Framkvæmd jafnréttislaga

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:45:00 (5382)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Sl. vor voru samþykkt ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á Alþingi, en í 12. gr. þeirra laga segir, með leyfi forseta:
    ,,Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu þar sem því verður við komið sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.``
    Þegar þessi lög voru sett var nokkuð hert á þessu ákvæði frá fyrri lögum. Skoðun mín er sú að þar hafi ekki af veitt því þegar við horfum á þær upplýsingar sem fyrir liggja um hlut karla og kvenna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkisins má ljóst vera að þar er hlutur kvenna mjög fyrir borð borinn.
    Samkvæmt því sem fram kemur í þáltill. sem liggur fyrir þinginu frá hæstv. félmrh. var hlutur kvenna í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum ríkisins árið 1990 16,6% en á sama tíma er hlutfallið í Noregi 36%. Það er því augljóst að við erum langt á eftir þeim þjóðum sem við berum okkur jafnan saman við þegar þessi mál eru skoðuð. Nú geta menn spurt sig hvort það skipti alltaf máli að tala karla og kvenna sé með sem jöfnustum hætti þar sem um slík ráð og nefndir er að ræða. Ég vil svara því játandi. Máli skiptir að konur séu þar sem ákvarðanir eru teknar, ákvarðanir sem snerta líf okkar allra og ekki getur talist annað en eðlilegt að hlutföll kynjanna séu með sem jöfnustum hætti nánast hvar sem er í okkar þjóðfélagi. Miklar breytingar eiga sér stað varðandi starfsval og nánast hvert einasta svið sem við lítum á í þjóðfélaginu og það er og verður eðlilegt að konur komi þar að.
    Því vil ég leita eftir svörum hjá hæstv. félmrh. um það hvernig hún hyggist fylgja eftir 12. gr. jafnréttislaganna og bið hana að svara eftirfarandi fsp.:
    ,,Hvernig hyggst félagsmálaráðherra sjá til þess að 12. gr. jafnréttislaganna, nr. 28/1991, verði framfylgt þannig að tala karla og kvenna ,,í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka`` verði sem jöfnust?``