Endurgreiðslur á tannréttingakostnaði

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:18:00 (5374)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað sjálfsagt að svara öllum fsp. hv. þm. En það er náttúrlega ekki við því að búast ef menn bæta mjög mörgum spurningum við sínar skriflega fluttu fsp. þegar þeir mæla fyrir henni þannig að ráðherra hefur ekki haft aðstöðu til að afla þeirra upplýsinga sem hann þarf að fá til að geta svarað þeim fsp. fullkomlega sem menn bera fram munnlega með þeim hætti. Þá geta menn að sjálfsögðu ekki átt von á því, virðulegi forseti, að ráðherra geti svarað öllum slíkum spurningum á stað og stundu. Ég mundi gjarnan vilja svara öllum þeim fyrirspurnum sem hv. fyrirspyrjandi bætti við en mér var bara ekki kunnugt um þær fyrr en hún mælti fyrir sinni skriflegu fsp. og mitt svar miðast því fyrst og fremst við hana.
    Í fyrsta lagi eru nú komnar inn 4.500 umsóknir en þær bárust flestar í síðustu viku fyrir skilafrestinn sem var 15. mars. Giskað er á að meðaltalskostnaður á hvern sjúkling verði um 215 þús. kr. og meðalmeðferðartími verði um 2 1 / 2 ár. Hér er því um að ræða heildarkostnað upp á 967 millj. kr. Sé gert ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins greiði að meðaltali 50% er hlutur Tryggingastofnunar ríkisins um 480 millj. kr. Hafi eyðublöðin frá Tryggingastofnun verið rétt fyllt út er mjög auðvelt að flokka sjúklinga eftir þeim og nægir þá fyrir tryggingayfirtannlækni að skoða eingöngu hluta af tilfellunum nánar vegna vafaatriða og eftirlits. Allir almennir tannlæknar sem hafa annast tannréttingar, og er talsvert um að þeir geri það, hafa fyllt út eyðublöðin á fullkominn hátt. Hins vegar hefur enn komið í ljós þrátt fyrir allt sem á undan er gengið að sérfræðingar í tannréttingum hafa ekki fyllt út eyðublöðin nema að hluta. Nota þeir þannig svokölluð ICD-númer í stað flokkunartöflu eyðublaðanna en tannskekkju er ekki hægt að flokka nákvæmlega eftir þeim númerum. Þrátt fyrir afskipti landlæknis af málum þessara tannlækna fyrr í vetur þar sem landlæknir gerði þeim grein fyrir því að það væri lagaskylda allra lækna, þar á meðal tannlækna, að láta í té upplýsingar og vottorð um verk sín til heilbrigðisyfirvalda og þrátt fyrir að ljóst væri að svo gæti farið að þeir misstu starfsréttindi sín ef þeir skiluðu ekki þeim skýrslum til heilbrigðisyfirvalda sem heilbrigðisyfirvöld krefja þá um hafa þeir ekki virt niðurstöður landlæknis. Ég mun að sjálfsögðu ræða við landlækni að nýju en ég bendi á að ef þetta verður enn til að tefja afgreiðslu málsins þá bitnar það á sjúklingum þessara lækna.
    Það sem við höfum gert til að hraða málinu er það að ég hef fallist á að ráðið verði --- eða mæla með því við tryggingaráð --- að ráðinn verði aðstoðartannlæknir til að hjálpa tryggingayfirtannlækni til að vinna þessi flokkunarstörf þannig að reynt verði að hefja þegar í stað flokkun á þeim umsóknum sem ágreiningur er um hvort séu nægilega skýrar af hálfu tannréttingalæknanna. Ljóst er að deilan við þessa menn, sem ég sem ráðherra fékk í arf frá fyrrv. hæstv. heilbrrh. sem hafði staðið í löngu stímabraki og stappi við þessa menn, hefur bakað sjúklingum ómæld vandkvæði. Nú loksins hillir undir lausn á vandamálinu og sjúklingar eygja nú endurgreiðslumöguleika eftir nánast 2 1 / 2 árs bið. Hitt er alveg ljóst að ég mun láta reyna á það til þrautar hvort þessi hópur heilbrigðisstarfsmanna ætlar að vanvirða þá lagalegu skyldu sem þeim ber að uppfylla að fylla út þau vottorð og þær skýrslur, sem heilbrigðisyfirvöld krefja, eða hvort þeir ætla að láta hætta á það að heilbrigðisráðherra noti úrslitavald sitt og taki af þeim starfsréttindi.