Ferðamiðlun

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 17:18:00 (5409)

    Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir frv. til laga um ferðamiðlun sem nær yfir það sem við höfum kallað ferðaskrifstofuþjónustu og kannski eitthvað fleira. Á undan hefur nokkuð verið rakið það sem er jákvætt við frv., eins og aukin neytendavernd, en mér finnst að nokkur ákvæði mættu vera skýrari í frv. Í 1. gr. er starfseminni skipt í tvennt, almennar ferðaskrifstofur og svo er ferðaskipuleggjandi. Í niðurlagi töluliðarins um ferðaskipuleggjanda er sagt, með leyfi forseta: ,,Hann annast ekki almenna þjónustu og farmiðasölu varðandi ferðalög til útlanda.``
    Hins vegar er síðan í athugasemd með þessari grein sagt að hann geti selt ferðir til nágrannalanda og svo sem Grænlands og Færeyja.
    Mér sýnist að þetta geti varla staðið svona afdráttarlaust í öðrum töluliðnum og ætlast til þess að framfylgja því eins og gert er ráð fyrir í greinargerðinni þar sem meira að segja er loðnari afmörkun en aðeins þessi tvö lönd. Mér fyndist að eðlilegt væri að setja þarna hreinlega: ,,Hann annast ekki almenna þjónustu og farmiðasölu varðandi ferðalög til útlanda nema Grænlands og Færeyja``, sem getur verið liður í Íslandsferð og er auðvitað æskilegt að tengja það sem mest, bæði fyrir okkur og þessi grannlönd okkar þannig að ég hef síður en svo neitt við það að athuga, en mér finnst að þetta verði þá að vera skýrara í greinni.
    Í 4. gr. er rætt um neytendaverndina og þar er sagt að þessu eigi öllu að skipa í samræmi við reglur sem samgrh. setur en það er alveg skilið eftir opið hvernig þær verði.
    Hins vegar er imprað á nýrri leið í greinargerðinni, þ.e. að hafa sameiginlegan ábyrgðarsjóð til að veita nauðsynlega tryggingu sem hæstv. ráðherra ræddi um og ég held að geti verið jákvætt og æskilegt. Bæði getur það verið aukin vernd fyrir neytendur og einnig þá betra að það séu aðilar í ferðaþjónustunni sem fylgist þar með. Þeir virðist gera

