Stofnun sjávarútvegsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:11:00 (5324)



     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi vitnaði til þá skipuðu þáv. menntmrh. og sjútvrh. fjögurra manna starfshóp í janúar 1986 til að gera tillögur um stofnun sjávarútvegsskóla á framhaldsskólastigi. Skilaði þessi hópur áliti í október það sama ár og eins og fyrirspyrjandi vitnaði líka til voru meginniðurstöðurnar þær að stofnaður skyldi sjávarútvegsskóli í Reykjavík sem tæki við hlutverkum Stýrimannaskólans í Reykjavík, Vélskóla Íslands og Fiskvinnsluskólans. Gildandi lögum um sjávarúvegsfræðslu yrði breytt og sett rúm rammalöggjöf sem veitti svigrúm fyrir breytilegt námsframboð í takt við þróun atvinnulífsins og þarfir einstakra greina sjávarútvegsins.
    Þessi sjávarútvegsskóli yrði sérskóli á framhaldsskólastigi og ætti að heyra undir menntmrn. Aðfararnám að skólanum og nám á einstökum brautum gæti einnig farið fram við aðra framhaldsskóla. Stofnað skyldi sérstakt fræðsluráð sjávarútvegsins skipað fulltrúum hagsmunasamtaka, rannsóknastofnana og ráðuneytis sem verði stefnumarkandi í fræðslumálum sjávarútvegsins. Þarna var líka talað um nýtingu á húsnæði Stýrimannaskólans og líka það að skólinn starfaði árið um kring.
    Það varð ekki af því í framhaldi af þessari skýrslu að stofnaður yrði sjávarútvegsskóli og kom þar ýmislegt til. Það komu fram mjög mismunandi sjónarmið eftir því sem ég fæ upplýst og auk þess, eins og fyrirspyrjandi gat um, urðu stjórnarskipti þarna skömmu síðar.
    Í nefndaráliti um hagræðingu í framhaldsskólum, sem skilað var til mín fyrir skömmu, er m.a. fjallað um verkaskiptingu á milli skóla, sameiningu og samstarf. Þar er einkum fjallað um samstarf varðandi innritun og námsframboð en einnig er nefndur sá kostur að sameina skóla og talið koma til greina að kanna sameiningu stýrimannaskólanna í Reykjavík, Vélskóla Íslands og Fiskvinnsluskólans í einn sjávarútvegsskóla. Ég tel þess vegna rétt að taka þetta mál aftur til athugunar og vega og meta hvort þetta sé hyggilegt og hvort það hafi í för með sér hagræðingu og gæti stuðlað að bættri sjómannamenntun í landinu. Þessi skýrsla sem vitnað er til er nú til meðferðar í ráðuneytinu og verður fylgt eftir með beinum tillögum um ýmsa þá þætti sem nefndir eru í skýrslunni. Það er augljóst mál að við þurfum að skoða þetta mál í ljósi þess að ýmislegt hefur breyst frá því að starfshópurinn frá 1986 skilaði sinni skýrslu. Greinilegt er af þessari nýju skýrslu um hagræðingu í framhaldsskólakerfinu að þessar hugmyndir eru enn á kreiki og ég tel rétt að athuga þær nánar og að nýju.