Endurgreiðslur á tannréttingakostnaði

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:24:00 (5376)



     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en ég verð þó að segja að mér fannst hann ekki svara þessari þó einu spurningu sem ég lagði fram á þinglegan hátt, um það hvenær fólkið mætti búast við að fá þessar greiðslur í hendur. Hann talaði mikið um vandamálið með tannlæknana og þeir skiluðu ekki vottorðum sem þarf til að Tryggingastofnun ríkisins greiði út viðkomandi upphæðir. Ég vil því endurtaka þá spurningu: Er það meiningin að greiða þetta allt saman þann 31. des. 1993, og þá með verðbótum væntanlega, eða á að mjatla þessu smátt og smátt út úr stofnuninni eftir að vottorð hafa borist? Ég get tekið undir það með ráðherranum að ekki er ánægjulegt að eiga við það ef sumir tannlæknar neita að skila gögnum sem nauðsynleg eru í þessu sambandi en eftir þeim upplýsingum sem ég hef þá eru nú líka margir tannlæknar sem ætla að standa sig í því og veita þessi vottorð.
    Það er annað sem þessu tengist sem er forvitnilegt að vita um. Ég skal viðurkenna að sú fsp. er ekki borin fram á þinglegan hátt þannig að ráðherrann þarf ekki að svara henni frekar en hann vill eða hann hefur þekkingu til. En nú er það svo með suma þessara sjúklinga að þeir þurfa að fara í skurðaðgerðir í tengslum við tannréttingarnar. Hvernig er tekið á þeim málum núna þegar lýtalækningadeild er ekki að störfum? Þetta er mál sem mér leikur líka forvitni á að vita um og þessi spurning kemur bara upp núna í sambandi við þetta mál. En eins og ráðherrann tók fram þá ber honum ekki skylda til að svara þeim spurningum sem ekki hafa verið lagðar fram áður.