Ferðamiðlun

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 16:52:00 (5408)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það fer svo að þetta verður eins konar framhaldsumræða því

hæstv. ráðherra hefur valið þann kost að klippa sundur löggjöf um ferðaþjónustu og flytja sem sérlög frv. til laga um ferðamiðlun sem var hluti af gildandi löggjöf um skipulag ferðamála. Einn kafli fjallaði þar um almennar ferðaskrifstofur og er það sem við höfum til samanburðar við gildandi lög. Rökin fyrir því finnst mér ekki sannfærandi en þau er að finna í upphafi greinargerðar frv. Ég tel að það miður að farið er að búta niður með þessum hætti lög um ferðaþjónustu. Það var góður stuðningur við það sjónarmið, þegar undirbúið var frv. sem lagt var fram á síðasta þingi, að sameina frekar en sundra í þessum efnum. Þá gerðist það að löggjöf um veitinga- og gististaði var tekin inn sem einn kafli í lög um ferðaþjónustu. Þetta var gert að höfðu fullu samráði við forustumenn á sviði veitinga- og gistihúsareksturs og hagsmunasamtaka þeirra sem féllust á þau rök að þetta væri skynsamleg stefna. Hér hefur annað orðið ofan á og því fáum við frv. í pörtum. Rökin fyrir hinu eru auðvitað þau að það er æskilegt til þess að fá betri yfirsýn yfir þá löggjöf sem í gildi er hverju sinni og knýr stjórnvöld til að taka heildstætt frekar en í pörtum á málefnum atvinnugreinarinnar sem er eðli máls samkvæmt afar sundurleit. Það er kannski enginn atvinnurekstur í landinu sem er samsettur af jafnólíkum aðilum, mismunandi stórum og öflugum, allt frá stórfyrirtækjum á okkar vísu, eins og Flugleiðum, niður í smárekstur einstakra sérleyfishafa og gistihúsarekendur svo dæmi séu tekin. Þetta er því afar fjölbreytilegt og þeim mun meiri nauðsyn er á að stilla saman strengi þótt löggjöfin sé þannig upp byggð að hún lúti frekar að því að yfirsýn fáist og sé stuðningur við þá aðila sem þurfa í rauninni að standa saman, ef á að takast að móta hér öfluga ferðamálastefnu. Það er auðvitað ekki málefni opinberra aðila nema að takmörkuðu leyti heldur hagsmunaaðilanna, þeim er einmitt stuðningur að því að löggjöfin sé heildstæð og þar sé horft til heildarinnar, til atvinnugreinarinnar í heild, en ekki með því bútasjónarmiði sem endurspeglast í þessum tillöguflutningi.
    Hæstv. ráðherra, sem enn á ný er horfinn af vettvangi, flutti framsöguræðu sem var dálítið óvenjuleg. Hann byrjaði á því að víkja að tilteknu gjaldþroti og erfiðleikum sem viðskiptaaðilar tiltekinnar ferðaskrifstofu höfðu orðið fyrir vegna þessa gjaldþrots og tengdi það síðan þeirri tillögu um það sem hér er kallað neytendavernd í frv. Ég er ekki að gagnrýna út af fyrir sig þessa nálgun en mér finnst kannski skipta meira máli það skipulag sem hér er verið að innleiða með svolítið breyttum hætti frá því sem er í gildandi löggjöf. En auðvitað er neytendaverndin, sem þörf er á að styrkja á þessu sviði, gildur þáttur af því sem opinberir aðilar þurfa að hlutast til um á sviði ferðaþjónustu og ætla ég síst að mæla gegn því.
    Ég tel að ýmsum spurningum sé ósvarað sem varða frv. og ég vil leyfa mér að koma hér að nokkrum atriðum. Þá vil ég fyrst koma að því sem að mínu mati skiptir mestu máli varðandi þennan þátt ferðaþjónustunnar en snertir auðvitað rekstur ferðaþjónustu almennt. Það er aðgengi útlendinga að þessum rekstri. Möguleika þeirra til þess að taka yfir rekstur í ferðaþjónustu hér á landi er verið að auðvelda talsvert með frv., ef að lögum verður, frá því sem nú er og eru þó ekki mjög háar girðingar sem fyrirbyggja eða hindra og draga úr möguleikum erlendra fyrirtækja og lögaðila til þess að koma inn í rekstur í íslenskri ferðaþjónustu.
