Ferðamiðlun

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 16:39:00 (5407)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég hygg að flestum sé enn í fersku minni það ástand sem varð þegar Ferðamiðstöðin Veröld komst í þrot og varð síðan gjaldþrota í byrjun þessa árs. Meðal þess sem hæst bar í þeirri umræðu sem þá varð í þjóðfélaginu var hagur og réttur viðskiptavina ferðaskrifstofunnar, hins almenna neytanda. Af því tilefni áttu m.a. fulltrúar ferðaskrifstofanna og fulltrúar Neytendasamtakanna fundi með samgrn.
    Fólk sem keypt hafði ferðir af Ferðamiðstöðinni Veröld var um skeið í óvissu um hvort það biði tjón af viðskiptum sínum og tapaði því fé sem það hafði innt af hendi eða skuldbundið sig til að greiða. Að auki var allstór hópur fólks á vegum ferðaskrifstofunnar staddur erlendis, á Kanaríeyjum, og ríkti óvissa í nokkra daga um hvort fólkið héldi þeirri gistingu sem það hafði greitt fyrir. Af þessu hlutust allnokkur óþægindi fyrir viðskiptavini Ferðamiðstöðvarinnar Veraldar. Ef ekki hefði komið til sérstakur velvilji Flugleiða hf. er hætt við að stór hópur fólks hefði tapað fjármunum sínum vegna gjaldþrots ferðaskrifstofunnar en Flugleiðir hf. tóku að sér að tryggja þeim farþegum sem þegar höfðu greitt eða gert skuldbindandi samninga við Veröld að þeir fengju án viðbótargjalds þær ferðir sem keyptar höfðu verið. Jafnframt tóku Flugleiðir hf. við þeim ferðum sem óseldar voru og buðu þær til sölu á eigin vegum.
    Þeir viðskiptavinir Ferðamiðstöðvarinnar Veraldar sem staddir voru á Kanaríeyjum þegar fyrirtækið varð gjaldþrota þurftu þó aldrei að óttast það að komast ekki heim á ný né heldur að þurfa að bera af heimferðinni sérstakan kostnað þrátt fyrir það að forsvarsmenn ferðaskrifstofunnar hafi sýnt slíkt ábyrgðarleysi að flytja fólkið utan með leiguflugi án þess að tryggt væri að það hefði örugga heimferð. Það stafar af því að sérhver ferðaskrifstofa þarf að sýna fram á að hún eigi eða hafi yfirlýsingu banka um að hann veiti henni aðgang að tryggingu sem nemur 6 millj. kr. Heimilt er að ganga í þennan tryggingarsjóð til þess að kosta heimflutning farþega sem annars stæðu uppi veglausir ef ferðaskrifstofan verður gjaldþrota. Þessi tryggingarsjóður er forsenda þess að ferðaskrifstofa fái starfsleyfi.
    Þegar flytja þurfti farþega ferðaskrifstofunnar heim frá Kanaríeyjum var gripið til þessa tryggingarsjóðs og heimflutningur kostaður af honum en Flugleiðir hf. önnuðust flutninginn að beiðni samgrn.
    Að frátöldum heimflutningskostnaði, eins og í framangreindu tilviki, er ekki heimilt að nota fé sjóðsins án undangengis dóms. Að því leyti er tryggingarsjóðurinn, eða það sem eftir kann að vera af honum eftir hugsanlegan heimflutning farþega í einhverju hliðstæðu tilviki, til þess að greiða úr honum kröfur sem gerðar eru í þrotabú ferðaskrifstofu.
    Það var eitt af fyrstu verkefnum mínum í embætti samgrh. að ræða við forsvarsmenn Félags ísl. ferðaskrifstofa um þessi efni. Þá þegar komu í ljós athugasemdir þeirra við þennan 6 millj. kr. tryggingarsjóð og áhyggjur af því að hann annars vegar íþyngdi sumum ferðaskrifstofum í rekstri þeirra og hins vegar væri sjóðurinn engan veginn nægilega stór til þess að tryggja neytendavernd gagnvart stærstu ferðaskrifstofunum. Í kjölfar þess réð ég Knút Óskarsson viðskiptafræðing til að yfirfara þau lög sem gilda um rekstur ferðaskrifstofa og gera tillögur um úrbætur en Knútur hefur langa reynslu af ferðaþjónustu og yfirgripsmikla þekkingu á rekstri ferðaskrifstofa. Niðurstaða hans vinnu af þessu máli er frv. það sem hér er mælt fyrir um ferðamiðlun.
    Tryggingarsjóður ferðaskrifstofa sem nú er 6 millj. kr. hefur ýmsa annmarka, bæði hvað snertir rekstur ferðaskrifstofa og ekki síður varðandi neytendavernd. Augljóslega er vafasamt að krefjast 6 millj. kr. tryggingarsjóðs af ferðaskrifstofu sem hefur lítil umsvif og selur eingöngu ferðir innan lands. Sjóðurinn hefur lítið eða ekkert gildi sem neytendavernd í slíku tilviki en íþyngir aftur á móti ferðaskrifstofunni vegna þeirrar fjárbindingar sem nauðsynleg er eða þess kostnaðar sem fylgir bankatryggingu að öðrum kosti.
