Endurskoðun laga um grunnskóla og framhaldsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:38:00 (5335)


     Sigríður Jóhannesdóttir :
    Hæstv. forseti. Hver er tilgangurinn með endurskoðun laga um grunn- og framhaldsskóla nú? Var ekki þjóðarsátt um þetta mál í fyrravor? Hvað breyttist á einni nóttu sem gerði það að verkum að hæstv. menntmrh. var ekki fyrr tekinn við embætti en hann taldi brýnt að endurskoða þau lög sem hann hafði sjálfur samþykkt með miklum fögnuði fáum vikum áður?
    Sögur ganga um það að megintilgangur samninga nýrra laga um grunnskóla nú sé að flytja rekstur þeirra alfarið út til sveitarfélaganna. Ef það er tilfellið er vægast sagt ankannalegt að ekki skuli vera neinn fulltrúi frá samtökum sveitarfélaga í nefndinni. Og þegar maður hugsar til þess hve vandi hinna fjölmörgu litlu sveitarfélaga, sem eru að burðast við að reka skóla, er mikill læðist að skólamönnum sú hugsun að skynsamlegt hefði verið að hafa fleiri en einn fulltrúa utan höfuðborgarsvæðisins til að fjalla um þessi mál. Kennarasamtökin höfðu lengi barist fyrir því að fá að tilnefna eigin fulltrúa í slíka nefnd og þeim varð að ósk sinni á síðasta kjörtímabili. Þeir fulltrúar sem samtökin hafa tilnefnt hafa verið valdir án tillits til stjórnmálaskoðana. Þeir hafa fyrst og fremst verið lykilfólk úr uppeldismálaumræðunni innan kennarasamtakanna, fólk sem er með fingurinn á púlsinum. Það var ekki síst fyrir atbeina þessara aðila að málum var svo vel tekið innan samtakanna þegar frv. komu síðan fram. Þau voru í takt við það sem fólk innan stéttarinnar var að hugsa. Það var mikil stjórnviska hjá hæstv. fyrrv. menntmrh. að vinna að málum með þessum hætti og þau vinnubrögð mættu fleiri hæstv. ráðherrar taka sér til fyrirmyndar.