    Þetta er rökstutt og kemur fram í 2. gr. frv. Þar stendur: ,,Ábyrgðaraðili ferðamiðlunar samkvæmt 1. gr. þarf að uppfylla eftirtalin skilyrði til þess að stunda starfsemi samkvæmt lögum þessum:
    a. vera fjárráða,
    b. hafa forræði yfir búi sínu,
    c. eiga varnarþing á Íslandi.``
    Ekki er lengur krafist búsetu í landinu fyrir þá sem standa fyrir rekstri í ferðamennsku eins og er í 15. gr. gildandi laga. Þar eru ákvæði um fjárræði og forræði í búi en þar er einnig krafa um búsetu á Íslandi. Þar segir einnig: ,,Enn fremur skal einn eða fleiri af starfsmönnum ferðaskrifstofunnar á hverjum tíma hafa að baki staðgóða reynslu við almenn ferðaskrifstofustörf.`` --- Þau tengjast þá auðvitað búsetunni. Einnig segir: ,,Leyfi má veita félagi eða fyrirtæki, enda sé stjórnin innlend og aðsetur hér á landi, og gilda um

slíka ferðaskrifstofu sömu ákvæði og að ofan greinir.``
    Þetta er sem sagt afnumið og allar hindranir varðandi möguleika erlendra aðila fjarlægðar. Eina skilyrðið sem eftir stendur er að hafa varnarþing á Íslandi sem er í raun mjög einfalt fyrirkomulagsatriði að því er ég best veit að geta haft varnarþing fyrir ábyrgðaraðila hérlendis. Búsetuskilyrðið er fellt niður og dvöl í landinu.
    Mér sýnist að hér sé verið að ganga lengra að þessu leyti en nauðsyn krefur ef ráðherrann vildi reyna að koma við hindrunum og betra aðgengi íslenskra aðila að þessu leyti en erlendra. Það er ljóst að ef ráðherrann er að laga löggjöfina að EES-samningi þurfum við að fá um það upplýsingar, þ.e. hvort hann sé að því í raun og veru, og um leið hvort það sé stefna hans að opna þetta eins og frekast má verða og taka út hindranir eins og varðandi búsetuna og búsetukröfuna. Meginatriði Evrópuréttarins er um það að ekki megi mismuna eftir þjóðerni. Það er það sem á að gilda og íslensk stjórnvöld með utanrrh. í fararbroddi hafa fallist á það í samningi, sem utanrrh. stendur að um EES, að ekki megi mismuna eftir þjóðerni í allri Vestur-Evrópu samkvæmt þessari hugmynd að EES-samningi.
    Hins vegar hefur í ýmsum tilvikum verið sett krafa um búsetu og sú krafa var í frv. því hún mismunar út af fyrir sig ekki eftir þjóðerni en setur það skilyrði að útlendingur hafi haft búsetu í landinu um eitthvert skeið og að stjórnarmenn hafi hér búsetu. Ég spyr ráðherrann: Er þetta hans einlægur vilji og stefna að gera það sem allra auðveldast fyrir erlenda aðila að koma inn í ferðaskrifstofurekstur, ná hér tökum og stjórn á þessum málum? Ég fullyrði að engin atvinnugrein hjá okkur er jafnberskjölduð í raun og jafnauðvelt og freistandi fyrir útlendinga að yfirtaka hér í mjög ríkum mæli en einmitt ferðaþjónustan og ýta Íslendingum til hliðar og haga rekstri atvinnugreinarinnar eftir eigin höfði og hagsmunum. Auðvitað með það í huga að fleyta rjómann af toppnum, af þeim tiltölulega stutta ferðamannatíma sem við búum við og haga sinni starfsemi eftir því. Þeir hafa markaðinn, þeir ráða yfir verulegum þáttum á markaðinum, þ.e. að því er erlenda ferðamenn varðar og geta með því haft mikil áhrif. Með því að yfirtaka eða ná tökum á þjónustufyrirtækjum innan lands sem hér eru starfrækt er mjög auðvelt fyrir þá að hirða afraksturinn og stýra þróun þessarar atvinnugreinar. En takið eftir rökstuðningnum, þessu feimnislega orðalagi sem hér er að finna í athugasemdum með frv. Takið eftir hvernig þetta er orðað: ,,Í frumvarpinu er brugðist við alþjóðlegri þróun undangenginna missira og þeirri þróun sem fyrirsjáanleg er á vettvangi Evrópuþjóða á þann veg, að gert er ráð fyrir að erlendir aðilar eigi þess kost að eiga og reka ferðaskrifstofur á Íslandi að uppfylltum þeim almennu skilyrðum sem kveðið er á um í 2., 3. og 4. gr. Að því leyti skapast skilyrði til jafnræðis með íslenskum og erlendum fyrirtækjum í greininni hvað varðar starfsemi utan heimalands.``
    Er það okkar kappsmál að skapa þetta jafnræði? Eru það okkar hagsmunir? Hvað segja þingmenn utan af landi sem átta sig á því hvaða gildi uppbygging ferðaþjónustunnar og þátttaka fólks um allt land hefur í þessari atvinnugrein? Halda menn að það verði farið að taka tillit til þeirra af þeim sem munu ná yfirtökunum í íslenskri ferðaþjónustu sem verður þá ekki íslensk nema að nafninu til ef gengið verður að þessum samningi og sú stefna verður ofan á sem hæstv. ráðherra er að læða hér inn? Ekki undir nafni EES, því hann nefnir ekki þann samning, heldur býr hann þetta í gervi felumyndar. Talar um að verið sé að bregðast við alþjóðlegri þróun undangenginna missira. Til hvers er hann að vísa?