    Jafnaugljóst er að 6 millj. kr. sjóður verður of lítill ef til þess kæmi að einhver stór ferðaskrifstofa yrði gjaldþrota á þeim tíma þegar flestir viðskiptavina hennar eru staddir í ferðum erlendis, jafnvel þúsundir manna sem farið hefðu í hópferðir með leiguflugi. Til samanburðar má geta þess að þegar fluttir voru heim farþegar Ferðamiðstöðvarinnar Veraldar í vetur, um 120 manns í einni flugferð, þurfti nær 2 / 3 hluta tryggingarsjóðs ferðaskrifstofunnar til að standa straum af kostnaðinum við heimflutninginn.
    Þá er sá galli við tryggingarsjóð ferðaskrifstofa að hann mismunar fyrirtækjum. Það tíðkast ekki almennt að þær kröfur séu gerðar til fyrirtækja að þau leggi fram tryggingarupphæð fyrir rekstri sínum sem síðan er hægt að ganga í til greiðslu almennra krafna verði fyrirtækið gjaldþrota. Að þessu leyti er tryggingarsjóðurinn hindrun í rekstri ferðaskrifstofa og ekki til þess fallinn að örva fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar sem nú er ein mikilvægasta gjaldeyrisaflandi atvinnugrein okkar Íslendinga. Þá er tryggingarsjóðurinn vissulega einnig hindrun í rekstri lítilla ferðaskrifstofa á innanlandsmarkaði.
    Til þess að bregðast við og breyta til betri vegar, jafnt fyrir neytendur sem og seljendur þjónustunnar, þarf því að koma til neytendavernd sem er í samræmi við umfang rekstrarins og þann markað sem ferðaskrifstofa vinnur á um leið og horfið er frá íþyngingu á rekstrinum sem felst í að ferðaskrifstofan haldi úti sjóði sem ætlaður er öðrum þræði til að greiða kröfur vegna gjaldþrots. Í frv. er brugðist við þessum vandamálum eins og nánar er skýrt í grg.
    Sem betur fer hafa gjaldþrot ferðaskrifstofa ekki verið mörg hér á landi. Minnist ég reyndar aðeins tveggja síðustu fimm ár. Annars vegar gjaldþrots Ferðamiðstöðvarinnar Veraldar í vetur og hins vegar Ferðaskrifstofunnar Terru fyrir um fimm árum. Það breytir ekki því að við þurfum að vera við því búin að slíkt geti gerst hvenær sem er og hver sem í hlut á. Verði ferðaskrifstofa gjaldþrota er afar mikilvægt að tjón verði sem minnst. Ætla verður að fyrirtæki sem viðskipti eiga við ferðaskrifstofu hafi þekkingu, reynslu og fjárhagslega burði til að taka áhættu að yfirlögðu ráði sem því fylgir að selja vöru eða þjónustu gegn gjaldfresti og geti því sjálf verið einfær um að bera sína áhættu af viðskiptunum án þess að til komi sérstakur tryggingarsjóður sem þau geti gengið að ef illa fer. Öðru máli gegnir um hinn almenna neytanda sem jafnvel kaupir ferð af ferðaskrifstofu aðeins einu sinni á ævinni. Ekki er með nokkrum rétti hægt að ætlast til að hann geti metið hvort hann eigi á hættu að tapa fé sínu eða ferð hans rofni áður en henni ætti að ljúka. Að auki er oft svo að þegar almennir borgarar kaupa slíkar ferðir leggja þeir mikið undir og hafa lagt í kostnað sem nemur stórum hluta af ráðstöfunartekjum. Eðlilegt verður að teljast að almennum viðskiptavinum ferðaskrifstofa sé tryggð lágmarksvernd gegn fjárhagstjóni og óþægindum vegna ferðafalls sem þeir hafa ekki forsendur til að sjá fyrir og tryggingarsjóður ferðaskrifstofa verði við það miðaður að hann tryggi neytendavernd og sé hvað stærð varðar í samræmi við umfang reksturs ferðaskrifstofunnar.
    Í frv. er gert ráð fyrir að nánari reglur verði settar í reglugerð og hefst vinna við samningu þeirra reglna þegar ljóst verður að frv. verður að lögum.
    Við þá vinnu verður haft samráð við hagsmunaaðila, bæði fulltrúa ferðaþjónustu og neytenda. Jafnframt verður leitað til sérfræðinga um hugsanlegt hlutverk banka, tryggingafélaga og eftir atvikum annarra sem komið geta að málinu þegar slík neytendatrygging er

veitt. Samningu reglugerðar um þessi mál verður hraðað svo sem kostur er.
