Framkvæmd búvörusamnings

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 10:36:00 (5308)


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa svo sem vænta mátti komið fram gagnlegar upplýsingar um stöðu sauðfjárræktarinnar í landinu og hver alvara þar er á ferðum. Það hefur ýmsum mönnum reyndar verið ljóst og m.a. af þeirri ástæðu hefur landbn. Alþingis fjallað nokkuð um þessi mál og á fundum sínum hefur hún gengið frá tveimur bréfum til að fá málið í betri umræðu. Annars vegar hefur verið leitað til Ríkisendurskoðunar með ósk um að gerð verði úttekt á kostnaði við slátrun og sölu á kindakjöti sem er og hefur verið óeðlilega hár og stuðlað að því að dregið hefur úr neyslu. Frá hinu bréfinu hefur svo verið gengið nýlega. Það er til hæstv. landbrh. um að gerð verði úttekt á stöðu sauðfjárræktarinnar í landinu og þeim afleiðingum sem kunna að verða vegna þess niðurskurðar sem fyrirsjáanlegur er ef ekkert verður að gert.
    Þetta þótti mér vert að kæmi hér fram, virðulegi forseti, og þakka ég fyrir að hafa fengið að mæla þessi orð.