Skipulag ferðamála

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 14:58:00 (5391)


     Pétur Bjarnason :
    Herra forseti. Í máefnasamningi ríkisstjórnarinnar, sem settur var fram fyrir tæpu ári, er kafli sem fjallar um ferðamál. Þar segir að verið sé að endurskoða löggjöf um ferðamál og verði frumvörp um þau lögð fram á Alþingi haustið 1991 og stefnt að því að ný lög taki gildi frá og með ársbyrjun 1992. Þau verði til þess að erlendum ferðamönnum, sem hingað komi, fjölgi, ferðatíminn ár hvert lengist og ferðaþjónusta verði arðvænleg atvinnugrein sem auki gjaldeyristekjur þjóðarinnar og atvinnu í landinu.
    Það er enn fremur sagt að dregið verði úr miðstýringu og að Ferðamálaráð Íslands verði endurskipulagt með fjárhagslegri þátttöku og ábyrgð atvinnulífsins. Það er líka rætt um það að um leið og frumvörp til nýrra laga verði lögð fram þá verði birt áætlun sem á að bæta rekstrarskilyrði ferðaþjónustunnar og tryggja henni hliðstæða samkeppnisaðstöðu og öðrum atvinnugreinum sem afla gjaldeyris.
    Þarna eru sett fram markmið sem eru vissulega góðra gjalda verð og hefði verið ánægjulegra að sjá eitthvað af þeim koma fram á annan hátt en hér er. Það eina sem kemur fram um breytingu á lögum um skipulag ferðamála nr. 79/1985 er frumvarp í tveimur greinum sem varðar skipan manna í Ferðamálaráð og í stjórn Ferðamálasjóðs. Það eru tvær breytingar sem gert er ráð fyrir. Annars vegar að skipun manna í Ferðamálaráð verði til tveggja ára í senn, og reyndar sömuleiðis í Ferðmálasjóð, og hins vegar hitt að skipunartími fulltrúa ráðherra skuli þó vera takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipaði þá, sitji hann skemur. Nú finnst manni að þarna séu eiginlega tvö ákvæði til tryggingar og annað hefði verið nóg. Út af fyrir sig get ég skilið þá viðleitni ráðherra að vilja hafa einhver tök á því fólki sem þar situr --- án þess að ég hafi séð nokkurn tíma að núverandi formaður eða stjórn ráðsins hafi gefið ástæðu til þess. Hér var spurt áðan hvort Ferðamálaráð hefði fjallað um þessi frumvörp. Ég held að ég geti a.m.k. fyrir hönd Ferðamálaráðs fullyrt að ráðið sjálft hefur ekki fjallað um þessi frumvörp og óbreyttir ráðsmenn hafa ekki vitað að til stæði að gera þetta með þeim hætti sem hér er kominn fram.
    En síðan veltir maður fyrir sér hvort ráðherra nær tilgangi sínum með þessari breytingu. Og lítum þá aðeins á hvað lögin sem í gildi eru, nr. 79/1985, segja um skipan í Ferðamálaráð. Þar segir í 4. gr., með leyfi forseta:
    ,,Samgrh. skipar menn í Ferðamálaráð til fjögurra ára í senn. Skulu fimm skipaðir án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður ráðsins og annar varaformaður.`` Síðan segir: ,,Aðra fulltrúa í Ferðamálaráð skipar ráðherra eftir tilnefningu en eftirtaldir aðilar tilnefna einn mann hver:`` Síðan eru taldir upp 18 aðilar sem tilnefna í Ferðamálaráð og skulu skipaðir af ráðherra en án tilnefningar eru það fimm. Þetta segir okkur það að fimm menn af 23 í Ferðamálaráði eru skipaðir af hálfu ráðherra. Mig langar til að spyrja ráðherrann, ef hann má heyra mál mitt, hvort það beri ekki að líta á þessa skipun með allt Ferðamálaráð eða hvort hér eigi eingöngu við þá fimm sem eru skipaðir án tilnefningar.
    Það er kannski rétt að fara yfir hverjir það eru sem tilnefna menn í Ferðamálaráð og sitja þar síðan eftir skipun ráðherra. Það er Félag hópferðaleyfishafa, sem skipar einn mann, og eftirtaldir einn mann hver: Félag íslenskra ferðaskrifstofa, Félag leiðsögumanna, Félag sérleyfishafa, Ferðafélag Íslands, Flugleiðir hf., Náttúruverndarráð, Samband veitinga- og gistihúsa, önnur flugfélög en Flugleiðir hf., Ferðaþjónusta bænda, Reykjavíkurborg og sjö samtök, landshlutabundin samtök, ferðamálasamtök, sem skipa eða tilnefna einn fulltrúa hvert. Alls eru þetta 18 aðilar auk hinna fimm sem ráðherra velur sjálfur.
