Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:41:00 (5358)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Spurt er: Hvað dvelur að sáttmál Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna verði formlega staðfestur á hinu háa Alþingi? Svarið við því er þetta:
    Fyrst var þessi sáttmáli til ítarlegrar athugunar hjá dómsmrn. þar sem ástæða þótti til að kanna sérstaklega hvort nauðsyn væri að beita annarri löggjöf samkvæmt skuldbindingum sáttmálans. Eftir því sem mér er tjáð varðaði það einkum og sér í lagi spurningar um áfrýjunarrétt til æðra stjórnvaldsstigs í barnaverndarmálum. Sú athugun tók nokkurn tíma en henni er lokið. Jafnframt hefur verið unnið að því að þýða þennan mikla sáttmála og því verki er einnig lokið. Það sem þá dvelur lokaafgreiðslu málsins er mikið annríki þjóðréttarsérfræðings utanrrn. sem nú er önnum kafinn við að undirbúa hina gagnmerku heimsráðstefnu í Ríó og hefur verið síðasta mánuð af þeim sökum í New York og er nú á Grænlandi. Mér er tjáð að það sé áætlað tveggja daga verk að ljúka þessu og þannig er ekki útilokað að unnt sé að leggja sáttmálann á íslensku máli ásamt þáltill. fyrir hið háa Alþingi fyrir þinglok.