það betur en ráðuneytið eins og kom glöggt fram í vetur í því máli sem hæstv. ráðherra gerði hér sérstaklega að umræðuefni, þ.e. gjaldþrot Ferðamiðstöðvarinnar Veraldar þar sem samgrn. sagði alveg fram á síðasta dag að allt væri í lagi þó að öðrum sem sinna ferðaþjónustu væri ljóst að hverju stefndi, því miður.
    En ég held að æskilegt væri að hafa einhverjar ábendingar í 4. gr. að þessa leið skuli fara eða megi fara af því að hún er nýmæli frekar en að hafa þetta algjörlega opið fyrir reglugerð ráðherra.
    Þá vildi ég víkja sérstaklega að 2. gr. Hv. 4. þm. Austurl. drap á það hvað þarna virtist vera alveg opnað fyrir útlendinga. Ég vil taka undir með honum að ég tel að æskilegt sé að við reynum að setja upp þær girðingar sem frekast er unnt að hafa til þess að tryggja stöðu okkar innlendu fyrirtækja. Ég held að það sé tvímælalaust æskilegast fyrir íslenska ferðaþjónustu í heild. Að sjálfsögðu þarf að skoða vel hvað þar er hægt að ganga langt en ég vil taka undir með hv. 4. þm. Austurl. því að það er ekki aðeins æskilegt fyrir ferðaþjónustuna, ég held að það sé æskilegt líka fyrir þjóðarbúið. Benda má á að líklega yrði þróunin sú til að byrja með að umboðsskrifstofur kæmu upp sem hefðu sáralitla veltu, þjónustan færi fyrst og fremst fram erlendis þannig að út úr þeirri þjónustu hefði íslenska ríkið a.m.k. sáralítið. Þannig eru áreiðanlega mörg önnur atriði sem hægt er að benda á auk þeirra sem hv. 4. þm. Austurl. gerði.
    Annað atriði í sambandi við skilyrði fyrir rekstri ferðmiðlunar sýnist mér að þurfi að taka til alvarlegrar íhugunar, þ.e. hvort ekki ætti að bæta inn skilyrði þarna t.d. í d-lið: sé ekki allsráðandi í öðrum þáttum ferðaþjónustu.
    Við vitum að staðan hjá okkur er þannig að fyrst og fremst eitt flugfélag ræður öllum ferðum milli Íslands og annarra landa. Að sjálfsögðu er ákaflega mikilvægt fyrir okkur að hafa öflugt flugfélag sem tryggir slíka samgöngur, enda hefur íslenska ríkið hlaupið undir bagga með þessu fyrirtæki til að gera því kleift að sinna þessu mikilvæga verkefni. En á sama tíma og það hefur algjöra lykilaðstöðu held ég að reynslan hafi gefið tilefni til að setja fram slíkan varnagla gegn því að þetta fyrirtæki geti orðið allsráðandi á öðrum sviðum. Aðstaða þeirra í flutningum skapar svo gífurlega sterka aðstöðu fyrir ferðaþjónustuna í heild að það er erfitt fyrir aðra að keppa þar við. Sumir segja jafnvel að ef Flugleiðir vilji hafa einhverja ákveðna stefnu þá sé erfitt fyrir Ferðamálaráð að ráða við það og rísa þar alveg á móti. En þó eru umræðurnar sem fram fóru um ferðaskrifstofurnar í vetur mér efst í huga, en þar kom fram í fréttum frá Flugleiðum að þeir ætluðu að hefja mikla sókn á ferðaskrifstofumarkaði. M.a. með því, eins og stendur í fyrirsögn í Morgunblaðinu, með leyfi forseta: ,,Allt að þriðjungs verðlækkun í sumar`` er í fyrirsögn. ,,Félagið hyggst fara í beina samkeppni um sólarlandaferðir. Flugleiðir hafa ákveðið að lækka verð fyrir flug og bílferðir til ýmissa staða í Evrópu um 25--30% miðað við ferð sem stendur í viku.``
    Að sjálfsögðu getur ferðaskrifstofa sem er í eigu flugfélags boðið slíkt með því að fá afslátt hjá flugfélagi. Í fréttum kom líka fram að á undanförnum árum hefur orðið tap af þessari ferðaskrifstofu sem nemur 191 millj. kr. og það hafa Flugleiðir borgað með þessari ferðaskrifstofuþjónustu.
    Ég held að það væri ákaflega slæmt fyrir okkur ef þróunin yrði sú að með þessari lykilaðstöðu yrði hér fyrst og fremst ein ferðaskrifstofa allsráðandi. Benda má á annað dæmi, sem líka snertir Alþingi nokkuð, hvernig þessi aðstaða hefur úrslitaáhrif. Rætt hefur verið um það að ríkið eigi að bjóða út ferðir til annarra landa og leita eftir því við ferðaskrifstofu hver býður hagstæðust kjör. Ef við skoðum málið þá held ég að sé augljóst að þarna getur ekki orðið um neitt raunverulegt útboð að ræða. Aðilinn sem hefur á hendi sér að lækka verðið er auðvitað fyrst og fremst sá sem annast flutninginn því að aðrar ferðaskrifstofur fá aðeins smáþóknun fyrir að selja miðana og hafa því af litlu að taka til þess að gera tilboð sem einhverju máli skiptir, hvort sem það er fyrir alþingismenn, starfsmenn Alþingis eða aðra opinbera starfsmenn.
    Mér finnst spurning hvort þessi lykilaðstaða brjóti ekki í bága við 20. gr. frv. sem hæstv. viðskrh. er nýbúinn að leggja fram um samkeppnislög, þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Óheimilt er að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir, eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda.``
    Ég veit ekki hvort þetta er beinlínis óhagstætt hagsmunum neytenda í augnablikinu en ég vil fullyrða að það er óhagstætt hagsmunum neytenda ef ein ferðaskrifstofa yrði algerlega ráðandi í skjóli þess sem ræður flutningum til landsins að segja má. Ég hygg að það verði ekki nein skyndileg breyting á flutningum til landsins um næstu áramót þó að þá verði frjálsar ferðir. Ég hygg að Flugleiðir muni hafa yfirburðaaðstöðu áfram og ég vil segja vonandi mun það ekki leiða a.m.k. til þess að staða Flugleiða versni svo að Flugleiðir geti ekki haldið áfram að sinna vel því mikilvæga hlutverki sem það fyrirtæki hefur í þjóðfélaginu, að tryggja okkur öruggar og góðar ferðir til annarra landa því að sjálfsögðu verður ekki of mikil áhersla lögð á það, en þeim mun síður er að mínu mati ástæða til að þeir séu að greiða ár eftir ár háar upphæðir til reksturs ferðaskrifstofu sem aðrir aðilar í þjóðfélaginu virðast hafa getað rekið án slíks stuðnings um langt skeið.
    Ég vildi í þessu sambandi leggja sérstaka áherslu á að samgn. taki þessi atriði til athugunar við umfjöllun sína um þetta mál.