Ferðakostnaður lækna

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:14:00 (5372)



     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég var því miður ekki hér inni þegar þessar umræður hófust eða þessi fsp. var borin fram sem hér er til umræðu og heyrði því ekki svar hæstv. ráðherra. Ég vil aðeins láta það koma fram að í tíð fyrrv. heilbrrh. var einnig skoðað hvaða möguleikar væru á því að draga úr þessum mikla kostnaði sem ég heyri að er til umræðu. Hvaða möguleika hæstv. heilbrrh. og reyndar einnig hæstv. fjmrh. hefðu til að draga úr slíkum kostnaði og komumst við þá að þeirri sömu niðurstöðu og ég heyri að núv. hæstv. ráðherra hefur komist að. Hér er um samningsbundið ákvæði að ræða sem ekki verður hróflað við öðruvísi en með kjarasamningsgerð eða við samningaborðið.
    Varðandi það að einhverjar breytingar hafi verið gerðar til rýmkunar í tíð fyrrv. ríkisstjórnar kannast ég ekki við. Ég vil þó ekki fullyrða að það kunni ekki að hafa verið í einhverjum tilvikum um eitthvert einstakt mál að ræða sem hefur komið til umfjöllunar og e.t.v. verið fallist á. En alls ekki almenn regla, það leyfi ég mér að fullyrða.