Framkvæmd búvörusamnings

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 10:46:00 (5314)



     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er rétt sem hér er sagt að við blasa erfiðar aðstæður í aðlögun sauðfjárframleiðslunnar að innanlandsmarkaði á komandi hausti. Þó er rétt að menn hafi það í huga að hér er á ferðinni seinni niðurfærsla fullvirðisréttarins að greiðslumarkinu sem er ekki endilega það sama og samsvarandi samdráttur í frameiðslu. Ég hygg að það sé alveg ljóst að samdráttur í framleiðslu á milli ára þurfi ekki að vera af þeirri stærðargráðu sem hæstv. ráðherra nefndi og stafar af því að hluti réttarins er ekki virkur í framleiðslu á þessum árum. Ég verð að segja það í ljósi þess sem hér kom fram, sérstaklega með tilliti til þeirra samninga sem kunna að verða gerðir það sem eftir stendur ársins fram að 1. sept., að réttara hefði verið að beita 20% uppkaupareglu ríkisins af meiri þunga eða jafnvel að fullu með hliðsjón af þeim erfiðu aðstæðum sem fram undan eru á næsta hausti. Þó að þar dragi ekki mjög mikið um, þá hefði það þó munað einhverju. Það er auðvitað skammgóður vermir að sleppa því að nýta þann möguleika til að ná einhverjum framleiðslurétti úr umferð þegar fram undan blasir við flöt niðurfærsla réttarins á komandi hausti sem verður þeim mun meiri sem minna hefur náðst úr umferð í frjálsri sölu eða með uppkaupum ríkisins.