Skipulag ferðamála

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 14:29:00 (5390)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Á dagskrá þessa fundar eru þrjú málefni sem varða ferðaþjónustu og hefði kannski verið hugsanlegt að ræða þau nokkuð í samfellu en ekki hefur verið leitað eftir því sérstaklega, enda kannski áhorfsmál gagnvart þingsköpum. Því verður að

parta umræðuna dálítið niður út frá því hvernig hæstv. ráðherra hagar uppdeilingu þessara mála, eins og hann leggur þau fyrir þingið og mælir fyrir þeim. Ég skal því reyna að virða það og ræða um hin frumvörpin eftir að hæstv. ráðherra hefur mælt fyrir þeim. En ég vildi hér af tilefni þessa fyrsta máls, sem hæstv. ráðherra mælir fyrir, ræða svolítið um þau tök sem hann hefur tekið þessi mál --- eða öllu heldur sem hann hefur ekki tekið þessi mál, því að það liggur fyrir að nær ári eftir að hæstv. ráðherra tók við samgrn. að þá er það fyrst núna á eindaga þingmála og stutt til þinglausna samkvæmt starfsáætlun Alþingis að hæstv. ráðherra kemur með þrjú mál fyrir þingið sem varða ferðamál og breytingu á gildandi lögum um ferðamál.
    Það veldur vissulega miklum vonbrigðum að það skuli taka svo langan tíma fyrir hæstv. ráðherra að gera upp hug sinn í sambandi við hvaða stefnu eigi að taka í ferðamálunum. Og eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra þá boðar hann það að á komandi sumri muni hann skipa nefnd til að fara yfir þessi efni til þess að móta stefnu varðandi stjórnkerfi ferðamálanna sem hið opinbera kemur að. Það hefur tekið hæstv. ráðherra nærri ár að komast að þeirri niðurstöðu að hann muni þurfa að skipa nefnd. Og þröskuldurinn í vegi þess og skýringin á þessu af hálfu hæstv. ráðherra er sú að hann hefur nú uppgötvað að í Ferðamálaráði er formaður, skipaður af fyrrv. hæstv. samgrh., sem stendur í vegi fyrir því verki sem ráðherra nú boðar, að skipuð verði nefnd til þess að taka til við stefnumótun í ferðamálum, pólitíska stefnumótun.
    Maður hlýtur að spyrja sig: Hvers er að vænta frá hæstv. ráðherra í þessum efnum á hugsanlega fjögurra ára kjörtímabili og setutíma hans í samgrn. ef hraðinn verður með því skriði snigilsins sem þetta ber vott um? Þetta er auðvitað þeim mun mun undarlegra, virðulegur forseti, --- og sé ég nú ekki að hæstv. ráðherra sé hér í sjónmáli, jú, hann kemur í þingsal --- þetta er þeim mun undarlegra sem það var hv. þm. Halldór Blöndal sem stöðvaði frv. til laga um ferðaþjónustu sem lá fyrir síðasta þingi og fékk þar mjög ítarlega umfjöllun. Það hafði hlotið afgreiðslu frá neðri deild þingsins með mjög góðu og víðtæku samkomulagi og var komið til efri deildar þingsins og komið út úr nefnd eftir skoðun þar, en það var fyrst og fremst fyrir atbeina hv. þm. Halldórs Blöndals að þetta mál var stöðvað og fékk ekki framgöngu og var ekki lögfest. Sjálfstæðismenn, sem unnið höfðu ásamt öðrum í nefnd, sem fyrrv. hæstv. samgrh. skipaði, höfðu átt fulla aðild að mótun þess frv. sem lagt var fyrir þingið og enginn ágreiningur af þeirra hálfu og fulltrúa þeirra, sem var hv. þáv. þm. Friðjón Þórðarson, sem átti sæti í stjórnskipuðu nefndinni, maður sem hafði fjallað um ferðamál og samgöngumál af hálfu Sjálfstfl. um árabil og átt drjúgan þátt í stefnumótun þar að lútandi. Hann stóð heils hugar að þessu frv. og mælti mjög með því í neðri deild þingsins í fyrravetur. Hann stóð að afgreiðslu málsins með öðrum og stóð að breytingum sem breið samstaða var um í samgn. neðri deildar ásamt hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen, sem einu sinni var samgrh. Sjálfstfl., ef ég man rétt, í heilt kjörtímabil og sinnti þessum málum mjög mikið. Hann stóð að nefndaráliti sem fulltrúar allra þingflokka úr samgn. neðri deildar þingsins áttu hlut að og stóð að breytingartillögum sem gerðar voru. Þessa hv. þm. greindi ekki á um málið þó að fyrirvari kunni að hafa verið gerður um einhver atriði af þeirra hálfu.
