Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:42:00 (5359)


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir ):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir greið og góð svör en verð hins vegar að lýsa áhyggjum mínum yfir þeim mannafla sem hann hefur yfir að ráða. Ekki dreg ég í efa að Guðmundur Eiríksson sé hinn mætasti starfsmaður en tæplega er hægt að ætlast til þess að hann einn og sjálfur sjái um öll samskipti ráðuneytisins við aðrar þjóðir. Ég mundi því vilja mælast til þess og skal reyna að beita mér fyrir því í hv. fjárln. að ráðuneytið fái að hafa yfir að ráða lágmarksmannafla.
    En ég tel að það sé afar mikilvægt að þáltill. verði lögð fram á þessu þingi. Það er Alþingi til sóma ef tekst að afgreiða á þessu þingi þau lagafrumvörp sem hér liggja nú fyrir um málefni barna og var tími til kominn að þeim málum væri sinnt af einhverri alvöru. Ég vil því biðja hæstv. ráðherra að leita sér aðstoðar til að hægt sé að ganga frá þessu máli ef það er ekki nema tveggja daga verk, þýðingu lokið og öllum ítarlegum athugunum. Það hlýtur því að vera leysanlegt að ganga frá þáltill. sem lögð yrði fram á þessu þingi.