Ferðakostnaður lækna

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:58:00 (5365)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Engum dylst að það eru verulegir erfiðleikar í fjármálum íslenska ríkisins og af þeim sökum hafa stjórnvöld talið nauðsynlegt að draga saman seglin á mörgum sviðum. Eðli máls samkvæmt er slíkur samdráttur oftar en ekki umdeildur og sársaukafullur. Það er rætt um að til að ná endum saman í heilbrigðiskerfinu og til að ná þeim niðurskurði sem stjórnvöld telja óhjákvæmilegan þurfi e.t.v. að grípa til aðgerða á borð við lokun deilda, fækkunar á starfsfólki á sumum stofnunum auk annars samdráttar.
    Þess vegna er eðlilegt að menn reyni að finna leiðir til sparnaðar og hagræðingar sem hafi sem minnstar breytingar í för með sér á hefðbundinni þjónustu heilbrigðiskerfisins. Einn af þeim þáttum sem menn horfa til þegar rætt er um leiðir til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu er sá kostnaður sem hið opinbera mun samkvæmt ákvæðum í samningum þurfa að greiða vegna ferðalaga lækna sem starfa á sjúkrahúsum. Mér finnst það satt að segja ótækt og ósanngjarnt, svo ekki sé meira sagt, að á tímum sem þessum þar sem aðhalds er þörf í ríkara mæli en áður þá skuli þetta fyrirkomulag vera við lýði. Þess vegna tel ég tímabært, virðulegi forseti, að þetta verði tekið til gagngerðrar endurskoðunar. Ekki síst vegna þess hef ég óskað svara frá hæstv. heilbrrh. við eftirfarandi spurningum:
  ,,1. Hvaða reglur gilda um greiðslur á ferðakostnaði lækna?
    2. Hve miklum upphæðum er varið samanlagt til þessa þáttar á hverju ári?
    3. Hver er hámarksgreiðsla til hvers læknis?
    4. Njóta einhverjar aðrar starfsstéttir heilbrigðisgeirans svipaðra hlunninda?``