    Þetta var staðan eftir ítarlega umfjöllun í þingflokki Sjálfstfl., að því er þeir nefndarmenn sem unnu með þeim að málinu tjáðu okkur. Síðan er málið komið í efri deild og fær meðferð þar í nefnd, en þá er það verk hv. þm. Halldórs Blöndals að stöðva málið á lokastigi, frv. sem var búið að fá mótun með víðtækara samráði, held ég, en nokkurn tíma hefur verið staðið að í sambandi við ferðaþjónustu í landinu og stefnumótun þar að lútandi. Þetta frv., sem sameinaði sérlög um veitinga- og gististaði og var þannig nokkuð heildstæð löggjöf varðandi ferðamál, svo og þál. um ferðamálastefnu, sem unnin hafði verið samhliða, lágu fyrir þinginu. Ef ég man rétt, voru talsvert á annað hundrað aðilar sem höfðu komið sjónarmiðum sínum á framfæri í samvinnu við stjórnskipaða nefnd og ferðamálaráðstefna haldin um þetta. Alls staðar blés byrlega fyrir þessum málum --- þangað til kom að hv. þm. Halldóri Blöndal í fyrravetur. Þá var fæti brugðið fyrir þetta mál.
    Rökstuðningur hv. þm. þáverandi, núv. hæstv. ráðherra, í málinu var ekki mjög efnismikill. Ég fór yfir þingræður hans úr efri deild 7. og 11. mars í fyrra. Fyrir utan einræður við forseta deildarinnar, sem hv. þm. var mjög þjálfaður í, var aðalásteytingsefni hv. þm. varðandi frv. --- ja, hvað skyldi það hafa verið? Jú, það var að ekki skyldi hafa verið séð fyrir því að virðisaukaskattur yrði felldur niður af fjárfestingum í byggingum veitinga- og gististaða, eða hótelbygginga. Hann yfirheyrði þáv. hæstv. samgrh. mjög um málið og sagði m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ég vil vekja athygli á því í annan stað að hæstv. ráðherra vék ekki einu einasta orði að þeirri fyrirspurn minni sem lýtur að því hvort hann hafi tekið upp viðræður um það við hæstv. fjmrh. eða hvaða skoðun hann hefði á því að stíga skrefið til fulls, viðurkenna ferðaþjónustu sem samkeppnisiðnað og útflutningsiðnað í þeim skilningi að ferðaþjónusta aflar orðið verulegra gjaldeyristekna og er auðvitað rétt í samræmi við það að leggja aðstöðugjald á eins og um útflutningsframleiðslu væri að ræða.``
    Þetta segir hv. þm. þann 11. mars. Ég hefði fyrst átt að grípa niður í fyrri ræðuna þar sem hann útlistar þetta enn frekar og segir m.a.:
    ,,Nú hygg ég að hæstv. ráðherra`` --- hann vísar þessu til þáverandi samgrh. --- ,,minnist þess að þegar við vorum að ræða hér um frv. um virðisaukaskatt fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um það og lögðum fram það sjónarmið í umræðuna að það bæri að líta á ferðaþjónustu sem útflutningsatvinnuveg. Ferðaþjónusta hér á landi væri í samkeppni við erlendan ferðamannaiðnað, ef nota má það orð.`` Og síðar: ,,Á hinn bóginn hefur það markmið verið sett fram að rétt og hollt sé að reyna að efla ferðaþjónustu hér á landi í því skyni að fá landsmenn sjálfa til að ferðast meira um landið en verið hefur.``
    Einnig segir hv. þm., sem lengi var í stjórn Byggðasjóðs og víkur að þætti Byggðasjóðs í þessu máli:
    ,,En samtímis því sem fjvn. hefur með þessum hætti lokað fyrir frekari umsóknir um styrkveitingar til hótelbygginga víðs vegar um landið hefur það gerst að einstakir ráðherrar og ríkisstjórn hafa vísað þeim sem hafa í hyggju að reisa hótel eða gistihús á Byggðastofnun með þeim ummælum að sú ríkisstofnun sé reiðubúin til þess að leggja fram fé til hótelrekstrar.
