Framkvæmd búvörusamnings

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 10:38:00 (5309)


     Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds ):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Þau staðfesta í meginatriðum það sem kemur fram í fsp. Ráðuneytið ákvað að neyta ekki þess réttar sem búvörusamningurinn veitti því og því hefur sáralítið verið keypt, þ.e. aðeins í þremur tilvikum. Það kunna að vera nokkur rök fyrir þeirri ákvörðun sem ráðuneytið tók en þó hygg ég að þyngri rök hefðu verið fyrir því að fara hina leiðna, þ.e. að neyta þess réttar sem búvörusamningurinn veitti. Ég hygg að ef ráðuneytið hefði neytt þessa réttar hefðu bændur í mörgum tilvikum selt ráðuneytinu allan sinn rétt og það hefði getað munað um það. En ráðherrann staðfesti sem sagt að við blasir mjög alvarlegt ástand. Hann taldi jafnvel hina flötu skerðingu vera talsvert miklu meiri en ég gaf í skyn áðan. Ég nefndi 12--15% en hann nefndi töluna 15--17% sem er að sjálfsögðu mjög skuggalegt útlit. Ég get ekki á þessu stigi málsins gert neitt annað en að hvetja ráðuneytið mjög eindregið til þess að gera allt sem í þess vald stendur til að milda áhrif af þeirri miklu skerðingu sem fram undan er.
    Að öðru leyti þakka ég fyrir.