Lóranstöðin á Gufuskálum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 10:51:00 (5316)

     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 696 ber ég fram fsp. til hæstv. samgrh. um Lóranstöðina á Gufuskálum á Snæfellsnesi. Ástæður fyrir fsp. eru verulegar áhyggjur sem sjómenn hafa af því að stöðin verði lögð niður en Lóranstöðin á Gufuskálum hefur í langan tíma gegnt mjög mikilvægu hlutverki sem öryggisþjónusta auk þess sem sjómenn hafa nýtt sér lórankerfið til staðsetningar. Fiskimenn leggja mjög ríka áherslu

á það að hafa slíkan búnað til þess að geta staðsett sín skip við landið.
    Auk þess sem lórankerfið er mikilvægt öryggistæki er Lóranstöðin stór vinnustaður í Neshreppi utan Ennis. Þar vinnur allnokkur hópur manna auk þess sem þarna er um töluverð mannvirki að ræða sem ekki liggur fyrir hvað verður um þegar og ef stöðin verður lögð af í árslok 1994 eins og allt bendir til. Af þessum ástæðum hef ég lagt þessa fsp. fyrir hæstv. samgrh.:
  ,,1. Er afráðið að leggja niður starfsemi Lóranstöðvarinnar á Gufuskálum og hætta þjónustu við skip og báta?
    2. Hefur verið tryggt að annað sambærilegt staðsetningarkerfi komi í stað lórankerfisins?
    3. Hvernig verða mannvirki og byggingar Lóranstöðvarinnar nýttar ef starfsemi stöðvarinnar verður hætt?``