Inntaka nýnema í framhaldsskóla og háskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:24:00 (5329)

     Fyrirspyrjandi (Hermann Níelsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt fsp. til hæstv. menntmrh. Þessari fsp. var dreift fyrir rúmri viku og fjallar um inntöku nýnema í framhaldsskóla og háskóla. Hún hljóðar þannig:
    ,,Er fullvíst að allir nýstúdentar, sem sótt hafa um skólavist við Háskóla Íslands, geti hafið nám þar næsta skólaár?
    Verða einhverjar hömlur settar á inntöku nemenda í mennta- og fjölbrautaskóla umfram það sem verið hefur?``
    Það er öllum kunnugt að mikil óvissa ríkir nú meðal væntanlegra nýnema við Háskóla Íslands. Stjórnendur skólans hafa látið að því liggja í umræðum að brugðist verði við niðurskurði á fjárveitingu til skólans með því að engir nýnemar hefji þar nám í haust. Slík óvissa er að mínu viti lítilsvirðing gagnvart því unga fólki sem gert hefur áætlanir um nánustu framtíð sína, t.d. með leigu á húsnæði í Reykjavík og umsóknun til lánasjóðsins. Þetta unga fólk veltir nú fyrir sér þeirri spurningu hvort það megi búast við að ganga um atvinnulaust næsta vetur.
    Gagnvart framhaldsskólunum gilda svipuð sjónarmið að viðbættu því hvernig hinir einstöku skólar munu bregðast við niðurskurði greiðsluáætlunar næsta haust. Engar línur munu verða lagðar af hálfu ráðuneytisins um það hvernig bregðast skuli við. En ýmsar spurningar leita á hugann í þessu sambandi. Á að fækka áföngum sem boðið verður upp á eða jafnvel leggja niður brautir? Á að minnka yfirvinnu kennara? Munu breytingar leiða til lengingar á náminu eða með öðrum orðum seinka námi? Námsfólk okkar hlýtur að eiga rétt á því að fá tæmandi upplýsingar um námsframboð og aðstæður til náms næsta skólaár.