    Nú er það regla Byggðasjóðs að gerast ekki stærri hluthafi í fyrirtæki en nemur 20%. En 20% er nákvæmlega sama fjárhæð og greiða þarf virðisaukaskatt til ríkisins af hótelbyggingu.``
    Þarna sjá menn röksamhengið hjá hæstv. ráðherra. Hann eyddi enn mörgum orðum að þessu og þeirri stefnu Sjálfstfl. að fella bæri niður virðisaukaskatt af hótelbyggingum. Þetta var aðalágreiningsefni hans í sambandi við allan þennan lagabálk. Margar fleiri tilvitnanir mætti hafa upp eftir hæstv. ráðherra fyrir utan samtöl hans við forseta deildarinnar á þessum fundum en ég ætla að spara mér það.
    Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra og bið hann um að leggja við hlustir. Ég kynni nú betur við að hæstv. ráðherra væri í þingsal en sæti ekki á samtölum við embættismenn í hliðarherbergjum þegar verið er að ræða stjfrv. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann gæti ekki orðað það við hæstv. ráðherra að hann væri í þingsal og notaði tímann til þess að fylgjast með og taka þá væntanlega þátt í umræðunni í framhaldi af því sem við þingmenn leggjum orð í belg.
    Ég beini fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Hvað hefur hann aðhafst á því nær ári sem hann hefur setið í stóli samgrh. til þess að koma þessu hjartans máli sínu í höfn? Þessu aðalásteytingsefni og í raun eina efnisatriði sem hann hafði uppi sem ágreiningsatriði vegna frv. um ferðaþjónustu, sem var komið langleiðina í gegnum þingið í marsmánuði í fyrra. Það vantar ekki að hæstv. ráðherra hafi leitt rök að þessu öllu saman, sjónarmiðum sínum og sjónarmiði síns flokks, þó þetta sjónarmið hafi ekki verið flutt af þeim sjálfstæðismönnum sem áttu þátt í að móta frv. í stjórnskipaðri nefnd og fylgdu því eftir langleiðina í gegnum þingið þangað til röðin kom að umræddum hv. þm.
    Ekki ber á því að nú sé flutt frv. um afnám virðisaukaskatts í þeim þáttum ferðaþjónustunnar sem hæstv. ráðherra gerði sem mestan ágreining um. Hvar eru þau mál stödd? Hvað hefur hæstv. samgrh. gert til þess að ná þessu fram? Af hverju kemur hann ekki með

frv. til að afnema þennan aðalþröskuld og ásteytingsefni? Hvernig er háttað samtölum hæstv. ráðherra við fjmrh. um þetta efni? Af því að hann spurði forvera sinn um það hvað hann hefði rætt við fjmrh. Og ég spyr: Hvar er þetta mál statt hjá Sjálfstfl. og hæstv. samgrh.?
    Síðan kemur það atriði frv. að gefa hæstv. ráðherra færi á að skipa nýjan formann í Ferðamálaráð og formann stjórnar Ferðamálasjóðs. Það er sá þröskuldur sem hann vill nú ryðja úr vegi öðrum fremur þannig að hann komist að málinu, ef ég hef skilið hann rétt. Það er sjónarmið út af fyrir sig. En ég hélt að hæstv. ráðherra gæti vel skipað nefnd með væntanlegum formanni. Hann hlýtur að hafa augastað á einhverjum sem hann vill setja sem formann Ferðamálaráðs að frv. lögfestu og hinn sama að formanni eða skipa hann í nefnd þá sem taka á til starfa á næsta sumri. Hvað hindrar hæstv. ráðherra í að koma því starfi af stað svo hann geti farið að draga aðra til liðsinnis við þessi mál til þess að ná áttum? Þann ágæta mann nafngreindi hann í svari við fsp. í þinginu þann 19. mars sl. þegar hann var spurður hvað liði frumvörpum af hans hálfu. Þá greindi hann frá því að hann hafi ráðið Knút Óskarsson hagfræðing til að vera sér innan handar við mótun frumvarpa og sagði hann þaulkunnugan ferðamálum allt frá barnsaldri. Ég hélt að hann hlyti að geta kallað til þá reyndu menn sem hann ætlar að láta hjálpa sér við að ná áttum í sambandi við ferðamálin, frá sínum bæjardyrum séð, án þess að þurfa að ýta frá formanni Ferðamálaráðs. Hvað hindrar ráðherrann í að koma þessu starfi af stað?