    Nú vil ég fullyrða að á þeim tíma sem ég hef setið í Ferðmálaráði, sem eru þau tæp þrjú ár sem núverandi ráð hefur setið, hefur verið unnið þar gott starf og ég hef ekki rekið mig á að það hafi verið teknar ákvarðanir þar með pólitískum hætti. Enda held ég að fæstir --- ég þori ekki að segja enginn, ég get ekki fullyrt um það --- þeirra aðila sem tilnefna í það velji sína fulltrúa með hliðsjón eða tilliti til þess hvaða ríkisstjórn situr eða

hvaða pólitískur litur er þar á. Það er mjög erfitt, jafnvel þótt þessi lög taki gildi og skipunartími ráðsins verði hinn sami og embættistími ráðherra að láta pólitískan lit ráða setu manna í ráðinu. Það segir reyndar í frv. ,,skipunartími fulltrúa ráðherra``. Þess vegna vil ég spyrja og fá alveg skýrt hvort það á einungis við þá sem skipaðir eru án tilnefningar eða hvort það á við alla, eins og ég gat um áðan.
    En það er annað sem ég hefði gjarnan viljað vita líka: Ber þá að líta á þetta þannig að ef ríkisstjórn hyggst skipta um menn í ráðherrastólum, eins og kemur fyrir, þá beri skilyrðislaust að skipa í nýtt Ferðamálaráð ef nýr ráðherra tekur þar við störfum, þó að samflokksmaður sé? Og ég spyr vegna þess að í frv. er þessi texti orðaður þannig: ,,Skipunartími fulltrúa ráðherra skal þó . . .  `` Það þykir mér benda til þess að það beri að skipa þessa fulltrúa fyrir hvern og einn sem skipar stól ráðherra, jafnvel þó að samflokksmenn séu og skipt sé á miðju kjörtímabili. Fróðlegt væri að fá þetta skýrt betur.
    Ég hefði kosið sem áhugamaður um ferðaþjónustu að fá eitthvað marktækara og bitastæðara um ferðamálin en það sem hér kemur fram, þrátt fyrir að hér séu fleiri frumvörp á ferðinni sem ég mun ekki fjalla um nú, það kemur að þeim á eftir. Mér finnst þetta afskaplega rýr eftirtekja, miðað við þau markmið sem ég las upp úr málefnasamningi ríkisstjórnar og kom að hér áðan.
    Eins og komið hefur fram í þessu máli þá er það síður en svo að upplýsingar vanti um ferðmál. Ég vil leyfa mér að lýsa yfir þeirri skoðun minni að nefnd sú sem kölluð var Hjörleifsnefnd og starfaði fyrir um tveimur árum hafi skilað af sér verulega miklu og góðu starfi. Hún hafi farið yfir mjög breitt svið og aflað ítarlegri upplýsinga um ferðamál en nokkru sinni hafa verið dregnar saman á einn stað áður. Að því leyti til hafi undirbúningur þess frv. sem hér var sett fram á þingi í framhaldi af því og þáltill. um ferðamálastefnu, verið afskaplega vandaður og góður.
    Það hefur komið fram í þinginu í vetur að auk þessarar miklu vinnu sem þarna var unnin og sett á blað og allra þeirra gagna sem þarna var aflað þá hefur ráðherra verið með mann í vinnu við það að leiðbeina sér um stefnu í ferðamálum. Þeim mun sárara er að ekkert kemur út úr þessu. Ekkert bendir til þess að þeir sem að ferðamálum starfa nú séu nokkru vísari eftir þessa breytingu en áður hvað fram undan er í ferðamálum.
