Inntaka nýnema í framhaldsskóla og háskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:31:00 (5333)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Já, ég vona að þeirri óvissu sem kann að hafa verið uppi um hvort nýnemar verði skráðir til náms við Háskóla Íslands í haust sé eytt. Sú óvissa kom upp vegna ályktunar háskólaráðs 16. des. sl. þar sem því var lýst yfir að ef fjármagn til háskólans yrði svo naumt skammtað eins og þá var sýnt orðið samkvæmt fjárlagafrv., gæti háskólinn ekki tekið inn nýnema. Háskólinn hefur falið svokallaðri lögskýringarnefnd að fara yfir gildandi lög og niðurstaða hennar er að háskólinn hafi jafnar skyldur við þá sem innritast og þá sem fyrir eru í skólanum og að óbreyttum lögum hljóti háskólinn þess vegna að innrita nýnema á næsta háskólaári þrátt fyrir að minna fé sé til umráða en menn hefðu óskað. Þannig á þessari óvissu að vera eytt þótt háskólaráð hafi í sjálfu sér ekki ályktað um þetta. En háskólarektor hefur lýst þessu yfir í ræðu sem hann hélt fyrir tæplega tveimur vikum, ef ég man rétt, á svokölluðu opnu húsi háskólans sem haldið var í Þjóðarbókhlöðunni þar sem kynntar voru hinar ýmsu námsbrautir. Þessari óvissu á þannig að vera eytt.
    Varðandi það að tæmandi upplýsingar liggi ekki fyrir um þær námsbrautir í framhaldsskólakerfinu sem í boði kunna að verða á næsta hausti, þá var starfandi nefnd sem ég skipaði hinn 15. jan. sl. sem gera skyldi tillögur um hagræðingu í framhaldsskólum. Sú nefnd skilaði áliti fyrir skömmu eins og ég sagði áðan og lagði þar fram lítið af beinum tillögum en margs konar hugmyndir um hagræðingu í framhaldsskólakerfinu. Í nefndinni sátu fjórir fulltrúar frá Skólameistarafélaginu og fjórir frá menntmrn. Unnið er að úrvinnslu á þessum hugmyndum og tillögum í ráðuneytinu núna og verða ýmsir aðilar kallaðir til. Mjög náið samband er haft við við skólastjóra framhaldsskólanna og haft samband við þá hvern og einn af ráðuneytisins hálfu. Þannig að einmitt nú er unnið að því að vega og meta hvernig koma megi við hagræðingu í hverjum einasta skóla. Þar kemur mjög margt til t.d. samstarf og sameining skóla. Við vorum að ræða eitt atriði áðan, mögulega sameiningu Stýrimannaskólans, Vélskólans og Fiskvinnsluskólans. Það er nokkuð sem gerist auðvitað ekki í einu vetfangi, er kannski meira langtímamarkmið. En fjölmargar slíkar tillögur eru uppi varðandi t.d. námsframboð skóla sem eru á sama svæði, að þeir bjóði ekki allir upp á það sama þar sem eru kannski fáir nemar í hverjum skóla þannig að komið verði mjög nánu og ákveðnu samstarfi á milli skólanna. Þetta á ekki síst við á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík og Reykjanesumdæmi.
    Eins og ég sagði eru þessar hugmyndir og tillögur til meðferðar núna í ráðuneytinu. Mér er alveg ljóst að vont er að hafa þessi mál í óvissu mikið lengur og ég hef ástæðu til að ætla að allri óvissu verði eytt á allra næstu dögum eða viku.
    Ég gleymdi að svara einni spurningu. Hvort það væri álit mitt að framhaldsskólinn væri öllum opinn. Álit mitt er að svo sé. Samkvæmt gildandi lögum er hann opinn.