    Ég get vel skilið það ef ráðherrann er að laga löggjöfina að Evrópurétti. En ég spyr: Er hann að því? Er það það sem um er að ræða? Evrópa er fleira en Evrópubandalagið og Evrópa er fleira en EES-svæðið, það er stærra. Hvers konar rósamál er þetta? Það er auðvitað EES-samningurinn sem væntanlega er verið að vísa til. Er það þá sjónarmið ráðherra að það eigi að hafa þetta sem allra opnast og hindrunarlaust? Er það þá hans sjónarmið? Ég óska svara. Hvaða jafnræði vill hann tryggja?
    Ég ítreka að fátt í íslenskum atvinnurekstri er jafnvarnarlaust að þessu leyti og ferðaþjónustan og það er fátt sem verður eins harkalega fyrir barðinu á því ef útlendingar ná hér stjórnun þessum rekstri vegna þess að ef við reynum að taka þetta því taki að landið allt sé þátttakandi, sem er auðvitað æskilegt út frá dreifingu ferðamanna, þátttöku

almennings um allt land í starfseminni og út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Það er ekki það sem verður horft til af þeim erlendum aðilum sem hér munu fleyta rjómann ofan af þessum rekstri á komandi árum ef farið verður að þessum tillögum.
    Síðan ætla ég að koma að upphafinu. Hæstv. ráðherra leggur frv. fram eins og í því séu uppfinningar sem ráðgjafar hans, vanir ferðaþjónustu allt frá barnæsku, hafi fundið upp. Það er raunar ekki því lunginn í frv. er klipptur út úr frv. sem hæstv. ráðherra stöðvaði í fyrra með smávegis tilfærslum á milli greina og miklu órökrænni uppbyggingu frv. en þá lá fyrir. Ýmsu er þar sleppt sem ég held að sú þingnefnd, hv. samgn., sem væntanlega fær þetta til meðferðar, ætti að líta á.
    Hæstv. ráðherra setur þetta fram varðandi 1. gr. þannig að hann sé að skipta upp ferðamiðlun sem er sama hugtak og tekið var upp í frv., sem við ræddum í fyrra, sem samheiti, að skipta því í almenna ferðaskrifstofu, hann kýs að kalla það því nafni, og ferðaskipuleggjendur. Hugtakið ferðaskipuleggjandi þekkjum við frá fyrra frv. En hann dregur mörkin með dálítið sérkennilegum hætti. Hann undirstrikar varðandi almenna ferðaskrifstofu að hún skipuleggi ,,ferðir hópa eða einstaklinga í leigu- eða áætlunarferðum fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.`` Af hverju er ástæða til þess, hæstv. ráðherra, --- virðulegi forseti, ég hef fullan skilning á því að ráðherra þurfi að sinna embættisstörfum hér en ég held að ég verði að doka við á meðan því ég er að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra.
    Virðulegi foreti. Það hlé sem ég geri á ræðu minni er vegna þess að ég held að ég hafi ekki athygli ráðherrans. ( Forseti: Hlýðir hæstv. samgrh. á mál ræðumanns?) ( Landbrh.: Það er ljúfur söngur í eyrum mínum.) Telur forseti þetta fullnægjandi svar? ( Forseti: Er svarið ekki fullnægjandi fyrir hv. ræðumann?) Mér fannst það ekki vera þannig fram borið né heldur ráðherrann í þeim stellingum að hann sé í rauninni í alvöru að tala við þingið um þetta hugðarefni sitt sem hann leggur hér fyrir. Ég hlýt að finna að því að verið sé að gera þingsalinn að vettvangi fyrir embættisverk á meðan á umræðum stendur. En ég er að spyrja hæstv. ráðherra að því varðandi 1. gr. frv. hvers vegna hann dragi svo skarpar línur milli töluliðar eitt og tvö, almennra ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda, út frá því hvort um er að ræða þjónustu er varðar innlenda og erlenda ferðamenn. Í fyrstu efnisgreininni sé ég enga þörf á því ef það eru innlendir og erlendir ferðamenn að vera að tíunda það í lagatexta að svo sé, því hverjir eru þá undanskildir? Tunglfarar eða einhverjar verur utan úr geimnum?
