Endurskoðun laga um grunnskóla og framhaldsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:36:00 (5334)

     Fyrirspyrjandi (Bryndís Friðgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég er með þrjár fyrirspurnir til menntmrh. og þær varða endurskoðun laga um grunnskóla og framhaldsskóla.
    Á síðasta kjörtímabili voru samþykkt ný lög um grunnskóla og framhaldsskóla og um þau varð pólitísk samstaða. Nú hefur ráðherra hins vegar séð ástæðu til þess að láta endurskoða þessi glænýju lög og fengið til þess einvala lið með einhliða tilskipun. Það er ekki ætlun mín að lasta það fólk sem á sæti í nefndinni, síður en svo. Þetta er fagfólk sem örugglega kann vel til verka. Það er hins vegar athugunarvert hvernig staðið er að tilskipun í þessa nefnd. Í erindisbréfi nefndarinnar stendur m.a. að nefndinni sé falið að kanna kosti þess að færa grunnskólana alfarið undir sveitarfélögin. Ég hlýt því að spyrja hvernig í ósköpunum standi á því að enginn fulltrúi í nefndinni er frá samtökum sveitarfélaga. Ég ætla einnig að spyrja menntmrh. hvers vegna enginn fulltrúi frá kennarasamtökunum sé í nefndinni. Og varðandi 3. spurninguna vil ég benda á að það eru fleiri skólar, bæði grunn- og framhaldsskólar en þeir sem eru á höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru úti um allt land, enn þá sem betur fer.
    Hvers vegna er aðeins einn fulltrúi utan höfuðborgarsvæðisins í nefndinni?