Skipulag ferðamála

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 15:14:00 (5392)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við ræðum hér lítið og vesælt frv. Ég hafði búist við að við mundum á þessu þingi fá til meðferðar frv. til laga um ferðaþjónustu eða um skipulag ferðamála eins og talað var um strax í haust, en ekki þetta pínulitla frv. sem við ræðum núna. Áður en ég tek að ræða frv. vil ég þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir góð orð í garð formanns Ferðamálaráðs, Kristínar Halldórsdóttur, sem er mér mjög vel kunnug, eins og menn vita, og er fyrrv. þm. Kvennalistans.
    Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi kynnt sér það gróskumikla starf sem hefur farið fram á vegum núverandi Ferðamálaráðs. Ég heyrði það áðan úr þessum ræðustóli að það virtist sem ráðherrann hefði ekki haft mikinn áhuga á starfi þess ráðs en ég geri þó ráð fyrir því að hann hafi fengið einhverjar upplýsingar um hvað þar færi fram. Ég geri ráð fyrir og vil reyndar spyrja hann að því hvort hann, ef frv. verður að lögum, sé tilbúinn til að stuðla að því að tryggja að það haldi áfram störfum á svipaðri braut og það hefur gert hingað til eða hvort að frv. sé flutt vegna þess að hann er ósáttur við þá stefnu sem það Ferðamálaráð sem nú situr hefur markað. Á undanförnum árum, þ.e. eftir að núv. Ferðamálaráð tók við, hefur mjög margt verið unnið til eflingar ferðaþjónustu þrátt fyrir mjög þrönga fjárhagsstöðu. Það hefur nú þegar verið gerð grein fyrir því, m.a. af hv. síðasta ræðumanni.
    Hæstv. ráðherra hverfur úr salnum, ég vona að það sé til mjög skamms tíma og hann muni heyra mál mitt. Mér þykir leitt að þurfa að krefjast þess að hann komi í salinn, ég hefði reiknað með að hann sæti hér meðan við fjöllum um þetta mál.
    Upplýsingamiðstöð ferðamála hefur verið efld og upplýsingaþjónusta aukin og bætt um allt land. Aukin áhersla hefur verið lögð á umhverfismál. Umhverfisfræðingur hefur ferðast um landið þvert og endilangt, kannað ástand fjölsóttra ferðamannastaða og reyndar einnig þeirra sem eru minna sóttir og gert tillögur um úrbætur sem síðan er unnið úr í samvinnu við heimafólk, m.a. sjálfboðaliðasamtök af ýmsu tagi. Þarna hefur náðst mikill árangur þrátt fyrir afar lítið ráðstöfunarfé og væri stórslys ef því starfi yrði ekki haldið áfram. Það er svo með umhverfismálin að þeim verður hið opinbera að sinna. Í sambandi við það vil ég taka fram að ég óttast það ef ekki er tekið mjög alvarlega á þeim málum muni ástandið á ferðamannastöðum verða enn verra en það er víða. Ég get ekki tekið undir það sem m.a. kom fram í máli hæstv. ráðherra þegar hann svaraði fsp. fyrr á þessu vori um að það yrði bara að koma af sjálfu sér. Það gerist ekki og það hlýtur hann að vita jafn vel og við sem höfum áhyggjur af þessum málum. Það er ekki hægt að vísa þeim til einkaaðila, það hefur sýnt sig því að einkaaðilar, sem telja sig ekki hafa beinan fjárhagslegan hagnað af slíku starfi, þ.e. að hagnaðurinn komi í vasann strax, virðast ekki sinna umhverfismálum nægjanlega vel.
    Þá hefur einnig verið unnið mikið starf á sviði landkynningar og markaðsmála og er margt á döfinni hjá Ferðamálaráði. Nú er í bígerð opnun ráðstefnumiðstöðvar og nýhafið er kynningarstarf í samvinnu við japanskt fyrirtæki enda viðbúið að Japanar og fleiri þjóðir úr þeim heimshluta komi hingað í æ ríkara mæli. Auk alls þessa er nú um þessar mundir verið að vinna að stefnumótun bæði í umhverfismálum og landkynningar- og markaðsmálum. Þess vegna er mjög forvitnilegt að heyra viðhorf ráðherrans til þessa starfs og hvort hann er sammála þeirri stefnu sem núverandi Ferðamálaráð hefur framfylgt. Mun hann sjá til þess að því starfi verði haldið áfram á sömu braut? Mér þykir mjög mikilvægt að því starfi, sem þarna hefur farið fram, verði ekki hætt. Það verður á einhvern hátt að sjá til þess að haldið verði áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið.
