefur sambúð.
    Ég hafði samband við fjölskylduráðgjöf kirkjunnar og fékk þær upplýsingar að þar vantaði tilfinnanlega eitthvað í líkingu við svona fræðslubækling varðandi rétt fólks til eigna þar sem til þeirra leitaði fólk mjög oft eftir ráðgjöf varðandi slík mál og starfsfólk þar hefði ekki í höndunum handhæg gögn til að leiðbeina fólki eftir. Hjá Tryggingastofnun ríkisins var mér sagt að svokölluð tveggja ára regla valdi miklum misskilningi hjá mörgum og starfsfólk þar hafi fullt í fangi við að útskýra fyrir þeim sem þangað leita að með þeirri reglu öðlist fólk ekki öll sömu réttindi og ef um hjón væri að ræða.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína lengri en að henni lokinni legg ég til að þessari þáltill. verði vísað til síðari umræðu og til hv. allshn.