    Þetta frv. felur í sér löggjöf um almennar ferðaskrifstofur sem ekki verður hluti af lögum um Ferðamálaráð Íslands. Ferðamálaráð Íslands er stofnun skipuð af stjórnvöldum og starfar í umboði stjórnvalda. Því er talið rétt að lög um frjálsa starfsemi einstaklinga og fyrirtækja að rekstri ferðaskrifstofa sé ekki hluti af þeirri löggjöf.
    Það er nýmæli í frv. að fyrirtækjum á því sviði sem frv. fjallar um, sem kallast samheitinu ferðamiðlun, er síðan skipt í tvo flokka eftir því hvort þau starfa einungis á innlendum markaði eða hvort þau selja jafnframt farseðla til útlanda. Þessi skipting er gerð í þeim tilgangi að unnt sé að gera mismunandi kröfur um tryggingar fyrir neytendavernd eins og nánar er skýrt hér á eftir og fyrirtækjum sem einungis starfa innan lands sé ekki íþyngt með sams konar kröfum um tryggingar og hinum er selja ferðir til útlanda.
    Í frv. er brugðist við alþjóðlegri þróun undangenginna missira og þeirri þróun sem fyrirsjáanleg er á vettvangi Evrópuþjóða á þann veg að gert er ráð fyrir að erlendir aðilar eigi þess kost að eiga og reka ferðaskrifstofur á Íslandi að uppfylltum þeim almennu skilyrðum sem kveðið er á um í 2., 3. og 4. gr. Að því leyti skapast skilyrði til jafnræðis með íslenskum og erlendum fyrirtækjum í greininni hvað varðar starfsemi utan heimalands.
    Önnur meginbreyting í frv. varðar neytendavernd samkvæmt 4. gr. Þar er gert ráð fyrir að ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjandi eða samtök slíkra aðila skuli leggja fram tryggingu fyrir neytendavernd í samræmi við reglur sem samgrh. setur. Hér er opnuð leið fyrir fyrirtæki í þessari grein að sameinast um tryggingu, ef þeim sýnist svo, samkvæmt reglunum. Jafnframt er horfið frá því að trygging sú sem sett verður sé ætluð til að greiða aðrar skuldbindingar en þær sem greiða þarf til að tryggja hagsmuni neytenda er við ferðamiðlun skipta. Í athugasemdum við 4. gr. er nánar skýrt með hvaða hætti þessi neytendavernd er ætluð. Um upphæð tryggingarfjár verður kveðið á í reglugerð og er gefinn kostur á að tryggingarupphæð einstakra fyrirtækja sé mishá eftir því hver umsvif ferðamiðlunarinnar eru hverju sinni og eftir því hvort ferðamiðlunin starfar á innanlandsmarkaði einvörðungu eða selur farseðla til útlanda.
     Með frv. er löggjöfin um rekstur ferðaskrifstofa einfölduð hvað varðar leyfisveitingar og eftirlit með að rekstur ferðamiðlunar sé í samræmi við lög og reglur og í ríkara mæli sett í hendur Ferðamálaráðs Íslands sem gera skal tillögu um afturköllun leyfa ef rekstur fyrirtækis innan greinarinnar er talinn skaða hagsmuni íslenskrar ferðaþjónustu. Með því móti er ábyrgð í ríkara mæli sett á herðar aðila innan greinarinnar á að hvert fyrirtæki starfi innan ramma laga og reglna en úrskurðarvald er hjá ráðherra.
    Í 1. gr. er tekið mið af íslenskum aðstæðum varðandi tvenns konar flokkun á ferðamiðlun. Annars vegar er um að ræða almenna ferðaskrifstofu er sinnir nánast öllu í miðlun þjónustu til ferðamanna innanlands og utan. Hins vegar er um að ræða ferðaskipuleggjanda er veitir nánast eingöngu þjónustu varðandi ferðalög innan lands. Til fyrri flokksins teljast flestar stærri ferðaskrifstofur landsins og aðrir þeir aðilar er selja og skipuleggja ferðir til útlanda. Til hins síðari teljast þeir aðilar er annast móttöku erlendra ferðamanna og skipuleggja fyrir þá ferðir innan lands og aðra ferðaþjónustu. Til seinni flokksins teljast einnig þeir sem skipuleggja eða selja ferðir og aðra þjónustu innan lands til innlendra ferðamanna. Gert er ráð fyrir að ferðaskipuleggjandi geti í tengslum við móttöku erlendra ferðamanna skipulagt og selt ferðir til nágrannalanda, svo sem Grænlands og Færeyja.
     Í gildandi lögum er þessi greinarmunur ekki gerður á ferðamiðlun en mikill munur er á starfsemi ferðamiðlunar eftir því hvort hún selur ferðir til útlanda eða ekki. Einnig ber að gera aðrar og meiri kröfur varðandi neytandavernd til fyrirtækja sem skipuleggja ferðir til útlanda og selja þær á neytendamarkaði innanlands.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð en legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.