    Það kom fram í máli ráðherrans og reyndar kemur það fram í athugasemdum við lagafrumvarpið að nauðsynlegt sé að fullur trúnaður sé milli ráðherra og fulltrúa hans í ráðinu. Ég er fyllilega sammála því. Ég var hins vegar undrandi þegar hann sagði hér áðan í ræðu sinni að svipað vandamál hefði komið upp varðandi menntmrh. og stjórn Lánsjóðs ísl. námsmanna á sínum tíma. Ég man ekki betur en að það vandamál sem kom upp milli menntmrh. og stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna hefði verið nokkuð alvarlegt vandamál. Ráðherrann vildi hins vegar leggja áherslu á að engin vandamál hefðu komið upp í sambandi við Ferðamálaráð, þ.e. milli stjórnar Ferðamálaráðs og ráðherrans. En mér þótti mjög sérkennilegt að hann skyldi líkja þessu við það sem kom upp varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna og vona ég að það hafi verið mistök af hans hálfu að nefna það í þessu sambandi, því, eins og hann reyndar ítrekaði, ekki hafa komið upp nein vandamál og vona ég að það sé rétt.
    Tilganginn með þessum breytingum á lögunum sagði hann vera að gera það kleift að endurskoða núgildandi lög um ferðamál, að endurskoðun gæti ekki átt sér stað nema nýtt Ferðamálaráð verði skipað. Þetta þótti mér mjög einkennilegt. Er ekki meiningin að reyna að ná víðtækri samstöðu um skipan ferðamála? Er ekki nauðsynlegt að það komi fleiri að þeirri endurskoðun laganna en eingöngu trúnaðarmenn ráðherra og hans fulltrúar? Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé meiningin, ef nú fyrst á að fara að endurskoða þessi lög, að reynt verði að ná víðtækri samstöðu og reynt að fá fleiri aðila en einungis örfáa sérlega trúnaðarmenn ráðherrans til þess að gera þessa endurskoðun? Mér þótti slæmt, ef ég hef tekið rétt eftir, að þetta væri eini tilgangurinn með frv.
    Þann 1. júní 1990 skipaði þáv. menntmrh. nefnd sem í voru fulltrúar frá öllum þeim stjórnmálaflokkum sem þá áttu sæti á Alþingi og fleiri aðilum sem ekki höfðu bein tengsl við sérstakan stjórnmálaflokk. Nefndin samdi till. til þál. og frv. til laga. Í fylgiskjölum með till. til þál. um ferðamálastefnu, sem hér var lögð fram á 112. löggjafarþingi, kemur fram listi yfir alla þá aðila sem nefndin hafði samband og samráð við sem voru mjög margir. Fólk lét í ljós skoðun sína, það kom til viðtals við nefndina og sendi inn skriflegar athugasemdir og tillögur. Reynt var að taka tillit til eins margra athugasemda og mögulegt var. Auðvitað stönguðust sumar á og ekki var hægt að taka tillit til allra. Við reyndum að meta það, þessi hópur sem þarna var, hvernig best væri að koma þessu fyrir þannig að sem flestir gætu orðið sammála. Auðvitað er alltaf eitt og annað í svona starfi sem verður til þess að menn eru ósammála og allir geta svo sem fundið eitthvað sem þeir vildu hafa öðruvísi. En þetta varð samt niðurstaðan, eins og frumvarp sem lagt var fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi bar með sér. En hv. þm. Halldór Blöndal, núv. hæstv. samgrh., lagðist í víking gegn því frv., því miður.

