Framkvæmd búvörusamnings

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 10:45:00 (5313)


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Fáir hafa borið jafnmikið lof á þann búvörusamning sem hér er spurt um framkvæmd á og hv. þm. Ragnar Arnalds. Auðheyrt var að honum fannst ekki nægilega skarplega fram gengið af hálfu hæstv. ráðherra við að framfylgja þeim ákvæðum samningsins sem verða til þess að draga úr sauðfjárframleiðslu í landinu og hefði viljað láta ganga skarplegar fram á síðasta ári í því efni.
    Ég vil aðeins segja það að hér er um gífurlegt vandamál að ræða ef framfylgja á þessum ákvæðum samningsins og ég hvet hæstv. ráðherra eins og hér hefur komið fram hjá fleirum að athuga allar leiðir sem hægt er að fara í þessum efnum en þær verða fyrst og fremst að byggjast á því að greiða fyrir sölu.