Endurskoðun laga um grunnskóla og framhaldsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:47:00 (5338)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Málsvörn hæstv. menntmrh. var ákaflega fátækleg þegar hann var að reyna að útskýra það að eðlilegt væri að 17 / 18 hlutar nefndarinnar kæmu af tilteknu landshorni. Þó það sé hinn mætasti maður sem af landsbyggðinni er sprottinn og starfar í nefndinni efa ég að hann sé 17 manna maki jafnvel þótt samanburðurinn sé við Reykvíkinga eða fólk á suðvesturhorninu.
    Í öðru lagi ætti hæstv. menntmrh. að tala gætilega þegar hann er að ræða um samskipti við sveitarfélögin og bera saman frammistöðu fyrrv. og núv. ríkisstjórnar. Ég held að ríkisstjórn lögregluskattsins, sú ríkisstjórn sem þverbraut lögbundin ákvæði um samráð við sveitarfélögin á sl. vetri, ætti að tala gætilega eða hæstv. ráðherrar hennar. Auðvitað er alveg ljóst að sú stefnumörkun og sú lagasetning sem fór fram í ágætu samkomulagi að lokum í fyrravor og um tókst víðtæk sátt, þar á meðal um þátttöku sveitarfélaganna í að bæta íslenska grunnskólann á 10 ára tímabili. Um það snerist það mál og þar ætluðu bæði ríkið og sveitarfélögin sér nokkurn hlut. Auðvitað mundu sveitarfélögin vera að breyttu breytanda velviljuð í því að reyna að gera íslenska grunnskólann betri. Það er allt annað mál að á niðurskurðartímum þegar verið er að skemma grunnskólann, að ætla þar á ofan að velta auknum byrðum yfir á sveitarfélögin.