Mengun frá bandaríska hernum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:21:00 (5349)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Utanrrn. og yfirstjórn Atlantshafsflota Bandaríkjanna undirrituðu samkomulag 17. júlí árið 1989 um lausn á grunnvatnsmengun sem fram hafði komið í Keflavík, Njarðvík og á flugvallarsvæðinu. Aðdragandi þess máls var sá að fram höfðu farið og staðið yfir í alllangan tíma ítarlegar rannsóknir á orsökum þessarar mengunar og umfangi. Niðurstaða þessara rannsókna varð sú að ekki væri óyggjandi, þar á meðal að mati ríkislögmanns, að einn aðili væri valdur að skaðanum. Fremur en láta á það reyna fyrir dómstólum var samið um þetta mál og þann samning tel ég vera til mikillar fyrirmyndar einmitt að því er varðar lausn á slíkum mengunarvandamálum og á samskiptum þessara aðila.
    Samningurinn var um það einfaldlega að reist var sérstök ný vatnsveita fyrir Suðurnes og um það samið að kostnaður við byggingu vatnsveitu og dreifikerfis upp á 9 millj. dollara eða 540 millj. ísl. kr. var greiddur af bandaríska varnarliðinu en vatnsöflunarkerfi og rekstur veitunnar síðan afhentur sveitarfélögum. Fulltrúar sveitarfélaga á Suðurnesjum áttu aðild að þessu máli frá upphafi, bæði að því er varðaði rannsóknirnar og samningsniðurstöðuna. Og þegar þessu verki var lokið var lýst yfir mikilli ánægju af hálfu sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum með þessa farsælu lausn.
    Í viðbæti við varnarsamninginn um réttarstöðu varnarliðsins og um eignir þess, þá er það svo að íslenska ríkið á endurkröfurétt fyrir 85% af tjóni á eignum, lífi og limum Íslendinga sem úrskurðað er að varnarliðið sé orsakavaldur að. Sé um að ræða tjón þar sem menn í liði Bandaríkjanna og íslenskir þegnar eiga báðir sök skulu Ísland og Bandaríkin hvort um sig greiða helming tjónsins. Þetta hefði kannski verið það ákvæði sem orðið hefði að fylgja ef ekki hefði samist um það með öðrum hætti. Réttaráhrif samningsins frá 17. júlí 1989 eru þau að íslenska ríkið á ekki endurkröfurétt á hendur Bandaríkjunum, bæturnar eru þegar fram lagðar í formi nýs vatnsbóls og nýrrar vatnsveitu. Samningurinn breytir þó í engu þeim bótarétti sem íslenskir ríkisborgarar eða fyrirtæki kunna að eignast á hendur íslenska ríkinu, samkvæmt viðbætinum við varnarsamninginn, vegna skaðaverka sem sannanlega væru rakin til varnarliðsins. En þetta mál var það rækilega rannsakað að við teljum ekki á því nokkrar líkur að til þess komi.
    Að því er varðar mál sem hv. fyrirspyrjandi nefndi hér og varðar Heiðarfjall, þá vil ég aðeins taka fram eftirfarandi: Upphaflega var kröfum beint að íslenskum stjórnvöldum af hálfu landeigenda en síðan sneru landeigendur sér með sína kröfugerð á hendur bandarískum stjórnvöldum. Auk varnarmálaskrifstofu hafa um það mál fjallað ríkislögmaður og umhvrn. Ágreiningur er um að sönnuð sé megun vegna fyrrum varnarstöðvar. Einnig hefur komið upp ágreiningur milli umhvrn. og landeigenda um sýnatöku á fjallinu. Þetta mál verður á dagskrá utanrmn. þar sem fulltrúar utanrmn. munu gera rækilega grein fyrir málsatvikum.