Ferðakostnaður lækna

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:09:00 (5371)



     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Sjálfsagt er að upplýsa það að eitt af því fyrsta sem við skoðuðum í heilbrrn. þegar að því kom að verulega þurfti að draga úr fjárframlögum var þessi kostnaður við námsferðir lækna. Svo vill til að þar erum við að tala um svipaðar fjárhæðir og Alþingi treystir sér til þess að ráðstafa til framkvæmda við öll sjúkrahús og heilsugæslustöðvar á Íslandi utan Reykjavíkursvæðisins og Akureyrar. Þetta eru því engir smá fjármunir sem menn eru að tala um.
    Niðurstaða þeirra athugana var þessi: Hér er um samningsbundnar greiðslur að ræða þannig að ráðherra og Alþingi geta ekki einhliða ákveðið að breyta þeim eða lækka. Þetta er hluti af kjarasamningi sem gerður hefur verið og auðvitað er möguleiki á því hjá ríkinu að framlengja ekki slík ákvæði kjarasamnings. Ég hef komið því á framfæri við samninganefnd ríkisins að ég óski eftir því að þessi þáttur kjarasamninga lækna verði endurskoðaður í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir. Í annan stað lét ég athuga sérstaklega hvort unnt væri af heilbrigðisyfirvöldum að takmarka eitthvað þessar greiðslur og hvaða möguleika við hefðum á því. Þá kom það fram að yfirlæknar á sjúkrastofnunum hefðu rýmri námsfríðindi en samið er um í kjarasamningi við Læknafélag Íslands og mér var skýrt svo frá að það væri með heimild í bréfi frá fyrrv. heilbrrh. Ég var ekkert að rekast í því, virðulegi forseti, hvaða fyrrv. heilbrrh. það var. Ég tek því eins og gullvægum sannindum sem hv. þm. Finnur Ingólfsson sagði áðan að þessi gjörningur hefði ekki gerst á sl. fjórum árum. Um það get ég ekkert fullyrt. Mér var bara sagt að þetta væri með heimild frá ráðherra. Þessa heimild dró ég til baka og skrifaði sérstakt bréf um það til Læknafélags Íslands þar sem ég vakti athygli á þessari framkvæmd og með því að draga þessa heimild til baka þá var ég ekki að mínu áliti að brjóta samning við læknafélagið. Undir það tóku þeir. Þeir lýstu því yfir að þeir teldu að þetta væri ekki samningsbrot þar sem ekki væri um þetta samið. Nokkur lækkun á þessum kostnaði hefur því átt sér stað.
    Ég ítreka að það er auðvitað rétt og skylt og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þessi mál upp og vekja athygli á þeim, því að það er ekkert smáræði að inn í kjarasamningi einnar heilbrigðisstéttar skuli vera svona ákvæði sem kostar ríkissjóð álíka mikið fé á ári eins og menn treysta sér til að verja til stofnkostnaðar allra heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa utan Reykjavíkur og Akureyrar. Hér er um álíka mikið fé að ræða, sennilega heldur meira en menn eru nú með harmkvælum að reyna að skera niður í útgjöldum ríkisins til sjúkrahúsa í Reykjavík. Það er því ekkert óeðlilegt við það að vakin sé athygli á þessu.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. spurði hér áðan af hverju þingmaður Alþfl. væri að taka þetta mál upp hér, hvort þetta mál hefði strandað einhvers staðar í kerfinu? Málið strandar einfaldlega á því að hér er um kjarasamningamál að ræða sem menn verða að taka upp við kjarasamningaborðið en ekki við ríkisstjórnarborðið því að ríkisstjórn og Alþingi ráða ekki við þetta nema gerðar séu breytingar á kjarasamningi um þessi efni.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi svarað þeim fsp. sem til mín var beint. Ég ítreka það að ég var ekkert að leita uppi í hvaða gjörningi hvaða fyrrv. heilbrrh. þessi framkvæmd hefði fundið stoð um að ívilna yfirlæknum meira en öðrum. Mér fannst það skipta minna máli, hitt skipti meira máli að sá gjörningur yrði dreginn til baka og það hef ég gert.