Myndbirtingar af börnum í dagblöðum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:05:00 (5322)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf og þau ágætu viðbrögð sem hann sýndi við fsp. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra um að það sé óskynsamlegt að hefta frelsi fjölmiðla og m.a. rakti ég það í mínum inngangi að það hefðu Íslendingar ekki gert og þess vegna væru engin ákvæði um fjölmiðla í íslenskum lögum. Hins vegar verður maður að segja að fyrst fólk er sammála um þetta, þá er það enn þá sárgrætilegra að fjölmiðlar skuli ekki fara betur með frelsi sitt en raun ber vitni í þessum málum.

    Ráðherra vitnaði til jafnréttislaga og hegningarlaga og að þar væru m.a. ákvæði. Ég kann þau ekki en mig minnir að þau séu eitthvað á þá leið að ekki megi sýna fólki lítilsvirðingu, t.d. konum í auglýsingum eða í myndbirtingu. Mér finnst það álitamál hvort ekki ætti að vera eitthvert sambærilegt ákvæði í lögum varðandi börn. Og ég gerði það að umtalsefni þegar við ræddum lögin um vernd barna og ungmenna hvort þar inn í vantaði ekki eitthvert almennt ákvæði um skyldur okkar allra sem einstaklinga, þó að við séum ekki forsjáraðilar barna, gagnvart börnum, skyldur samfélagsins alls og skyldur stofnana samfélagsins gagnvart börnum. Ég vil beina þeim tilmælum til þeirra sem sitja með mér í félmn. Alþingis að við skoðum það hvort með einhverjum hætti sé hægt að koma því inn í lög um vernd barna og ungmenna því að mér sýnist að full þörf sé á því að gera eitthvað slíkt.
    Þá vil ég bara vonast til þess að umræða eins og sú sem hér hefur átt sér stað í dag verði til þess að fjölmiðlar, sem ástunda slíkar myndbirtingar eða jafngildi þeirra, hugsi sinn gang og átti sig á því að fólki í samfélaginu er ekki sama um svona hluti.