Myndbirtingar af börnum í dagblöðum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 10:56:00 (5319)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. sú sem ég ber hér fram fjallar um myndbirtingar af börnum í dagblöðum og ég ber hana undir menntmrh. þar sem hann fer með yfirstjórn barnaverndarmála. Það þarf ekki að segja alþingismönnum það að fjölmiðlar á Íslandi njóta mikils frelsis og eru mjög litlar takmarkanir settar af lögum. Til marks um það má kannski nefna að hugtakið ,,fjölmiðill`` finnst ekki í atriðisorðaskrá íslenska lagasafnsins né heldur hugtakið ,,dagblað``. Þetta er að vissu leyti mikill kostur og sýnir að okkur er annt um frelsið og við viljum að prentmiðlar njóti sem mests frelsis.
    Þó að þetta sé ekki nefnt í lögum, þá eru þess þó engu að síður dæmi að dagblöð og ritstjórar hafi verið dæmd og líklega hefur það eingöngu verið fyrir meiðyrði í garð einstaklinga. Það má kannski segja í sambandi við þessa dóma, þ.e. að það skuli eingöngu hafa verið dæmt fyrir meiðyrði í garð einstaklinga, að þeir séu til marks um að hið ritaða orð vegur mjög þungt hjá okkur Íslendingum.
    En myndbirting getur líka verið meiðandi ekki síður en hið talaða eða ritaða orð. Um það hafa menn verið nokkuð sammála og þess vegna hefur það almennt ekki tíðkast að myndir séu birtar í dagblöðum af fólki sem ratað hefur í einhverja ógæfu þó að frá því séu því miður dapurlegar undantekningar.
    Að undanförnu hafa einstakir fjölmiðlar verið heldur óvarkárir í meðferð sorglegra mála þar sem börn koma við sögu. Finnst mér sem börnum hafi oft og tíðum ekki verið sýnd nægilega mikil nærgætni í þessum málum. Þessir fjölmiðlar hafa haft það sér til afsökunar eða útskýringar að þeir séu með þessum hætti að veita yfirvöldum barnaverndarmála á Íslandi aðhald og það sé í verkahring þeirra og þeirra skylda. En þá hlýt ég að spyrja hvað blað hafi sér til afsökunar sem birtir þriggja dálka útsíðumynd af 9 ára gömlum dreng sem verður fyrir því óláni að stinga jafnaldra sinn með hnífi. Hverjum er verið að veita aðhald með slíkri myndbirtingu? Af hverju fara blöð svona með frelsi sitt og tilfinningar annarra? Ef fólk hér inni veit ekki um hvað ég er að tala, þá er það mynd sem birtist í DV þriðjudaginn 24. mars á baksíðu af þessum litla dreng sem hefur brugðið þar hjólabretti fyrir andlit sér en hann varð fyrir því óláni, 9 ára gamall, að stinga jafnaldra sinn með hnífi. Eins og þið sjáið hefur drengurinn brugðið hjólabretti fyrir andlitið og reyndar gaf DV þá skýringu nýverið í frétt að þar með sé ljóst að andlit barnsins sjáist ekki. En maður getur rétt ímyndað sér hvernig þessu barni líður við þær aðstæður sem þarna eiga sér stað. Lögreglan er komin í fullum skrúða til að taka hann og ljósmyndari er mættur á staðinn til að mynda hann eins og hvern annan stórglæpamann. Hvernig líður þessu barni þegar það sér myndina af sér í blöðunum? Barninu er væntanlega alveg sama hvort það er andlitið sem sést eða ekki. Þetta er hann sem er þarna á útsíðu blaðsins og birt mynd af eins og glæpamanni. Þess vegna spyr ég hæstv. menntmrh. þeirrar fsp. sem birtist á þskj. 656, Ég sé að ég hef ekki tíma til að lesa hana enda hafa þingmenn fsp. fyrir framan sig og því ætti að vera óþarfi að lesa hana upp.