    Greinilegt er að það eru önnur málstök af hálfu hæstv. ráðherra eins og hann áformar það, en hjá fyrrv. hæstv. samgrh. Steingrími J. Sigfússyni sem skipaði ekki flokksbróður sinn eða innanbúðarmann úr Alþb. formann Ferðamálaráðs heldur fyrrverandi þingmann úr öðrum flokki. Ekki varð vart við sérstakan þröskuld í sambandi við starfsemi á þeim tíma sem þáv. hæstv. ráðherra fór með þessi mál. Ég er frekar á því að það hafi greitt fyrir mörgu að sá kostur var ráðinn, sem var óvenjulegur. Ég er ekki frá því að þáv. hæstv. ráðherra hafi fengið orð í eyra frá stöku manni úr eigin röðum fyrir þessa nýbreytni. En það er alveg ljóst að hæstv. núv. samgrh. ætlar að hafa annað uppi þó hann hafi ekki neinn ágreining fram að færa við núv. formann Ferðamálaráðs. Hann talar um að mikilvægt sé að hafa gott samstarf við ráðið og engin þau vandamál uppi sem hægt er að skilgreina. Og það skil ég ósköp vel því að ég best veit hefur hæstv. ráðherra nánast engin samskipti haft við Ferðamálaráð á þeim tíma sem hann hefur starfað. Hann hafði a.m.k. ekki fyrir því að tíunda það þegar hann svaraði fsp. 19. mars sl. að hann hefði haft samráð við undirbúning mála, sem nú eru fram komin, hafi haft samráð við Ferðamálaráð. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Hafa þau frv. sem hér eru borin fram, það nægir að spyrja um það fyrsta, ef hæstv. ráðherra vill taka það út af fyrir sig, verið kynnt Ferðamálaráði á mótunarstigi? Hefur ráðherra viðhorf Ferðamálaráðs til þess? Sú stofnun er þó til þess að vera ríkisvaldinu innan handar við stefnumótun og sem tengiliður við atvinnugreinina. Jafnvel þó formaður ráðsins sé ekki í sama flokki og hæstv. samgrh. er ég nokkuð viss um að formaðurinn hefði lagt þetta fyrir Ferðamálaráð, ef borist hefði ósk frá ráðuneytinu þar að lútandi. Jafnvel frv. um að ýta formanni ráðsins úr vegi, sem er aðalinntak þessa máls.
    Ég spyr: Við hverja var haft samráð og hvaða fleiri aðilar kunnugir ferðamálum frá barnsaldri voru dregnir að stefnumótun um hin merku frv. sem hæstv. ráðherra er að bera fram?
    Einnig væri fróðlegt að fá fram við umræðuna: Hver eru þau sjónarmið og stefnumið hjá hæstv. ráðherra sem eru ný og allt önnur en boðuð voru í frv. og á ferðamálastefnu í fyrra og nutu góðs stuðnings sjálfstæðismanna þá? Hver eru þessi nýju pólitísku stefnumið og siglingarljós?
    Áður en ég hverf frá meginatriði frv. kemst ég ekki hjá því að upplýsa að það var vissulega til umræðu í stjórnskipuðu nefndinni, ferðamálanefndinni, sem skilaði frv. til samgrn. á árinu 1991, hvort hafa ætti þann hátt á sem nú er verið að leggja til, hafa skipunartímann styttri og það ráð var upp tekið og fram borið að hafa tveggja ára skipunartíma en ekki fjögurra. Og það var einnig rætt hvort rétt væri að hafa þann hátt á líka að formaður Ferðamálaráðs og formaður stjórnar Ferðamálasjóðs, fylgdi starfandi ráðherra hverju

sinni. --- Hvar er nú hæstv. samgrh.? Er hann svona kvikur að hann festist ekki við? Hann hleypur í gegnum þingsalinn út og inn og virðist engan tíma hafa til þess að fylgjast með umræðu. --- Þetta var vissulega rætt í stjórnskipuðu nefndinni og ýmsir voru þessarar skoðunar. En ég man það mjög glöggt að einn nefndarmaður sérstaklega aftók að styðja þessa hugmynd. Og hver skyldi það hafa verið? Það var fulltrúi Sjálfstfl. í nefndinni, hv. þm. Friðjón Þórðarson, sem lýsti því mjög eindregið að hann væri því andvígur af ýmsum ástæðum og færði fyrir því sín góðu rök, að það væri verið að skipta út mönnum í stjórnum, stjórnskipuðum nefndum og ráðum, eftir því hver vermdi ráðherrastóla hverju sinni og vísaði til langrar reynslu að þessu leyti. En nú kemur flokksbróðirinn, núv. hæstv. samgrh., með tillögu sem gengur í þveröfuga átt. Hv. þáv. þm. Halldór Blöndal hafði ekki orð á málinu þegar hann ræddi þetta í efri deild 7. og 11. mars í fyrra. Hann minntist ekki á það. Svo að varla hefur hann haft uppi mikinn ágreining í þingflokki sjálfstæðismanna þótt hann komi nú með þetta sem eina framlag sitt á þinginu eftir árs setu í ráðherrastóli, að ýta frá formönnum í Ferðmálaráði og stjórn Ferðamálasjóðs. Hann segir okkur síðan að hann ætli að skipa nefnd í sumar, þegar hann er búinn að fá þetta lögfest, því hann treysti sér ekki til þess án þess að víkja núv. formanni Ferðamálaráðs frá.