    Ég hefði því talið eðlilegra að leggja fyrir þetta þing eða hið næsta, fyrst ekki er hægt að gera það nú, það er greinilega orðið of seint, heildarendurskoðun á lögunum en ekki eingöngu þennan litla bastarð sem hér er kominn. Ef ég tek efnislega á frumvarpinu sjálfu, þá get ég verið alveg sammála því sem fram kemur í því, að skipunartími fulltrúa ráðherra skuli vera takmarkaður við embættistíma viðkomandi ráðherra. Ég er nokkuð sammála þessu atriði þó að ég hefði talið eðlilegra að átt hefði að standa ,,fjögurra ára skipunartími`` eða jafnvel lengur. Fjögurra ára skipunartími hefði ég talið að væri eðlilegur þar sem ráðherrar að öðru jöfnu sitja í fjögur ár og ég get tekið undir það sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf. en hann taldi að tvö ár væru allt of stuttur tími. Hann hefur reynslu af setu í Ferðamálaráði og ég held að flestir hljóti að sjá að þetta er ákaflega stuttur tími og menn rétt að kynnast málunum og komast í tengsl við verkefnið þegar ætlast er til þess að farið sé að skipa á ný. En þetta gildir að sjálfsögðu um alla ráðsmenn, tvö ár í senn, ég get ekki séð annað af samhenginu. Fyrir utan það að ég tel að það skipti ekki máli, það sé allt of stutt að skipa þessa fimm ráðherraskipuðu til tveggja ára þó að hinir séu til fjögurra.
    Almennt tel ég og hef verið því fylgjandi að skipunartíminn sé í samræmi við embættistíma ráðherra og sé ég ekkert athugavert við það í sjálfu sér. En hv. 4. þm. Austurl. minnti á það áðan og um þetta atriði urðu nokkrar umræður á sínum tíma, þ.e. skipunartíma Ferðamálaráðs þegar við vorum að semja frv. sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi. Það var fyrst og fremst fulltrúi Sjálfstfl. sem lagðist eindregið gegn því að slíkt ákvæði yrði inni í frv. Ég þori ekki að fullyrða það en ef ég man rétt þá held ég að hann hafi verið sá eini sem lagðist sérstaklega gegn því. Við hin, sem vorum nokkuð mörg, höfðum skiptar skoðanir. Sum voru nokkuð ákveðin í að þetta þyrfti að vera með þessum hætti en aðrir höfðu ekki eins sterkar meiningar. Hann var sá eini sem ég man eftir að barðist gegn þessu ákvæði. Og þess vegna varð ég mjög undrandi þegar þetta frv. kom á borð mitt og ég sá að þetta var komið á þennan hátt. Ég er hins vegar ekki að segja að hv. þm. Friðjón Þórðarson hafi þar með verið að tala fyrir allan Sjálfstfl. þó að hann talaði mjög eindregið gegn þessu inni í nefndinni. Ég hélt að hann hefði einhvern meiri stuðning en bara sjálfan sig bak við það, en það má vel vera.
    En það breytir ekki því að ég styð þetta atriði og mér þykir það eðlilegt í sjálfu sér en ég tel óheppilegt að gera þetta einmitt núna. Og það er kannski minn ókunnugleiki en ég hefði einnig talið það mjög óheppilegt að breyta Ferðamálaráði svona seint, að vorlagi --- ef frv. yrði hugsanlega að lögum fyrir vorið --- þá erum við að breyta skipan Ferðamálaráðs, skipta um formann o.fl., rétt fyrir ferðamannatímann. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki óheppilegt að hans mati. Ég átta mig sjálf ekki á því, ég hef ekki sjálf unnið þarna og hef ekki sérstaka þekkingu á því. E.t.v. er Ferðamálaráð búið að skipuleggja sín störf fyrir sumarið og þá breytir þetta ekki neinu til eða frá. Ég vil samt gera þessa athugasemd þar sem ég velti því fyrir mér hvort þetta geti ekki verið svolítið óheppilegt.
    Ég ætla, virðulegur forseti, ekki að hafa mikið fleiri orð um frv. að svo komnu máli en vil þó spyrja. Ég hélt að ég hefði rétta útgáfu af núgildandi lögum. Ég bendi á að ég held að þar sé prentvilla, að það sé 24. gr. sem verið er að breyta í 2. gr., en ég sé ekki betur en það sé 24. gr. laganna sem fjallar um Ferðamálasjóð. Ég er þó ekki alveg viss. Ég gat ekki séð betur er þarna væri um prentvillu að ræða.
    Af því að ég hef haft fá orð um Ferðamálasjóð þá gilda auðvitað sömu rök um Ferðamálasjóð og um Ferðamálaráð, að þarna sé eðlilegt að skipunartíminn sé lengri en ekki í svo stuttan tíma. Mér sýnist kannski að sá hluti frv. sé eingöngu fluttur til þess að reyna að losna við núverandi formann Ferðamálasjóðs.