    Ég get ómögulega látið hjá líða nú frekar en áður þegar rætt er um ferðamál hér í þinginu, að koma inn á það sem ég held að þingmenn þurfi endilega að fara að gera upp við sig. Það eru fleiri ræður haldnar í þinginu nú en áður og þær eru mun fleiri en fyrst þegar ég kom inn í þing fyrir fimm árum. Fleiri þingmenn af þeim sem tala um ferðamál tala um ferðamál sem grein í örum vexti, sem björtustu von íslenskrar atvinnuþróunar og fleira í þeim háfleyga dúr. Samt sem áður eru ævinlega við setningu fjárlaga og fjáraukalaga á hverju einasta ári skert þau lögboðnu framlög sem sett voru á til þess að ferðaþjónustan fengi að eflast af sjálfri sér og hún fengi að eflast í samræmi við þann vöxt sem hún sjálf skapaði. Þetta er eins og þingmenn vafalaust vita 10% af vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík sem ákveðið var fyrir --- ég þori ekki alveg að segja hvað löngu, sennilega tíu eða tólf árum, að rynnu til ferðamála. En jafnskjótt, ég held bara sama ár eða næsta á eftir, og þessi lög höfðu verið samþykkt þá var byrjað að höggva í þennan stofn, einkum og sér í lagi þegar það kom í ljós að þarna var um mikinn vöxt að ræða. Ferðaþjónustan var og er --- eins og menn tala um núna --- grein í örum vexti og hún lofar mjög góðu um atvinnuþróun í framtíðinni. Þetta þýddi líka að umferð um Keflavíkurflugvöll jókst verulega. Það þýddi aftur á móti að vörusala í Keflavíkurfríhöfninni fór vaxandi og gaf af sér meiri tekjur og meiri tekjur en menn gátu unnt ferðaþjónustunni að hafa til sinna nota. Sem dæmi um það, ef við nefnum forsendur fjárlaga 1992, þá held ég að ég fari rétt með að þar er reiknað með 1.840 millj. kr. sölu í Fríhöfninni í Keflavík, tæpum tveimur milljörðum. Samkvæmt þessum lögum hefði ferðaþjónustan og Ferðamálaráð átt að fá til markaðssetningar og annarra starfa sem því er falið að inna af hendi 10% af þessu, eða 184 milljónir. En það var nú ekki aldeilis svo í fjárveitingum sem Alþingi ætlaði Ferðamálaráði. Fjárveitingin var skorin niður og skorið rösklegar niður nú en nokkru sinni fyrr. Ferðamálaráð fékk 68 millj. til sinna þarfa núna, sem er sama krónutala og það fékk í fyrra. Mismunurinn er hvorki meiri né minni en 116 milljónir sem teknar voru af Ferðamálaráði eða teknar voru af þessum lögboðna stofni þess.
    Þetta finnst mér að menn ættu framar öllu öðru að beita sér fyrir að lagfæra. Út af fyrir sig sé ég ekki ástæðu til að amast við því að ráðherra geti ráðið hverja hann skipar í þetta ráð. Ég vil hins vegar gera athugasemd við það, ef það er þannig að allir ráðsmenn verði skipaðir til tveggja ára, eins og mér sýnist alveg ljóst að hér sé gerð tillaga um, vegna þess að 23 aðilar sitja í Ferðamálaráði, skipaðir af 18 aðilum og fimm af ráðherra, að tvö ár eru ekki mjög langur tími í svona stórum hópi til þess að menn nái að stilla saman krafta sína og vinna vel saman.
    Núverandi Ferðamálaráð hefur starfað tæp þrjú ár og ég held að einmitt þau kynni sem þar hafa tekist með mönnum og sú góða samvinna sem hefur tekist, sé þó nokkur þáttur í því að þar er samvinna góð. Ég get fullyrt sem óbreyttur ráðsmaður í Ferðamálaráði að þangað hafa ekki mér vitanlega komið nein þau mál, hvort heldur er í sambandi við stefnumótun eða tilmæli frá ráðherra, sem Ferðamálaráð hefur lagst gegn. Eins og ég gat um áðan þá situr þarna fólk með einlægan áhuga á þessari atvinnugrein og yfirleitt með mikla reynslu og verkefni þess er fyrst og fremst að stilla saman sína krafta til að gera það sem gera má fyrir þá knöppu fjármuni sem ráðinu eru ætlaðir.
    Ef mönnum er svona mikið í mun að efla ferðamannaiðnaðinn, sem er farinn að skila okkur verulega á annan tug milljarða í þjóðarbúið á hverju ári, þá held ég að þeir ættu að gera eins og góður bóndi og fóðra mjólkurkúna sína frekar en að svelta hana. Ég held að nytin hljóti að verða mun betri við það. En af því ég er ekki viss um að ráðherra hafi heyrt spurningarnar þá ítreka ég þær aftur. Spurt var um skipunartíma, og þá er ég bæði að tala um þessa fimm ráðherraskipuðu og eins hina 18 sem hann skipar eftir tilnefningar.