    Virðulegur forseti. Þetta er afskaplega raunaleg staða og auðvitað áhyggjuefni og hún er það litla sem hæstv. ráðherra hefur látið í skína í sambandi við hugmyndir sínar varðandi mótun stefnu í ferðamálum af hálfu hins opinbera. Í svari við fsp. 19. mars sem borin var fram af varaþingmanni, sem sat á Alþingi fyrir þann sem hér talar, víkur hæstv. ráðherra að ýmsum þáttum og er að afsaka það að hafa ekki komist lengra í þessum málum á einu ári. Að vísu tíundar hann ekki þetta sérstaklega með formanninn, hann hefur ýmsar aðrar skýringar uppi. Hann fjallar í svari sínu sérstaklega um samskipti við náttúruverndaraðila. Ég get ekki látið hjá líða, virðulegur forseti, að draga þann þátt inn í umræðuna vegna þess að hún segir okkur nokkuð um það hver sýn hæstv. samgrh. er til þeirra mála, sem hann er þó ekki einu sinni farinn að koma í nefnd á sínum vegum. Hann segir hér:
    ,,Um sambýli náttúru og ferðaþjónustu er það eitt að segja að menn víðs vegar um heim og raunar hvarvetna gera sér grein fyrir því hvaða þýðingu það hefur fyrir ferðaþjónustu, eins og annan atvinnurekstur, að hún lifi í sátt við umhverfi sitt.`` --- Þetta er nú gott og blessað. ,,Fyrir okkur Íslendinga skiptir þetta mjög miklu máli vegna þess aðdráttarafls sem náttúra Íslands hefur fyrir erlenda ferðmenn. Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að stjórna slíku nábýli með einhverjum lögreglu- eða eftirlitsaðgerðum. Allt veltur á því að ferðaþjónustan sjálf skilji mikilvægi þess að vel sé um landið gengið og varðveiti þær náttúruperlur sem hafa mest aðdráttarafl. Einungis með því að ferðaþjónustan sjálf skipuleggi ferðir um landið með það í huga að hlífa viðkvæmustu stöðunum og reyni að opna nýjar leiðir fyrir ferðmenn er þess að vænta að menn hafi ánægju af dvöl sinni hér og náttúruperlurnar geti varðveist.``
    Við sjáum hvað koma skal þegar hæstv. ráðherra fer að leggja hinni væntanlegu nefnd línurnar. Það er mikil hugsun í þá átt að það eigi að reyna að hafa með skipulegum hætti áhrif á það hvert ferðamannastraumi er beint. Nei, það eiga hinir nær óteljandi aðilar, sem koma að ferðarekstri í landinu, að finna á sjálfum sér. Þetta er inntakið í því sem hæstv. ráðherra er að segja.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta frv. frekar, það koma önnur hér á eftir. En ég verð aðeins að segja það að ég tel að hæstv. samgrh. sé orðinn alldýr í sínu starfi fyrir atvinnuþróun í þessu landi með þeim slóðaskap sem hann hefur gert sig beran að í sambandi við málefni þessa vaxtarbrodds í íslensku atvinnulífi, sem er ferðaþjónustan, og í rauninni þeirrar fáheyrðu framgöngu sem hann leyfir sér gagnvart þinginu og atvinnugreininni, að bregða fæti fyrir stefnumótun og frumvarpsgerð sem unnin hafði verið í mjög nánu samráði við aðila í ferðaþjónustu og aðra sem þetta snertir með aðild hans eigin flokks sem og annarra þingflokka og breið samstaða hafði tekist um. Hann brá fæti fyrir það á lokastigi afgreiðslu í þinginu af því honum hentaði það ekki af einhverjum ástæðum rétt fyrir kosningar og lætur síðan hjá líða að koma með nokkurn skapaðan hlut sem

því nafni er nefnandi inn í þingið fyrr en á eindaga. Varðandi stjórn ferðamála er það hugðarefni eitt fram lagt að ýta til hliðar pólitískum andstæðingum úr tveimur stjórnum og ráðum.