Mengun frá bandaríska hernum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:34:00 (5355)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst ástæðulaust að kalla það sleggjudóma og dylgjur þó að menn hafi áhyggjur af mengun vegna hersins sem hefur haft hér aðsetur í mörg ár. Ég sé ekki að ástæða sé til þess að menn svari því með þeim hætti þegar vakin er athygli á mjög alvarlegum málum sem menn vita kannski ekki enn þá og örugglega ekki hve alvarleg geta verið. Ég tel að menn eigi að taka því með stillingu og koma af stað rannsóknum á þessum málum.
    Ég verð að segja að mér þykja menn af Suðurnesjum ansi lítilþægir ef þeim finnst að það hafi verið einhvers konar góðgerðarstarfsemi frá hendi hersins að gefa þeim tækifæri til að drekka hreint vatn að nýju.