Endurskoðun laga um grunnskóla og framhaldsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:50:00 (5340)


     Anna Kristín Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið máls á þessu því að það er í hæsta máta mjög óeðlilegt að nú eigi að endurskoða grunnskólalögin sem svo víðtæk sátt var um á síðasta ári. Við sem störfum úti í skólanum verðum mjög vör við hvílíkt óöryggi það skapar, bæði meðal foreldra, nemenda og kennara að nú skuli eiga að umbylta þessum lögum sem margir voru sammála um að væru til mikilla bóta. Ég vil minna þá umræðu sem hefur farið fram á þinginu í þessari viku um aðbúnað barna og ungmenna og menntmrh. hefur lýst sig sammála því að hann sé alls ekki góður hér á landi. Samt vill hann skera svona mikið niður til grunnskólans og skaða starf hans með nýskipan þessarar nefndar.
    Varðandi tilnefningu í nefndina þá tek ég undir það sem síðasti ræðumaður sagði. Ekki hafa ekki komið fram skýringar á því hvers vegna ekki var leitað tilnefninga í nefndina og hvernig voru þessir aðilar valdir í nefndina fyrst ekki var leitað eftir tilnefningu fra hagsmunasamtökum. Var kannski farið í félagaskrá ákveðinna stjórnmálaflokka?