Skipulag ferðamála

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 16:08:00 (5394)


     Jón Helgason :
    Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur flutt frv. um breytingu á lögum um skipulag ferðamála sem felur í sér að heimild skuli vera fyrir ráðherra að skipta þar um yfirstjórn. Það verður að viðurkenna að það er að sjálfsögðu ekki gott ef harðar deilur eða mikill ágreiningur er milli húsbónda og hjúa. Því er þörf á að finna ráð til að breyta ef slíkt er fyrir hendi. Nú kom það reyndar ekki fram hjá hæstv. ráðherra hvort beinlínis væri um það að ræða í þessu tilviki. Ef það er ætlun hæstv. samgrh. að breyta mjög um stefnu í ferðamálum og taka upp gjörbreytta stefnu þá má segja að búast megi við að ágreiningur rísi milli þeirra sem hafa staðið að framkvæmd hinnar fyrri stefnu og hinna sem standa að þeirri nýju sem ætlunin er hjá ráðherra að taka upp. Það hefur hins vegar enn þá lítið komið fram hver hin nýja stefna hæstv. samgrh. er. Vafalaust er það ætlun hans að leggja áherslu á að hún muni leiða til betri árangurs í ferðaþjónustunni. Sérstaklega er það með tilliti til þeirrar ræðu sem núv. hæstv. ráðherra flutti á síðasta vetri í hv. efri deild um þessi mál. Hv. 4. þm. Austurl. vitnaði í nokkur atriði í henni. Að vísu sleppti hann þeim kafla þar sem núv. hæstv. ráðherra fjallaði um hlaup ráðherra úr stólum og milli herbergja, en það kemur málinu kannski ekki við og á ekki við nú. En vegna þeirra ummæla hans í ræðunni um að styðja þurfi betur við uppbyggingu hótela og gistihúsa, sérstaklega á landsbyggðinni, langar mig að beina einni spurningu til hæstv. ráðherra. Hún er á þá leið hvort hæstv. ráðherra muni fela hinni nýju stjórn Ferðamálasjóðs, sem hann mun væntanlega skipa að lokinni samþykkt frv., að beita 3. tölul. 23. gr. laganna um skipulag ferðamála sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Sjóðnum er heimilt að veita óafturkræf framlög til byggingar gistirýmis eða gerast eignaraðili að gistiaðstöðu þar sem rekstri er haldið uppi allt árið. Framlag þetta má aldrei nema meira en 30% af byggingarkostnaði.``
    Þetta ákvæði er búið að vera í lögum að mig minnir síðan 1978 eða þar um bil og hefur ekki verið notað hygg ég nema að fjármagni hafi sérstaklega verið veitt til þess á fjárlögum og þá fyrst og fremst til þeirra fyrirtækja sem hafa staðið mjög höllum fæti. Með tilliti til þeirrar bjartsýni sem virðist vera hjá núv. hæstv. ríkisstjórn á framtíð og möguleika ferðaþjónustunnar og hefur m.a. komið fram hjá hæstv. forsrh., mætti vænta þess að ríkisstjórnin legði áherslu á að styðja við nauðsynlegustu uppbyggingu og gera kleift að taka á móti fleiri ferðamönnum.

    Fyrr á þessu þingi flutti ég ásamt tveimur öðrum hv. þm. þáltill. um að gerð yrði úttekt á því hvar þörfin væri brýnust og vænti ég þess að hv. samgn. skili áliti sínu um það mál.
    Með tilliti til þess hvað rennur beint í ríkissjóð vegna virðisaukaskatts af byggingu hótela og eins vegna orða hæstv. ráðherra í fyrrnefndri ræðu, virðist það vera lágmark að hæstv. ráðherra beindi því til stjórnar Ferðamálasjóðs að nýta þessa heimild og leggja t.d. fram hlutafé sem nemur 10% af byggingarkostnaði og er þá ekki farið fram á mikið. Ég fullyrði að það gæti ráðið úrslitum um að hægt væri að ráðast í slíka framkvæmd og vildi því bæði spyrja hæstv. ráðherra hvort hann, í samræmi við viðhorf sín sem áður hafa komið fram, muni beita sér fyrir þessu og fara fram á það við nýja stjórn sjóðsins.
    Ég tel miklu æskilegra að þetta sé í formi hlutafjár en beinna framlaga með það í huga að hlutaféð yrði selt sem fyrst. Með tilliti til þeirra vona sem borin er til framtíðarmöguleika ferðaþjónustunnar virðist ekki þurfa að óttast að ekki verði markaður fyrir slík hlutabréf þegar rekstur er kominn í fullan gang í þeirri framkvæmd sem ráðist er í og hún fer að skila arði. Ég þori að fullyrða að ef rétt er staðið að slíkum framkvæmdum á það ekki að vera neitt áhættufjármagn en í ýmsum tilvikum ómetanleg lyftistöng.
    Það er að sjálfsögðu margt fleira sem kemur upp í hugann en þar sem tvö önnur mál eru á dagskrá sem varða þetta málefni skal ég ekki tefja tímann með miklu lengra máli.
    Í lokin vil ég bera fram aðra spurningu til hæstv. ráðherra: Af hverju er skipunartími Ferðamálaráðs alls styttur niður í tvö ár úr fjórum? Ég held að viss rök séu fyrir því sem komið hefur fram hjá fyrri ræðumönnum að gott er að það ríki nokkur festa í störfum svona stofnunar þó hún þurfi vissulega alltaf að vera reiðubúin að breyta málum til betri vegar ef slíkt kemur í ljós. En mér sýnist að það sé ekki endilega nauðsynlegt að stytta þennan tíma niður í tvö ár, þó að ráðherra fái heimild til þess að skipa trúnaðarmenn sína hvenær sem nýr ráðherra tekur við starfi, sem er ekki víst að verði nema á fjögurra ára fresti og kannski skemur. Um það skal ég ekkert spá.
Hins vegar er spurning hvort það eigi að vera í hvert skipti eða af hverju í hvert skipti sem ráðherraskipti verða. Nú minnumst við þess að fyrir stuttu skipti Sjálfstfl. um ráðherra innan ríkisstjórnar án þess að margir nýir kæmu inn. Hæstv. forsrh. hefur nú boðað að hann sé að hugleiða að gera slíkar tilfæringar fljótlega. Þá er það spurning af hverju, ef það er ráðherra sama flokks jafnvel sama forsrh., þarf að hafa heimild til þess að skipa nýja menn. Mér sýnist að ekki ættu að þurfa að verða árekstrar milli trúnaðarmanna og ráðherra í þeim tilfellum þar sem þeir eru úr sama flokki.
    Ég skal ekki tefja tímann lengur með því að ræða frekar þetta mál að sinni.