    Í öðru lagi er varðandi ferðaskipuleggjendur tekið fram sérstaklega að ferðaskipuleggjandi annist ekki almenna þjónustu og farmiðasölu varðandi ferðalög til útlanda. Ég skil það svo að verið sé að leggja blátt bann við því. Það er alveg augljóst með þessum texta. Það er þá væntanlega stefna en mér finnst aðgreining með þessum hætti ekki fyllilega rökheld og bið um að nánar verði litið á þetta.
    Þá vil ég vekja athygli á því, virðulegur forseti, að tillögur lágu fyrir á síðasta þingi um það að fyrir utan þessa flokkun í ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur yrðu einnig teknar upp skilgreiningar eins og ,,ferðaumboðssali``, sem þriðja skilgreining í ferðamiðlun og það er þannig orðað: ,,Ferðaumboðssali er fyrirtæki, félag eða einstaklingur sem annast sölu farmiða og ferðaþjónustu í umboði löggiltrar ferðaskrifstofu eða samgöngufyrirtækis og á ábyrgð þess.``
    Í fjórða lagi var í frv. sem lá fyrir þinginu í fyrra tekinn upp þáttur í ferðamiðlun, upplýsinga- og bókunarkerfi og orðað þannig: ,,Upplýsinga- og bókunarkerfi merkir í lögum þessum fyrirtæki sem á eða rekur tölvukerfi er veitir milliliðum og kaupendum ferðaþjónustu upplýsingar um framboð seljenda og/eða tekur við bókunum.``
    Þarna er um mikla starfsemi að ræða og ég fullyrði að það að skilgreina þetta og setja á þetta ákveðnar kvaðir varði neytendavernd, þ.e. viðskiptaaðilana í ferðaþjónustu og ekki síst í sambandi við bókunarkerfi að tryggt sé að ekki sé um mismunun að ræða. Það voru rökin fyrir því, hæstv. ráðherra, að ástæða var talin til þess að taka þessa skilgreiningu upp sem einn þátt ferðamiðlunar.
    Þá vildi ég aðeins koma að efni 3. gr. frv. Þar er seinni málsgreinin orðuð þannig:
        ,,Samgönguráðherra getur að tillögu stjórnar Ferðamálaráðs afturkallað leyfi

til starfrækslu ferðamiðlunar ef stjórn Ferðamálaráðs Íslands telur að viðkomandi starfsemi skaði hagsmuni íslenskrar ferðaþjónustu.``
    Þarna er ráðherra að opna fyrir það að stjórn Ferðamálaráðs komi tillögum til hans sem hann taki afstöðu til út frá því hvort viðkomandi starfsemi skaði hagsmuni íslenskrar ferðaþjónustu. Mér er nokkuð til efs að innleiddum EB-rétti hérlendis sé mikið hald í ákvæðum af þessum toga og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi íhugað það í því samhengi. Hvað er í raun íslensk ferðaþjónusta í þessu samhengi? Hvað er það sem verið er að vísa til í þessum frumvarpstexta?
    Í 4. gr. er að finna ákvæði um tryggingar og hugtakið neytendavernd kemur þar fram og það er mjög hliðstætt því sem lagt var til á síðasta þingi af þáv. samgrh. að upp yrði tekin trygging fyrir neytendavernd í samræmi við reglur sem samgrh. setur. Að vísu var þar tengd trygging fyrir rekstraröryggi og neytendavernd en hugtakið rekstraröryggi hefur verið tekið út úr þessum þætti. Það kunna að vera rök fyrir því að svo er gert, en ég vek athygli á því að það hefur verið fellt niður.
    Í gildandi lögum um ferðaþjónustu er sérstakt ákvæði sem varðar hópferðir og rekstur á sérleyfum og þetta hefur verið tekið inn í skilgreiningu 1. gr. um almenna ferðaskrifstofu eins og þar kemur fram, seinni hluti í 1. gr. 1. tölul. vísar einmitt til skipulagningar hópferða eða einstaklinga í leigu eða áætlunarferðum og þar með er búið að fella þá starfsemi undir hugtakið almenn ferðaskrifstofa.
    Ég veit ekki hvort skynsamlegt er að öllu leyti að setja rekstur af þessu tagi undir hugtakið almenn ferðaþjónusta en ég vil út af fyrir sig ekki vísa því neitt frá að ekki betur athuguðu máli.
    Þetta eru nokkrar athugasemdir sem ég leyfi mér að gera við þetta frv. og í rauninni er þar þyngst á metunum að mínu mati það sem snýr að aðgengi útlendinga í þennan rekstur og þá galopnun sem hér er innleidd án þess þó að tekið sé fram inn í það samhengi sem við erum að ganga ef við ætlum að lögleiða EB-rétt hér og gerast aðilar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Ég bið ráðherrann að tala skýrar í þessum efnum en hann gerir í framsögu og fram kemur í greinargerð.