Endurskoðun laga um grunnskóla og framhaldsskóla

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 11:51:00 (5341)


     Fyrirspyrjandi (Bryndís Friðgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það eru greinilega fleiri en ég sem hafa áhyggjur af nefndinni og hvernig hún er valin. Ráðherra talaði um það áðan og lýsti ágæti þessa fólks og það væri í nefndinni vegna eigin ágætis. Ég lýsti líka yfir því að þetta væri ágætisfólk og þetta væri fagfólk á sínu sviði og vissi nákvæmlega hvað það væri að gera. Hins vegar talaði ég um að fólk vantaði í nefndina og óeðlilegt er að tilnefningin komi frá ráðherranum og að þetta lið skuli vera svona einvala. Kannski getum við kennt fólkið við einhvern ákveðinn stjórnmálaflokk eins og áðan var sagt.
    Ráðherrann talaði áðan um það hversu góða talsmenn sveitarfélaga Alþb. átti. Ég vil benda ráðherranum á það að ég er sveitarstjórnarmaður utan af landi og vissulega hlýt ég þá að hafa áhyggjur af því þegar á að skoða kosti þess að færa grunnskólana alfarið undir sveitarfélögin. Sveitarstjórnarmenn hljóta þá að vera hræddir við að hafa engan fulltrúa í þessu liði sem á að kanna þessa kosti. Því er mjög eðlilegt að við gerum athugasemd við það og í sveitarstjórnum um allt land er rætt hvað nefndin er að gera.
    Ég vil í lokin skora á ráðherrann að gefa nú línuna út í skólana hvernig eigi að mæta niðurskurðinum. Auk þess að vera sveitarstjórnarmaður er ég líka starfsmaður í grunnskóla úti á landi og nú er verið að undirbúa skólastarf næsta árs og auðvitað þarf niðurskurðurinn að vera samræmdur á milli allra skóla í landinu. Ég hef t.d. heyrt talað um að sumir skólar séu að velta því fyrir sér hvort eigi að taka alfarið einn bekk af. Þá er stundum nefndur 6 ára bekkurinn, sem er nýbúið að gera að skyldu, en þá þyrfti að samræma það, t.d. um allt land. Því vil ég skora á ráðherrann að ýta við því fólki sem á að gefa línuna um þennan niðurskurð ef það er ekki hann sjálfur sem gerir það.