Samskipti varnarliðsins og íslenskra starfsmanna þess

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:04:00 (5344)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr hver áform séu uppi til þess að eyða óvissu um atvinnuöryggi íslenskra starfsmanna varnarliðsins sem og hvað unnt sé að gera til þess að bæta samskipti varnarliðsins við starfsfólk sitt. Ég vil byrja á að vísa til þess að í skýrslu minni til Alþingis sem var nýlega til umræðu var rækilega að því vikið að þessi mál eru mikilli óvissu undirorpin og við Íslendingar hljótum að búa okkur undir það að umsvif varnarliðsins minnki á alveg næstu árum. Það á bæði við um umsvif varnarliðsins sjálfs að öllum líkindum sem og um framkvæmdir í þágu þess. Þessi mál eru þess eðlis að þau eru utan valdsviðs íslenskra stjórnvalda að verulegu leyti og þarf ekki að orðlengja um það. Óvissan er tilkomin vegna jákvæðrar þróunar í heiminum í kringum okkur og er bein afleiðing af minnkandi hernaðarumsvifum, afleiðing af því að það er dregið stórlega úr fjárveitingum til varnarmála, fyrirhuguðum breytingum á varnarviðbúnaði og varnarstefnu vestrænna lýðræðisríkja. Allt mun þetta hafa bein áhrif á okkur.
    Það sem er efst á dagskrá hjá íslenskum stjórnvöldum er tvennt: Annars vegar að fá úr því skorið innan stjórnar Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins að framkvæmdaáform sem eru innan framkvæmdaáætlunar til nokkurra ára verði staðfest og ekki verði horfið frá þeim. Það varðar þá fyrst og fremst framkvæmdir sem yrðu unnar á vegum Aðalverktaka og undirverktaka þeirra á næstu árum. Það mál er enn

í óvissu. Íslensk stjórnvöld hafa tekið það upp mjög ákveðið við alla samstarfsaðila okkar. Þannig hef ég nýlega skrifað bréf um þetta efni, bæði til varnarmálaráðherra Noregs og Bretlands. Málið er á dagskrá í stjórn Mannvirkjasjóðs. Þar hefur m.a. stjórnarfólki sjóðsins verið boðið hingað til lands til þess að kynna sér málin og til viðræðna en því miður er það svo að þau eru enn í óvissu. Ákvarðanir hafa ekki fengist teknar og m.a. tengist þetta enn aukinni óvissu vegna óska bandarískra stjórnvalda um það að samstarfsaðilarnir innan Atlantshafsbandalagsins auki framlög sín vegna kostnaðar af þessum framkvæmdum, þ.e. efli hina evrópsku stoð samstarfsins.
    Hinn þátturinn lýtur að sjálfsögðu að starfsmannahaldi varnarliðsins hér. Þar hefur verið í gildi svokölluð ráðningarfrysting frá því í janúar 1990. Hún er eingöngu í því fólgin að ekki er ráðið aftur í störf þeirra íslenskra starfsmanna sem láta af störfum af hvaða ástæðum sem er. Þess skal getið að víðast hvar þar sem bandarískar varnarstöðvar eru samkvæmt slíkum samningum í Evrópu og annars staðar í heiminum hafa þær ýmist verið lagðar niður eða þar er um að ræða mjög verulega fækkun. Það hefur ekki orðið í okkar tilviki. Reyndar er það nú svo að á seinustu mánuðum hefur ráðningarbanninu verið aflétt að hluta, þ.e. að veittar hafa verið undanþágur frá því þannig að í upphafi janúar 1991 voru 1.033 íslenskir starfsmenn hjá varnarliðinu. Þeim hafði fækkað niður fyrir 950 en þeir eru nú 970, þ.e. það hefur verið ráðið aftur í þessi störf.
    Að því er varðar spurningu um frekari breytingar, er vitað að uppi eru óskir um það af hálfu varnarliðsins að auka verkútboð á tilteknum þáttum þar sem sjónarmið íslenskra stjórnvalda er náttúrlega það að það fólk sem sinnt hefur þessum verkum verði endurráðið og þá til innlendra verktaka sem munu sinna þessum störfum, viðhalds- og þjónustuþáttum, í auknum mæli.
    Að lokum, virðulegi forseti. Eins og tilkynnt var í umræðunum um skýrslu utanrrh. þá er boðað að ég mundi nú fljótlega skipa sérstaka nefnd til þess að kanna hvort tveggja út frá íslenskum hagsmunum, þær breytingar sem eru að verða á varnarsamstarfinu og þá jafnframt að taka upp viðræður við bandarísk stjórnvöld til þess að báðir aðilar gangi út frá sömu forsendum og til þess beinlínis að semja um það að þessi minnkun umsvifa fari fram með þeim hætti í samræmi við ákvæði varnarsamningsins og í samræmi við íslenska hagsmuni.