Ferðakostnaður lækna

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:07:00 (5369)



     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Hér hefur komið fram í svari hæstv. ráðherra að u.þ.b. 485 læknar njóta þessara vildarkjara sem þýðir að u.þ.b. 300.000 kr. launauppbætur eru greiddar til þeirra á ári og mestu greiðslur geta farið upp í 600.000. Þar að auki fá viðkomandi læknar laun greidd.
    Í þriðja lagi hefur ráðherrann upplýst það hér að yfirlæknar hafa fengið greiðslur fyrir lengra námsleyfi og líka hefur komið fram að þessar greiðslur eru í heimildarleysi. Þess vegna vil ég taka undir þá fsp. sem hv. þm. Finnur Ingólfsson beinir hér til ráðherrans varðandi þetta.
    Mig langar síðan líka til þess að spyrja ráðherrann hvort ekki sé alveg rétt skilið hjá mér að þessar tekjur eða hlunnindi eru ekki taldar fram til skatts og mig langar líka til að spyrja hvort að hann telji að starfsemi sjúkrahúsanna mundi líða fyrir ef þessar sjálfvirku greiðslur yrðu lagðar af. Mig langar líka til þess að fá svar við því hvort hann telji nokkra sanngirni í því að læknar fái þetta en engar aðrar sérmenntaðar stéttir sem starfa á sjúkrahúsunum.